Kvikmynd: Nightmare Alley

Leikstjóri: Guillermo Del Toro

Aðalhlutverk: Bradley Cooper, Rooney Mara, Toni Collette, Cate Blanchett


Nína Richter skrifar:

Nýjasta kvikmynd Guillermo del Toro er byggð á samnefndri skáldsögu eftir William Lindsay Gresham. Myndin er endurgerð á kvikmynd frá árinu 1947 og fjallar um ris og fall Stantons Carlisle, sjónhverfingamanns sem byrjar feril sinn í farandsirkus.

Stjörnuleikarinn bláeygi Bradley Cooper fer með hlutverk sjónhverfingamannsins og gerir það vel, þó að hér sé endurtekið efni á ferðinni. Við höfum séð hann leika þessa persónu áður, í öðrum myndum. Hér eru engir flugeldar, lítið sem kemur á óvart og túlkunin ekki eftirminnileg.

Veikasti hlekkurinn í persónugalleríinu er Molly, ástkona Carl­isle sem Rooney Mara túlkar. Það er ekki endilega við leikkonuna að sakast heldur er persónan skrifuð flöt eins og parket. Hún fær heilmikinn skjátíma og myndin hreinlega líður fyrir það. Áhorfendum er sama um samband þeirra og öllum er sama um hana.

Það sama má þó ekki segja um hina lífsþreyttu Zeenu Krumbein sem Toni Collette túlkar með tilþrifum. Collette sannar enn og aftur að hún er ein af bestu leikkonum Hollywood og myndin hefði alveg mátt snúast eingöngu um hennar persónu, og hefði vafalaust batnað við það. Henni er sópað út í horn í nafni ódýrrar framvindu.

Það þarf að minnast á Cate Blan­ch­­ett í hlutverki sálfræðingsins Lilith Ritter, sem er í rauninni eina persónan sem raunverulega minnir á rökkurmyndaflokkinn sem myndin á að vísa til. Hún er frábær leikkona og þessi buxnadragt og þessi mögnuðu kinnbein eru eitt það eftirminnilegasta við bíómyndina. Það er ekki hrós og þarna er illa farið með góðan efnivið.

Myndin reynir við stef varðandi guðlega forsjá, forboðna ávexti og refsingu syndanna. Þetta heppnast ekki vel þar sem framleiðslan virðist líka meðvituð um að koma skilaboðunum til lægsta samnefnara. Óspennandi andhetju er síðan troðið inn á síðasta klukkutímanum, til þess að láta myndina enda einhvern veginn. Loksins.

Myndin er nefnilega tveggja og hálfs tíma löng, eins og við er að búast af stórmynd af þessari stærðargráðu. Þessi lengd þjónar ekki sögunni á nokkurn hátt.

Niðurstaða: Nightmare Alley er leiðinleg og allt of löng mynd, sem er áberandi áferðarfalleg og fokdýr. Handritið er vont. Að takast að klúðra mynd með Toni Collette og Cate Blanchett er afrek út af fyrir sig. Söguna skortir fókus og stefin sem eiga að koma boðskapnum til skila eru tilgerðarleg. Ef stjörnur væru gefnar yrðu þær fáar.