Sniðið á þessari skáld­sögu Braga Ólafs­sonar minnir ör­lítið á leik­rit. Hún skiptist í fyrri þátt, hlé og seinni þátt. Ljóð­skáldið Svanur Berg­munds­son leikur í bókinni hlut­verk sem verður því mikil­vægara þeim mun lengra sem líður á verkið. Hann svið­setur sig á nokkuð til­komu­mikinn hátt þó að deila megi um hversu vel hann leikur hlut­verk sitt.

Í fyrri þættinum hittum við unga parið Adolf og Drop­laugu sem skoða íbúð og í­huga að kaupa hana. Fast­eigna­salinn lætur ekki sjá sig, eig­andinn ekki heldur. Hún er öldruð og hefur fengið inni á Drop­laugar­stöðum. Ljóð­skáldið Svanur, bróðir eig­andans, býr í í­búðinni til bráða­birgða og stelur at­hyglinni frá í­búðinni og fast­eigna­kaupunum. Sagan snýst á æ skýrari hátt um hann og hans fólk.

Vill þjóna mann­kyninu

Sagan af í­búðar­kaupum Adolfs og Drop­laugar um­hverfist með öðrum orðum hægt og bítandi í söguna af Svani Berg­munds­syni. Eftir tæpar 40 bls. kemur fram að Svanur hafði „til­tölu­lega snemma á ævi sinni á­kveðið að hann myndi þjóna mann­kyninu best með því að starfa sem ljóð­skáld.“ Milli Adolfs og Svans eru snerti­fletir vegna þess að Adolf gaf ungur út ljóða­bók og þeir hafa einu sinni lesið upp saman. Adolf starfar þar að auki sem blaða­maður, er kunnugur sviptinga­samri ævi Svans og getur upp­lýst Drop­laugu um hana. Drop­laug verður tákn­rænn full­trúi al­mennings and­spænis ljóð­skáldinu Svani. Hún veit að skáld eins og hann eru til en sér ekki hvernig það ætti að geta þjónað mann­kyninu á nokkurn hátt.

Eins og við mátti búast í sögu eftir Braga Ólafs­son er tölu­vert um að per­sónur séu tví­stígandi og átta­villtar. Adolf dregst að hinni meló­dramatísku en jafn­framt hlá­legu ver­öld Svans meðan jarð­tenging Drop­laugar verður æ skýrari og hún vill kaupa í­búðina. Það gera þau hjónin og út­hýsa Svani þá um leið en þó að hann sé á leiðinni út úr í­búðinni fer æ meira fyrir honum í sögunni. Hún byrjaði hjá hinum ungu í­búða­kaup­endum en henni lýkur í nokkuð yfir­drifinni dramatík í lífi Svans.

Eins og við mátti búast í sögu eftir Braga Ólafs­son er tölu­vert um að per­sónur séu tví­stígandi og átta­villtar.

Svipar til háðs­á­deilu

Fyrri hlutinn er sagður í fyrstu per­sónu. Adolf er þar sögu­maður og styður eigin­konu sína eins og Björn að baki Kára. Þá tekur við hlé þar sem ein­hverjar tvær per­sónur hittast, eru ekki nafn­greindar en ræða „sýningu bókarinnar“ að því er virðist og reyna að vera fyndnar og segja hnyttnar sögur. Sam­ræður þeirra dreifast nokkuð víða en eru stundum spaugi­legar. Sam­ræðurnar í hléinu ýta undir háðs­á­deilu­braginn á bókinni allri. Í háðs­á­deilum er það sjaldnast meint sem sagt er og það verður hver að skilja á sinn hátt. Háðs­á­deilur geta verið magnaðar en þær eru líka háll ís. Stundum er merkingar­leysa ekkert sniðug.

Seinni hlutinn er sagður í þriðju per­sónu en hvarflar nokkuð oft yfir í leik­ræn sam­töl, sem sögu­maður segir frá. Sögu­maðurinn úr fyrri hluta er þá „lækkaður í tign“ og verður á­horf­andi að sögu Svans! Hins vegar er Svanur einnig á­hrifa­laus í sínu eigin lífi, nema þegar hann gerir slæm mis­tök. Þau hafa merkingu og verða ör­laga­valdar. Það virðist að hans mati „gegn gangi leiksins“. Ein­beittur vilji Drop­laugar til þess að kaupa íbúð og stofna heimili með Adolf er það eina sem ekki er af­byggt í þessari skáld­sögu.

Niður­staða: Fyndin og undir­furðu­leg skáld­saga um þá marg­vís­legu merkingu sem ekki er í lífi okkar.