Tón­list

Verk eftir Magnús Ragnars­son, Hreiðar Inga Þor­steins­son, Báru Gríms­dóttur, P. E. Fletcher og J. Alain.

Magnús Ragnars­son lék á orgelið, Lilja Dögg Gunnars­dóttir söng.

Hall­gríms­kirkja laugar­daginn 9. júlí

Kvik­myndir á borð við Blade Runn­er, Min­o­rity Report og To­ta­l Re­call eru byggðar á sögum Philips K. Dick. Þetta eru al­var­legar myndir, en Dick var engu að síður húmor­isti. Hann átti til dæmis kött sem hét Magnifi­cat. Maður gæti ætlað að nafnið þýddi „magnaður köttur“ en svo er ekki. Magnifi­cat er nafnið á hinum svo­kallaða Lof­söng Maríu, sem er í Nýja testa­mentinu og hefst á þessum orðum: „Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.“

Ljóðið hefur marg­sinnis verið tón­sett, og á há­degis­tón­leikum í Hall­gríms­kirkju á laugar­daginn gat að heyra enn eina út­gáfuna, að þessu sinni ís­lenska. Meira um hana hér fyrir neðan.

Ekki alveg

Á tón­leikunum komu fram Magnús Ragnars­son sem lék á orgel og Lilja Dögg Gunnars­dóttir alt­söng­kona. Efnis­skráin hófst á Há­tíðar­tokkötu eftir Per­cy E. Fletcher. Tokkötur eru alltaf líf­legar og hraðar og svo var ein­mitt nú. Þetta var fjörug og upp­lífgandi tón­list, en því miður var hún ekki sér­lega vel leikin. Það var allt morandi í feil­nótum sem má lík­lega skrifast á tauga­ó­styrk. Fyrir bragðið komst andi tón­listarinnar ekki al­menni­lega til skila.

Næst á dag­skrá var María, drottins lilja eftir Báru Gríms­dóttur. Lilja Dögg steig þá fram fyrir á­heyr­endur og hóf upp raust sína. Hún söng fal­lega. Söngurinn var fín­gerður og vel mótaður, þó ef til vill með heldur miklum á­herslum á fyrstu at­kvæði orðanna, en of litlum á hin at­kvæðin. Söng­konan hefði í öllu falli mátt syngja meira út, því maður upp­lifði heildar­út­komuna ei­lítið eins og slag á milli finku og fíls. Orgelið – fíllinn – var býsna fyrir­ferðar­mikið þrátt fyrir að Magnús reyndi greini­lega að leika veikt. Það dugði ekki til.

Frum­flutningur

Eitt verk var frum­flutt á tón­leikunum, Salve Regina eftir Magnús. Þetta er stutt bæn til Maríu meyjar sem á ís­lensku hefst svo: „Heil sért þú, drottning, móðir miskunnarinnar, líf, yndi og von vor; heil sért þú.“ Lilja Dögg söng á latínu og tón­listin var al­mennt talað fal­leg. Bænin er þó til­tölu­lega lát­laus og kannski var tón­listin full í­burðar­mikil, með of tíðum, ó­ró­legum kafla­skiptum, til að bænin kæmist virki­lega á flug. Orgel­leikurinn var líka fremur grodda­legur fyrir há­leitan textann. Lilja Dögg söng þó prýði­lega og orgel­leikurinn var yfir­leitt vandaður, en aftur hefði söngurinn mátt heyrast meira á kostnað orgelsins.

Magnús var greini­lega kominn í meira stuð þegar hér var komið sögu, því Litanies eftir Jehan Alain kom á­gæt­lega út. Þetta var ein­leiks­verk og spila­mennskan var þétt og ná­kvæm.

Síðasta verkið var líka glæsi­legt, en það var fyrr­nefnt Magnifi­cat eftir Hreiðar Inga Þor­steins­son. Lag­línan var mjög grípandi, í svo­kölluðum hljóm­hæfum moll, og orgel­undir­leikurinn var sér­lega ein­faldur, að­eins liggjandi hljómar. Fyrir vikið valtaði hann aldrei yfir sönginn, sem var á­kaf­lega til­finninga­þrunginn og hrífandi. Orgel­há­punktarnir inn á milli sön­g­erinda voru þó hugsan­lega of voldugir og sterkir, því þeir virkuðu ögn til­gerðar­legir. Engu að síður var heildar­myndin skemmti­leg og var þetta á­gætur endir á dag­skránni.

Niður­staða: Nokkuð mis­jafnir tón­leikar, bæði flutningur og tón­list.