Bindindis­hreyfingin IOGT (International Organization of Good Templars) var í mínu ung­dæmi upp­nefnd „Ís­lenskir of­drykkju­menn og gamlir tugt­hús­limir“. Hreyfingin starf­rækti lúðra­sveit á sínum tíma, og þar spilaði Karl O. Runólfs­son þegar hann var ungur drengur. Starfið hafði djúp­stæð á­hrif á hann og var hann á­huga­maður um lúðra­blástur alla tíð. Enda er oft mikið fjör og hnit­miðaður taktur í tón­list hans.

Gott dæmi um það mátti heyra á tón­leikum í röðinni Ár ís­lenska ein­söngslagsins í Salnum í Kópa­vogi á sunnu­daginn. Lagið, sem var upp­hafs­lag tón­leikanna, var Viltu fá minn vin að sjá, um „sveininn þann sem ég ann, fríðari engan finna má...“ Hanna Dóra Sturlu­dóttir mezzó­sópran söng með til­þrifum og flottri radd­beitingu (sem hún gerði líka eftir hlé). Verra var að líf­legur píanó­leikurinn var heldur sterkur og yfir­gnæfði sönginn. Píanó­leikurinn var í höndum Matt­hildar Önnu Gísla­dóttur, sem stóð sig annars mjög vel á tón­leikunum. Í þessu til­tekna at­riði var hann hins vegar full­mikið af því góða.

Fyrst væmið svo betra

Eins og á öðrum tón­leikum raðarinnar voru fjórir söngvarar og tveir píanó­leikarar. Ekki þó allir í einu, nema í auka­laginu, sem var Viki­vaki eftir Val­geir Guð­jóns­son. Eftir að Hanna Dóra hafði sungið þrjú lög var röðin komin að Agli Árna Páls­syni tenór. Hann flutti fyrst frekar væmið lag eftir Hreiðar Inga Þor­steins­son, Ó, lífsins faðir, sem kom ekki sér­lega vel út.

Hin tvö lögin voru miklu skemmti­legri. Annað var Fyrir­látið mér eftir Jón Ás­geirs­son og hitt Frændi, þegar fiðla þegir eftir Gunn­stein Ólafs­son. Bæði lögin hittu beint í mark og Egill söng tignar­lega og með sann­færandi til­finningu. Stígandin í túlkuninni var mark­viss og röddin sér­lega glæsi­leg. Sömu sögu er að segja um lögin eftir hlé, sem voru eftir Sig­valda Kalda­lóns og Árna Thor­steins­son.

Með minni rödd

Harpa Ósk Björns­dóttir sópran var líka góð, en rödd hennar var þó tals­vert minni. Máríu­vers eftir Pál Ís­ólfs­son – það undur­fagra lag – hefði að ó­sekju mátt vera stærra um sig. Sömu sögu er að segja um Svana­söng á heiði eftir Sig­valda Kalda­lóns og Síðasta dansinn eftir Karl O. Runólfs­son. Harpa stóð sig tals­vert betur eftir hlé í lögum eftir Jórunni Viðar, Hildi­gunni Rúnars­dóttur og Pál Ís­ólfs­son; senni­lega var hún þá komin al­menni­lega í gang.

Á­kaf­lega grípandi

Fjórði söngvarinn á tón­leikunum var Unn­steinn Árna­son bassi, sem ég minnist ekki eftir að hafa heyrt í áður. Hann var prýði­legur, með sér­lega óm­þýða, en líka djúpa og kraft­mikla rödd. Hann söng m.a. ljúft lag eftir Oli­ver Kentish, Heim­þrá, sem og Krumma eftir Tryggva M. Bald­vins­son, einnig mjög flott. Sverrir konungur eftir Svein­björn Svein­björns­son, sem var eftir hlé, var líka á­kaf­lega grípandi.

Eins og áður sagði voru tveir píanó­leikarar á tón­leikunum. Matt­hildi Önnu hef ég þegar minnst á, en hin var Hrönn Þráins­dóttir, sem spilaði á­vallt mjúk­lega og með næmri til­finningu.

Tón­leikarnir voru á ó­vana­legum tíma, klukkan hálf tvö, sem er sniðugt skipu­lag. Fínt er að fara á tón­leika svo snemma á sunnu­deginum og eiga svo megnið af deginum eftir að þeim lýkur. Þetta var gaman.

Niður­staða: Yfir­leitt mjög skemmti­legir tón­leikar.