Arn­dís Þórarins­dóttir tók þá á­kvörðun fyrir nokkrum árum að hætta í dag­vinnunni og helga sig al­farið rit­störfum. Og les­endur á öllum aldri hafa heldur betur notið góðs af þeirri á­kvörðun. Galsa­bækurnar um Nær­buxna­verk­smiðjuna, bókin um míkrósam­fé­lagið í Blokkinni á heims­enda, ör­laga­saga skinn­hand­ritsins Möðru­vallar­bókar, ljóða­bókin Inn­ræti, allar þessar bækur hafa komið út á þessum árum og í kjöl­farið hlotið bæði barna­bóka­verð­laun Guð­rúnar Helga­dóttur og ís­lensku bók­mennta­verð­launin í flokki barna­bóka auk ýmissa til­nefninga. Nú er ný­komin út skáld­sagan Koll­hnís sem höfundur segir sjálf að hafi verið lengi í skrifum. Koll­hnís fellur undir skil­greininguna barna­bók fyrir 6-12 ára í Bóka­tíðindum en passar betur í flokkinn „bækur sem börn geta líka lesið“, eins og Guð­rún Helga­dóttir orðaði það, bækur sem alls­konar fólk getur haft bæði gaman og gagn af að lesa.

Sér sig ekki sem aðal­per­sónu

Koll­hnís dregur nafn sitt af fim­leika­á­stundun sögu­hetjunnar Álfs sem segir söguna í fyrstu per­sónu. Álfur á einn vin, Ragnar, sem er „aðal­per­sóna“ að mati Álfs sem sér sjálfan sig ekki þannig. Það er einna helst að hann sé aðal­per­sóna í lífi litla bróður síns, Eika, sem honum þykir ó­skap­lega vænt um og þegar for­eldrar þeirra fá þá fá­rán­legu flugu í höfuðið að Eiki sé ein­hverfur, bara af því að hann talar ekki eins mikið og jafn­aldrar hans, á­kveður Álfur að sanna fyrir þeim og heiminum öllum að svo sé ekki. Inn í söguna blandast svo lífið í fim­leikunum og ýmsar á­skoranir þar að lútandi og Harpa frænka Álfs sem hann tekur upp sam­skipti við í laumi en hún var áður besta fim­leika­kona landsins.

Koll­hnís er af­skap­lega vel skrifuð og skemmti­leg bók af­lestrar, bæði fyrir krakka og full­orðna. Álfur er skemmti­leg per­sóna sem les­endur fylgjast með þroskast og breytast og aðrar per­sónur vel út­færðar, orð­færið skemmti­legt, kaflar mis­langir og halda stundum bara utan um eina hugsun sem gefur les­endum færi á að staldra við.

Allt heldur á­fram

Sjónar­horn syst­kina barna sem verða ó­hjá­kvæmi­lega aðal­per­sónur í lífi fjöl­skyldna vegna veikinda eða af ein­hverjum öðrum á­stæðum eru gríðar­lega mikil­vægt inn­legg í bók­menntirnar, bæði fyrir börn sem eru í svipaðri stöðu en einnig fyrir for­eldra og aðra full­orðna. Sjónar­horn Álfs ræður för í sögunni og það er ekki endi­lega alltaf á­reiðan­legt, hann á erfitt með að horfast í augu við sann­leika bróður síns og frænku og smíðar sína eigin heims­mynd til að fá hegðun þeirra til að ganga upp, nokkuð sem lík­legt er að bæði börn og full­orðnir sem þurfa að takast á við ó­þægi­legan sann­leika í fari fjöl­skyldu­með­lima geri. Ferða­lag hans í gegnum breyttar for­sendur í fjöl­skyldunni og í hans eigin sam­bandi við fjöl­skyldu­með­limi er vel út­fært, sárs­aukinn við að horfast í augu við raun­veru­leikann og styrkurinn sem felst í því að sjá að allt heldur á­fram þrátt fyrir að allt fari á hvolf um tíma eins og gerist í al­menni­legum koll­hnís.

Niður­staða: Koll­hnís er á­hrifa­mikil, vel skrifuð og mikil­væg bók í ís­lenska bók­mennta­flóru, skemmti­leg af­lestrar og vekur um­hugsun.

Koll­hnís er af­skap­lega vel skrifuð og skemmti­leg bók af­lestrar, bæði fyrir krakka og full­orðna.