Sumir vilja meina að heimurinn rambi á brún dystópíunnar, glataðrar framtíðar þar sem allt er verra en nú. Aðrir vilja meina að hann hafi alltaf gert það. Orðið dystópía þýðir einfaldlega vondur staður og í dystópískum bókmenntum fer heimur ekki versnandi, hann er löngu farinn og ekkert er eftir nema harðræði sem dregur fram allt það versta í fólki og tækni. Stundum er einhvers konar fallegri mennsku teflt fram sem vonarneista í rústunum en það getur brugðið til beggja vona um hvort sú mennska nær að sigrast á vonleysi og eyðileggingu.
Ljósið í myrkrinu
Í Dánum heimsveldum er það ástin sem er ljósið í myrkrinu, nánar tiltekið ást söguhetjunnar Emils á Sögu konu sinni, en þau eru aðskilin í upphafi sögunnar og það er aðeins vonin um endurfundi við hana sem heldur honum gangandi. Emil er atvinnulaus textasmiður sem hefur verið ráðinn til að taka viðtal við geimfarann Pi, þann eina sem hefur snúið aftur úr risastórum svörtum ferhyrningi sem skyndilega birtist á himninum. Emil sér þetta verkefni sem tækifæri til að skapa sér og Sögu mannsæmandi líf á sviðinni jörð sem er heimili 99% mannkyns en hið ríka eina prósent hefur hreiðrað um sig í allsnægtum á hringsóli ofan gufuhvolfsins og fær það litla sem eftir er af auðlindum jarðar til sín með lyftu sem er staðsett á hálendi Íslands.
Dagar mannkyns virðast taldir og til að halda lífi í fólki er upplifunum stýrt af örvélbúnaði sem sprautað er í blóðrásina og sýndarveruleiki er greyptur á hornhimnurnar þannig að erfitt er að gera sér grein fyrir því hvað er raunverulegt og hvað ekki.
Hið mannlega ástand
Dáin heimsveldi er nafn á hanastéli sem geimfarinn Pi drekkur til að minna sig á hamfarir heimsins í harm-göfugri tilraun til að drepa sig úr áfengisneyslu en þeir Emil eiga það sameiginlegt að leita í áfengi þegar lífið verður þeim næstum um megn. Það er áhugavert að áfengi sé valvímuefni þessara félaga í upphafi 22. aldarinnar þar sem auðvelt væri að ímynda sér að mun kræfari og áhrifameiri fíknir hefðu komið fram.
Að því leyti má segja að Dáin heimsveldi sé ekki einfaldlega bara dystópísk framtíðarsýn heldur líka dæmisaga. Og um hvað? Um sorg og missi og vonleysi og uppgjöf á hinu mannlega ástandi sem gerir nákvæmlega ekki neitt fyrir neinn. Meira að segja ástin, sem lengi framan af virðist vera eina haldreipið í þessari voluðu, óréttlátu og hrörnandi veröld sem bókin sýnir, reynist vera jafn deyjandi og annað í heimi sögunnar.
Dáin heimsveldi er vissulega vísindaskáldsaga en eins og þær bestu úr þeim geira vísar hún langt út fyrir sjálfa sig.
Tilgangsleysi allra hluta
Dáin heimsveldi er vissulega vísindaskáldsaga en eins og þær bestu úr þeim geira vísar hún langt út fyrir sjálfa sig. Bókin er full af vísunum, tvíræðni og myndmáli sem á köflum verður eins og martröð þegar ekki er ljóst hvort sögumaður er að upplifa hluti á líkamlega eða stafræna sviðinu. Yfir öllu svífur svo andi trega og tilgangsleysis allra hluta. Einstaklega vel skrifuð bók sem situr með lesandanum lengi að lestri loknum.
Niðurstaða: Afar áhrifamikil og ljúfsár dystópía sem situr lengi með lesandanum.