Einu sinni las ég fantasíu­bók sem hefst í hel­víti. Þar kveljast sálir for­dæmdra um alla ei­lífð, en illu andarnir passa upp á að logarnir brenni sem heitast. Á meðan er spiluð tón­list. Þetta er ein­göngu tón­list eftir mis­heppnuð tón­skáld, verk sem voru í mesta lagi flutt einu sinni á jörðinni. Sagan dæmdi þau úr leik, en í hel­víti eru þau spiluð enda­laust, hinum for­dæmdu til enn meiri skap­raunar.

Tón­smíðarnar eftir Huga Guð­munds­son enda ekki þarna, svo mikið er víst. Á geisla­diskinum Wind­bells er að finna sau­tján ár af tón­list hans og ber hann ríkum hæfi­leikum fagurt vitni. Verkin eru að­gengi­legri en oft er uppi á teningnum þegar nú­tíma­tón­list er annars vegar. Hefð­bundnar tón­tegundir koma fyrir og lag­línurnar eru grípandi. Hljómarnir eru oftar en ekki töfrandi og á­ferðin sem skapast af sam­hljómandi röddum ó­líkra hljóð­færa er fín­gerð og heillandi. Hvergi er neitt sem er ó­dýrt eða klisju­kennt. Maður finnur að Huga liggur á­vallt mikið á hjarta með skáld­skap sínum.

Hvergi er neitt sem er ó­dýrt eða klisju­kennt. Maður finnur að Huga liggur á­vallt mikið á hjarta með skáld­skap sínum.

Ná­kvæmt sam­spil

Entropy er lík­lega klassískasta verkið á geisla­diskinum. Það er mjög fágað og er í tveimur köflum. Hinn fyrri er fremur fjör­legur, en sá seinni miklu ró­legri. Tón­listin varpar upp mynd af til­vist sem byrjar í föstu formi, full af lífi, en missir smám saman lífs­kraftinn. Kammer­sveit Reykja­víkur flytur verkin og gerir það prýði­lega. Tónarnir eru meitlaðir, tón­hendingarnar fagur­lega mótaðar og sam­spilið er agað og ná­kvæmt.

Næsta tón­smíð á geisla­diskinum er Lux, eða Ljós, og er ein­leikari þar Ás­hildur Haralds­dóttir flautu­leikari. Stemningin er dular­full, byrjunin saman­stendur af leitandi, berg­málandi flautu­tónum sem líkt og fleyta kerlingar yfir gár­óttan geim. Djúpur, sí­endur­tekinn hljómur myndar dá­leiðandi and­rúms­loft. Út­koman er ein­stak­lega á­hrifa­mikil, eins og djúp hug­leiðsla.

Windbells eftir Huga Guðmundsson.
Mynd/Aðsend

Til­rauna­kennt og leitandi

Elsta verkið hér er Equ­ili­brium IV: Wind­bells, sem er í fjórum köflum. Það er ekki eins hnit­miðað og annað á geisla­diskinum; kannski var Hugi þá ekki fylli­lega búinn að finna sína eigin rödd. Tón­listin er fremur til­rauna­kennd, rétt eins og verið sé að prófa hljóð­færin til að finna út hvaða mögu­leika þau bjóða upp á.

Brot, sem er næst, er hins vegar fast­mótuð tón­list sem ferðast ýmist fram eða aftur í tíma. Kaflarnir eru þrír, en þeir eru fleygaðir með tveimur milli­spilum. Þar eru kaflarnir á undan spilaðir aftur á bak, með mjög annars­heim­legum effektum. Raf­tón­list blandast þannig á einkar á­huga­verðan hátt við form­fastari kammer­tón­list og er heildar­út­koman afar lokkandi. Síðasti kaflinn, Danse Maca­bre, vísar til for­tíðarinnar. Fiðlu­sólóið í kaflanum hljómar eins og öfuga út­gáfan af sólóinu í sam­nefndu verki eftir Saint-Saens, en ó­neitan­lega tals­vert vél­rænni. Út­koman er mjög skemmti­leg.

Maður er manns gaman

Síðasta tón­smíðin er Söngvar úr Háva­málum, þar sem Hildi­gunnur Einars­dóttir mezzó­sópran er í aðal­hlut­verki. Söngurinn er há­stemmdur og lag­línurnar fal­legar. Undir­leiks­hljómarnir eru for­kunnar­fagrir, og maður fær ekki nóg af því að hlusta á fyrsta kaflann þar sem sungið er um ein­mana­leika og hve fé­lags­skapur er mikil­vægur. Maður er manns gaman – og tón­list er líka manns gaman, sér­stak­lega hér.

Niður­staða: Frá­bær tón­list, magnaður flutningur.