Nú þegar ýmsir leiðandi leir­lista­menn okkar eru annað hvort horfnir til feðra sinna eða hafa dregið saman seglin, er löngu kominn tími til að taka púlsinn á leir­listinni í landinu, gaum­gæfa hvað yngri kyn­slóðin hefur fyrir stafni og hvaða mark­mið hún hefur. Yfir­lits­sýningar á leir­list hafa verið fá­tíðar síðustu ár, kannski vegna þess að fyrir á­huga­leysi safnanna hefur það dæmst á leir­lista­fólkið sjálft að efna til slíkra sýninga. Það gefur auga leið að það á­gæta fólk hefur margt þarfara að gera og hefur þar að auki tak­markað bol­magn til að sinna slíkum verk­efnum. Auk þess er um­deilan­legt hvort fag­fólk í greininni á yfir­höfuð að vera að leggja hvort tveggja list­rænt og sögu­legt mat á verk kollega sinna. Lista­söfnin eða Hönnunar­safnið væru hinn eðli­legi vett­vangur slíkra út­tekta.

Allt um það hafa leir­lista­menn nú tekið sig saman og sett saman stóra sýningu á Hlöðu­lofti Korp­úlfs­staða, rýminu þar sem lista­menn hafa haldið svo­kallaðar „messur“ sínar á síðustu árum og stendur sýningin til 27. nóvember. Og viti menn, þessi sýning reynist helst til lítil fyrir þetta gím­ald sem Hlöðu­loftið er. Verkin, sem mörg hver eru ekki mikil um sig, nánast týnast út við veggi eða úti í hornum eða eru borin ofur­liði af dáldið grodda­legum arki­tektúrnum á staðnum. Heildar­svip sýningarinnar hefði þurft að móta með mark­vissari hætti, til dæmis að koma henni allri fyrir á mis­jafn­lega háum stöllum mið­svæðis. Ein­hvers konar sýningar­skrá hefði vel mátt fylgja með.

Yfir­lits­sýningar á leir­list hafa verið fá­tíðar síðustu ár, kannski vegna þess að fyrir á­huga­leysi safnanna hefur það dæmst á leir­lista­fólkið sjálft að efna til slíkra sýninga.

Staða mála í leir­listinni

Því er hún soldið hrá og ó­mark­viss, þessi sýning. Engu að síður, þegar á­horf­andinn er búinn að átta sig á henni, er á henni að finna ýmsar vís­bendingar um stöðu mála í leir­listinni eins og hún blasir við í dag. Ég held að við séum í miðju milli­bils­á­standi. „Stóru“ nöfnin sem áður báru uppi ís­lenska leir­list, fólk eins og Haukur Dór, Kogga, Elísa­bet Haralds­dóttir, Jónína Guðna­dóttir, Kristín Ís­leifs­dóttir og Ólöf Erla Bjarna­dóttir, svo nokkur dæmi séu nefnd, eru hér fjarri góðu gamni. Því er þessi sýning ó­neitan­lega ekki eins ris­mikil og ýmsar fyrri yfir­lits­sýningar. Það vantar sterkan karakter, einn eða fleiri, til að gefa tóninn.

Á­gæt­lega menntað fag­fólk

Hins vegar er lítið út á sýn­endurna 19 að setja, svona á heildina litið. Það er upp til hópa á­gæt­lega menntað fag­fólk, sem hefur fullt vald á hvort tveggja þeim klassísku vinnu­að­ferðum sem það að­hyllist eða frjáls­legri form­gerð. Og til­raunir sýn­enda með glerjunga eða að­skiljan­legar á­ferðir gera víðast hvar í blóðið sitt. Sér­stak­lega þóttu mér glerjungar Krist­bjargar Guð­munds­dóttur glæsi­legt hand­verk. Full­trúi klassíska við­horfsins, hrein­ræktuðu nytja­listarinnar, gæti sem best verið eini karl­maðurinn á sýningunni, Daði Harðar­son, en ef nefna mætti leir­lista­menn á skúlptúr­vængnum eru þær einna mest á­berandi Arn­björg Drífa Kára­dóttir og Unnur S. Grön­dal.

Þetta fólk þarf hins vegar að fá fleiri sýningar­tæki­færi og þénugri sýningar­að­stöðu til að það fái notið sín til fulls. Þá efa ég ekki að þau fræ sem hér er sáð muni bera á­vöxt.

Niður­staða: Á­gætt fag­fólk á fremur ris­lítilli sýningu.