Sniðið á þessari skáldsögu Braga Ólafssonar minnir örlítið á leikrit. Hún skiptist í fyrri þátt, hlé og seinni þátt. Ljóðskáldið Svanur Bergmundsson leikur í bókinni hlutverk sem verður því mikilvægara þeim mun lengra sem líður á verkið. Hann sviðsetur sig á nokkuð tilkomumikinn hátt þó að deila megi um hversu vel hann leikur hlutverk sitt.
Í fyrri þættinum hittum við unga parið Adolf og Droplaugu sem skoða íbúð og íhuga að kaupa hana. Fasteignasalinn lætur ekki sjá sig, eigandinn ekki heldur. Hún er öldruð og hefur fengið inni á Droplaugarstöðum. Ljóðskáldið Svanur, bróðir eigandans, býr í íbúðinni til bráðabirgða og stelur athyglinni frá íbúðinni og fasteignakaupunum. Sagan snýst á æ skýrari hátt um hann og hans fólk.
Vill þjóna mannkyninu
Sagan af íbúðarkaupum Adolfs og Droplaugar umhverfist með öðrum orðum hægt og bítandi í söguna af Svani Bergmundssyni. Eftir tæpar 40 bls. kemur fram að Svanur hafði „tiltölulega snemma á ævi sinni ákveðið að hann myndi þjóna mannkyninu best með því að starfa sem ljóðskáld.“ Milli Adolfs og Svans eru snertifletir vegna þess að Adolf gaf ungur út ljóðabók og þeir hafa einu sinni lesið upp saman. Adolf starfar þar að auki sem blaðamaður, er kunnugur sviptingasamri ævi Svans og getur upplýst Droplaugu um hana. Droplaug verður táknrænn fulltrúi almennings andspænis ljóðskáldinu Svani. Hún veit að skáld eins og hann eru til en sér ekki hvernig það ætti að geta þjónað mannkyninu á nokkurn hátt.
Eins og við mátti búast í sögu eftir Braga Ólafsson er töluvert um að persónur séu tvístígandi og áttavilltar. Adolf dregst að hinni melódramatísku en jafnframt hlálegu veröld Svans meðan jarðtenging Droplaugar verður æ skýrari og hún vill kaupa íbúðina. Það gera þau hjónin og úthýsa Svani þá um leið en þó að hann sé á leiðinni út úr íbúðinni fer æ meira fyrir honum í sögunni. Hún byrjaði hjá hinum ungu íbúðakaupendum en henni lýkur í nokkuð yfirdrifinni dramatík í lífi Svans.
Eins og við mátti búast í sögu eftir Braga Ólafsson er töluvert um að persónur séu tvístígandi og áttavilltar.
Svipar til háðsádeilu
Fyrri hlutinn er sagður í fyrstu persónu. Adolf er þar sögumaður og styður eiginkonu sína eins og Björn að baki Kára. Þá tekur við hlé þar sem einhverjar tvær persónur hittast, eru ekki nafngreindar en ræða „sýningu bókarinnar“ að því er virðist og reyna að vera fyndnar og segja hnyttnar sögur. Samræður þeirra dreifast nokkuð víða en eru stundum spaugilegar. Samræðurnar í hléinu ýta undir háðsádeilubraginn á bókinni allri. Í háðsádeilum er það sjaldnast meint sem sagt er og það verður hver að skilja á sinn hátt. Háðsádeilur geta verið magnaðar en þær eru líka háll ís. Stundum er merkingarleysa ekkert sniðug.
Seinni hlutinn er sagður í þriðju persónu en hvarflar nokkuð oft yfir í leikræn samtöl, sem sögumaður segir frá. Sögumaðurinn úr fyrri hluta er þá „lækkaður í tign“ og verður áhorfandi að sögu Svans! Hins vegar er Svanur einnig áhrifalaus í sínu eigin lífi, nema þegar hann gerir slæm mistök. Þau hafa merkingu og verða örlagavaldar. Það virðist að hans mati „gegn gangi leiksins“. Einbeittur vilji Droplaugar til þess að kaupa íbúð og stofna heimili með Adolf er það eina sem ekki er afbyggt í þessari skáldsögu.
Niðurstaða: Fyndin og undirfurðuleg skáldsaga um þá margvíslegu merkingu sem ekki er í lífi okkar.