Nú þegar ýmsir leiðandi leirlistamenn okkar eru annað hvort horfnir til feðra sinna eða hafa dregið saman seglin, er löngu kominn tími til að taka púlsinn á leirlistinni í landinu, gaumgæfa hvað yngri kynslóðin hefur fyrir stafni og hvaða markmið hún hefur. Yfirlitssýningar á leirlist hafa verið fátíðar síðustu ár, kannski vegna þess að fyrir áhugaleysi safnanna hefur það dæmst á leirlistafólkið sjálft að efna til slíkra sýninga. Það gefur auga leið að það ágæta fólk hefur margt þarfara að gera og hefur þar að auki takmarkað bolmagn til að sinna slíkum verkefnum. Auk þess er umdeilanlegt hvort fagfólk í greininni á yfirhöfuð að vera að leggja hvort tveggja listrænt og sögulegt mat á verk kollega sinna. Listasöfnin eða Hönnunarsafnið væru hinn eðlilegi vettvangur slíkra úttekta.
Allt um það hafa leirlistamenn nú tekið sig saman og sett saman stóra sýningu á Hlöðulofti Korpúlfsstaða, rýminu þar sem listamenn hafa haldið svokallaðar „messur“ sínar á síðustu árum og stendur sýningin til 27. nóvember. Og viti menn, þessi sýning reynist helst til lítil fyrir þetta gímald sem Hlöðuloftið er. Verkin, sem mörg hver eru ekki mikil um sig, nánast týnast út við veggi eða úti í hornum eða eru borin ofurliði af dáldið groddalegum arkitektúrnum á staðnum. Heildarsvip sýningarinnar hefði þurft að móta með markvissari hætti, til dæmis að koma henni allri fyrir á misjafnlega háum stöllum miðsvæðis. Einhvers konar sýningarskrá hefði vel mátt fylgja með.
Yfirlitssýningar á leirlist hafa verið fátíðar síðustu ár, kannski vegna þess að fyrir áhugaleysi safnanna hefur það dæmst á leirlistafólkið sjálft að efna til slíkra sýninga.
Staða mála í leirlistinni
Því er hún soldið hrá og ómarkviss, þessi sýning. Engu að síður, þegar áhorfandinn er búinn að átta sig á henni, er á henni að finna ýmsar vísbendingar um stöðu mála í leirlistinni eins og hún blasir við í dag. Ég held að við séum í miðju millibilsástandi. „Stóru“ nöfnin sem áður báru uppi íslenska leirlist, fólk eins og Haukur Dór, Kogga, Elísabet Haraldsdóttir, Jónína Guðnadóttir, Kristín Ísleifsdóttir og Ólöf Erla Bjarnadóttir, svo nokkur dæmi séu nefnd, eru hér fjarri góðu gamni. Því er þessi sýning óneitanlega ekki eins rismikil og ýmsar fyrri yfirlitssýningar. Það vantar sterkan karakter, einn eða fleiri, til að gefa tóninn.
Ágætlega menntað fagfólk
Hins vegar er lítið út á sýnendurna 19 að setja, svona á heildina litið. Það er upp til hópa ágætlega menntað fagfólk, sem hefur fullt vald á hvort tveggja þeim klassísku vinnuaðferðum sem það aðhyllist eða frjálslegri formgerð. Og tilraunir sýnenda með glerjunga eða aðskiljanlegar áferðir gera víðast hvar í blóðið sitt. Sérstaklega þóttu mér glerjungar Kristbjargar Guðmundsdóttur glæsilegt handverk. Fulltrúi klassíska viðhorfsins, hreinræktuðu nytjalistarinnar, gæti sem best verið eini karlmaðurinn á sýningunni, Daði Harðarson, en ef nefna mætti leirlistamenn á skúlptúrvængnum eru þær einna mest áberandi Arnbjörg Drífa Káradóttir og Unnur S. Gröndal.
Þetta fólk þarf hins vegar að fá fleiri sýningartækifæri og þénugri sýningaraðstöðu til að það fái notið sín til fulls. Þá efa ég ekki að þau fræ sem hér er sáð muni bera ávöxt.
Niðurstaða: Ágætt fagfólk á fremur rislítilli sýningu.