Bækur

Reykja­vík

Höfundar: Ragnar Jónas­son og Katrín Jakobs­dóttir

Fjöldi síðna: 349

Út­gefandi: Ver­öld

„Ál­krónurnar nýju gátu flotið á vatni, það sagði sína sögu“ (bls. 39).

Þessi setning í nýju skáld­sögunni, Reykja­vík, gefur fyrir­heit um á­skoranir Ís­lands í tíma nær og fjær.

Sagan byrjar í ró­legum takti á hvarfi ungrar konu. Lög­reglu­maðurinn Kristján fær málið á heilann þegar ekkert gengur að upp­lýsa það og fleiri taka við rann­sóknar­keflinu þegar á líður, ekki síst blaða­maðurinn Valur, geð­þekk per­sóna, sem berst fyrir hug­sjón og gildum blaða­mennsku og rétt­lætis – þótt á móti blási. Vanda­samt er að segja meira um sögu­þráðinn, því bókin hverfist um ráð­gátu sem ekki má spilla.

Sögu­svið bókarinnar spannar 30 ár. Hún gerist þó að mestu leyti árið 1986 og nær at­burða­rásin há­marki á sama tíma og Reagan og Gor­bat­sjev hittast í Höfða.

For­sætis­ráð­herra tekur á­hættu

Þetta er einkar vel skrifuð saga, lipur og ber þess merki að höfundarnir hafi, eins og fram kemur í við­tali við Frétta­blaðið um síðustu helgi, lát­laust sent texta­drögin sín á milli, breytt og bætt. Vel er hugað að stuttum og lýsandi hliðar­senum til að festa and­rúm og ramma inn í tímann. Sagan er sögð nánast al­farið í krónó­lógískri tíma­röð og flýtur vel líkt og ál­krónan. En hvernig er hægt að treysta saka­mála­rann­sókn í ríki sem lætur búa til gjald­miðil sem flýtur á vatni?

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra tekur á­hættu, en niður­staðan er enn ein fjöðrin í hennar hatt. Það skín í gegn að Katrínu og Ragnari hefur fundist gaman að flétta þræði sína saman. Þótt ein­staka fljóta­skrift sé að finna og taktur bókarinnar hnikist ör­lítið til á köflum verður ekki annað sagt en að ráð­gátu­fléttan sé af­bragð. Bókin hefur mikið af­þreyingar­gildi og er sér­lega að­gengi­leg öllum les­enda­hópum.

Gamal­dags en gott

Per­sónu­sköpun er vel heppnuð. Stundum þarf ekki mörg orð til að kynna fólk til sögu:

„Hún var full­komin and­stæða við ís­kalda sjúkra­stofuna: Rauð og svört, ilm­vatns­keimur í bland við daufa vín­lykt. Hann þekkti Þór­dísi sína, alla hennar kosti og galla, og hann elskaði hana eins og hún var.“ (50-51). Ein­falt, skýrt og fal­legt.

Um mið­bik sögunnar verða dramatísk hvörf. Þau skella á lesandanum líkt og flóðalda af ís­köldu At­lants­hafi. Ég veit dæmi um lesanda á mínu heimili sem þurfti nánast á­falla­hjálp. Að ná svo djúpri tengingu við fólk í skáld­sögu er kúnst.

Ég las allar 349 síðurnar í einum rykk og naut hverrar sekúndu. Þótt sagan sé fyrst og fremst af­þreying er hún líka þjóðar­spegill og liggur margt inn­rímið undir. Snoturt dæmi lýtur að Elíasi Mar og Agöthu Christi­e. Á köflum minnti bókin mig á ung­linga­bók­menntir æsku minnar með skörpum and­stæðum góðs og ills. Tví­hyggjan sem birtist á köflum í sögunni er kannski svo­lítið gamal­dags en það telst ekki til á­galla. Gamal­dags er nefni­lega stundum gott!

Niður­staða: Grípandi saga sem fer hægt af stað en ríg­heldur lesandanum. Rifjar upp á­huga­verðan kafla í sögu þjóðar þar sem spilling og völd haldast ó­þægi­lega þétt í hendur.