Sjö ævintýri um skömm

eftir Tyrfing Tyrfingsson

Leikstjórn: Stefán Jónsson

Leikarar: Edda Arnljótsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Eggert Þorleifsson, Hilmir Snær Guðnason, Ilmur Kristjánsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Vincent Kári van der Valk.

Leikmynd: Börkur Jónsson

Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir

Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson

Sviðshreyfingar: Sveinbjörg Þórhallsdóttir

Lýsing: Halldór Örn Óskarsson

Hljóðhönnun: Kristján Sigmundur Einarsson, Gísli Galdur Þorgeirsson

Myndbandsgerð: Signý Rós Ólafsdóttir

Það var galsi í lofti er Tyrfingur Tyrfingsson frumsýndi nýjasta leikrit sitt, Sjö ævintýri um skömm, í Þjóðleikhúsinu 1. apríl síðastliðinn. Tyrfingur er fyrir löngu búinn að stimpla sig inn í menningarvitundina sem eins konar enfant terrible íslenskra sviðslista og því engin furða að spenna ríkti fyrir nýjasta verki hans, því fyrsta sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu og því fyrsta eftir að leikhúsinu tókst loksins að skríða út úr pestarbæli Covid-áranna.

Tjaldið var dregið frá á klassíska mynd úr sálfræðileikhúsinu: Taugaveiklaður sjúklingur, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, situr á móti föðurlegum geðlækni, Hilmi Snæ Guðnasyni. Þó varð fljótt ljóst að hér er ekki um hefðbundið stofudrama að ræða.

Upphófst atburðarás sem var eins og blanda af nútíma revíu og dæmisögu fyrir hina trufluðu 21. öld, eitthvað sem hefði aðeins getað sprottið upp úr huga Tyrfings Tyrfingssonar. Rammafrásögn verksins á sér stað á skrifstofu áðurnefnds geðlæknis sem lögreglukonan Agla reynir að neyða til að skrifa upp á sterkustu fáanlegu verkjalyf fyrir sig, því hún vill heldur falla í þriggja daga langan lyfjasvefn heldur en takast á við molnandi tilfinningalíf sitt.

Ólík leikhúsform

Geðlæknirinn vill ekki verða við ósk Öglu en hann sér þó tækifæri í þessari brotnu konu og býðst til að hjálpa henni með nýstárlegri sálgreiningaraðferð sinni sem byggist á þeirri kenningu að að baki öllum andlegum veikindum liggi sjö ævintýri um skömm. Agla byrjar því að rekja sig í gegnum áfallasögu sína í þeirri von að geðlæknirinn geti fundið lykilinn að veikindum hennar.

Hvert og eitt ævintýri er eins og sérstakur einþáttungur og í sviðssetningunni má sjá tilvísanir í margs konar ólík leikhúsform á borð við farsa, söngleik, natúralisma, og jafnvel brúðuleikhús. Hér fær leikmynd Barkar Jónssonar, búningar Þórunnar Elísabetar og tónlist Gísla Galdurs virkilega að njóta sín og er sviðsetningin algjör veisla fyrir skilningarvitin. Sjö ævintýri um skömm er sannkallað karnival og vinnur leikstjórinn Stefán Jónsson mikið afrek, að ná að hnýta svo óreiðukennt stórvirki saman í eina samhangandi heild.

Tyrfingi tekst afar vel upp með verkið.
fréttablaðið/sigtryggur ari

Frábærir leikarar

Leikararnir standa sig allir frábærlega í stykkinu, hlutverk hins drykkfellda geðlæknis er eins og skrifað fyrir Hilmi Snæ og Ilmur Kristjánsdóttir sýnir á sér nýjar hliðar sem hin ofbeldisfulla og andlega óstöðuga lögreglukona Agla. Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem Ilmur leikur lögreglukonu en Agla er þó gjörólík hinni yfirveguðu Hinriku sem hún túlkaði í Ófærðarþáttunum; klassísk andhetja sem maður vorkennir sökum aðstæðna og uppeldis, en fyrirlítur fyrir ofbeldisfulla hegðun. Steinunn Ólína er þrumugnýr sem Edda, hin harðbrjósta móðir Öglu, sem er einnig yfirmaður hennar í lögreglunni. Hamhleypan Eggert Þorleifsson bregður sér í nokkur hlutverk, fyrst sem heimilislæknirinn Vilhjálmur Briem sem kafnar við kynlífsathöfn með Bónuspoka á höfðinu og síðar sem Friðgeir, faðir Öglu, sem hefur þá köllun í lífinu að skrifa handbók um hægðir dýra.

Kristín Þóra Haraldsdóttir stendur sig einnig vel sem kærasta Öglu, yfirborðskennda uppgjafaleikkonan Hanna. Það er þó Ólafía Hrönn sem stelur senunni sem sjálfskipaða kanamellan og verðandi Hollywood-stjarnan amma Malla. Svo frábær er hún í þessu hlutverki að undirritaður myndi ekki slá hendinni á móti því að sjá einleik í kabarettstíl með ömmu Möllu, sem er án efa einn skemmtilegasti og eftirminnilegasti karakter sem Tyrfingur hefur skrifað á sínum ferli.

Kaldhæðni og gálgahúmor

Persónurnar eru allar hálf aumkunarverðar, fólk sem er svo brennt af eigin áföllum að það á sér varla viðreisnar von og tekur eigin sársauka út á öðrum í kringum sig. Tyrfingur er meistari þess að draga fram hinar myrku hliðar mannlífsins án þess að fórna skemmtanagildinu. Kaldhæðni og gálgahúmor einkenna verkið, en af því leiðir að erfitt er að samsama sig persónunum og ekki laust við að maður spyrji sig, eins og geðlæknirinn gerir á einum tímapunkti: „Hvernig tengist þetta skömm?“ Því engin af persónunum kann nefnilega að skammast sín.

Snerpa og sjónarspil verksins dalaði örlítið eftir hlé en náði sér þó á strik í magnaðri senu sem upphefst þegar Agla fær ekki að mæta í jarðarför ömmu Möllu, sem birtist henni svo í eiturlyfjamóki ásamt heilum englakór af kanamellum. Endir verksins var þó nokkuð snubbóttur miðað við epíkina framan af og heldur kaldranalegur. En kannski var ekki við öðru að búast frá persónum sem kunna ekki að skammast sín eða vinna úr skömminni, en að þær kjósi heldur að sópa tilfinningum sínum undir teppið en að takast á við þær.

Niðurstaða: Magnað sjónarspil sem einkennist af galsa og gálgahúmor en heldur kaldranalegri afstöðu. Eitt af lykilverkum Tyrfings Tyrfingssonar.