Sumir vilja meina að heimurinn rambi á brún dystópíunnar, glataðrar fram­tíðar þar sem allt er verra en nú. Aðrir vilja meina að hann hafi alltaf gert það. Orðið dystópía þýðir ein­fald­lega vondur staður og í dystópískum bók­menntum fer heimur ekki versnandi, hann er löngu farinn og ekkert er eftir nema harð­ræði sem dregur fram allt það versta í fólki og tækni. Stundum er ein­hvers konar fal­legri mennsku teflt fram sem vonar­neista í rústunum en það getur brugðið til beggja vona um hvort sú mennska nær að sigrast á von­leysi og eyði­leggingu.

Ljósið í myrkrinu

Í Dánum heims­veldum er það ástin sem er ljósið í myrkrinu, nánar til­tekið ást sögu­hetjunnar Emils á Sögu konu sinni, en þau eru að­skilin í upp­hafi sögunnar og það er að­eins vonin um endur­fundi við hana sem heldur honum gangandi. Emil er at­vinnu­laus texta­smiður sem hefur verið ráðinn til að taka við­tal við geim­farann Pi, þann eina sem hefur snúið aftur úr risa­stórum svörtum fer­hyrningi sem skyndi­lega birtist á himninum. Emil sér þetta verk­efni sem tæki­færi til að skapa sér og Sögu mann­sæmandi líf á sviðinni jörð sem er heimili 99% mann­kyns en hið ríka eina prósent hefur hreiðrað um sig í alls­nægtum á hring­sóli ofan gufu­hvolfsins og fær það litla sem eftir er af auð­lindum jarðar til sín með lyftu sem er stað­sett á há­lendi Ís­lands.

Dagar mann­kyns virðast taldir og til að halda lífi í fólki er upp­lifunum stýrt af ör­vél­búnaði sem sprautað er í blóð­rásina og sýndar­veru­leiki er greyptur á horn­himnurnar þannig að erfitt er að gera sér grein fyrir því hvað er raun­veru­legt og hvað ekki.

Hið mann­lega á­stand

Dáin heims­veldi er nafn á hana­stéli sem geim­farinn Pi drekkur til að minna sig á ham­farir heimsins í harm-göfugri til­raun til að drepa sig úr á­fengis­neyslu en þeir Emil eiga það sam­eigin­legt að leita í á­fengi þegar lífið verður þeim næstum um megn. Það er á­huga­vert að á­fengi sé val­vímu­efni þessara fé­laga í upp­hafi 22. aldarinnar þar sem auð­velt væri að í­mynda sér að mun kræfari og á­hrifa­meiri fíknir hefðu komið fram.

Að því leyti má segja að Dáin heims­veldi sé ekki ein­fald­lega bara dystópísk fram­tíðar­sýn heldur líka dæmi­saga. Og um hvað? Um sorg og missi og von­leysi og upp­gjöf á hinu mann­lega á­standi sem gerir ná­kvæm­lega ekki neitt fyrir neinn. Meira að segja ástin, sem lengi framan af virðist vera eina hald­reipið í þessari voluðu, ó­rétt­látu og hrörnandi ver­öld sem bókin sýnir, reynist vera jafn deyjandi og annað í heimi sögunnar.

Dáin heims­veldi er vissu­lega vísinda­skáld­saga en eins og þær bestu úr þeim geira vísar hún langt út fyrir sjálfa sig.

Til­gangs­leysi allra hluta

Dáin heims­veldi er vissu­lega vísinda­skáld­saga en eins og þær bestu úr þeim geira vísar hún langt út fyrir sjálfa sig. Bókin er full af vísunum, tví­ræðni og mynd­máli sem á köflum verður eins og mar­tröð þegar ekki er ljóst hvort sögu­maður er að upp­lifa hluti á líkam­lega eða staf­ræna sviðinu. Yfir öllu svífur svo andi trega og til­gangs­leysis allra hluta. Ein­stak­lega vel skrifuð bók sem situr með lesandanum lengi að lestri loknum.

Niður­staða: Afar á­hrifa­mikil og ljúf­sár dystópía sem situr lengi með lesandanum.