Leik­hús

Fíflið

Karl Ágúst Úlfs­son

Tjarnar­bíó

Flytj­endur: Karl Ágúst Úlfs­son og Ey­vindur Karls­son

Leik­stjóri: Ágústa Skúla­dóttir

Tón­list: Ey­vindur Karls­son

Leik­mynd og búningar: Guð­rún Öya­hals

Lýsing: Ólafur Ágúst Stefáns­son

Hár og förðun: Ninna Karla Katrínar­dóttir

Karl Ágúst Úlfs­son kveður. Lands­þekkti leikarinn, leik­stjórinn, höfundurinn, þýðandinn og Spaug­­stofu­­maður­inn syngur sinn svana­söng á leik­sviðinu í Tjarnar­bíói, frum­sýningin var á föstu­daginn síðasta. Hans merki­lega starf á síðustu ára­tugum er fyrir löngu orðið ó­rjúfan­legur hluti af menningar­sögu landsins. Nú býður hann gesti vel­komna inn í hinn heilaga hring leik­hússins og fíflið tekur á móti þeim.

Upp­runi, saga og hlut­verk fíflsins spannar þúsundir ára og finnast frá­sagnir af þessum gálga­húmor­ista frá öllum heims­hornum. Frá frum­byggjum Norður-Ameríku til Egypta­lands, Grikk­lands til forna og mið­alda Evrópu, en höfundur leitar mikið í þann sagna­bálk. Hlut­verk fíflsins er að setja sam­fé­lagið í kómískt sam­hengi og pota í þá sem valdið hafa. Á­horf­endur hitta mörg fífl í sýningunni sem hvert hefur sína sögu að segja og konunga að kljást við. Þó birtist fíflið í Lé konungi eftir Willi­am Shakespeare oftast, enda erki­fíflið í hinum vest­ræna heimi. Glensið er ríkjandi enda í eðli fíflsins og er Karl Ágúst með svarta beltið í fimmaura­bröndurum og orða­leikjum. Þeir koma á leiftur­hraða eða laumast upp að manni eins og í at­riði Jane Fool.

Á­horf­endur hitta mörg fífl í sýningunni sem hvert hefur sína sögu að segja og konunga að kljást við.
Mynd/Eddi Jóns

Margar hug­myndir

Sýningin tekur á sig form leik­prufu, fíflið mætir á svæðið í leit að hlut­verki. Ágústa Skúla­dóttir leik­stýrir verkinu og setur fókusinn á Karl Ágúst með ein­faldri og lipri upp­setningu en leik­prufu­hug­myndin er ekki fylli­lega út­færð enda er niður­staðan ó­ljós.

Leik­mynda- og búninga­hönnun Guð­rúnar Öya­hals spilar stórt hlut­verk sem lyftir sýningunni á hærra plan. Hver leik­munurinn á fætur öðrum birtist, stólar um­breytast í lík­kistur og klósett og búningarnir eru á­ferðar­fagrir. Hug­myndirnar eru margar á­huga­verðar en hand­ritið of langt, gaman­lögin of mörg og vanga­velturnar stundum ó­mark­vissar. Af og til virkaði Karl Ágúst ör­lítið ó­öruggur en fann taktinn fljótt aftur enda hokinn af reynslu og með góða nær­veru.

Ey­vindur Karls­son hefur um­sjón með tón­listinni og tekur virkan þátt í sýningunni, bæði sem tón­listar­maður og leikari. Lögin eru blanda af frum­saminni tón­list og töku­lögum, þar á meðal frá meistara Stephen Sond­heim, með frum­sömdum eða endur­sömdum texta. Ey­vindur stendur sig með á­gætum en hægt væri að skerpa sýninguna tölu­vert með því að beina sviðs­ljósinu al­farið á fíflið. Lagi reiða mannsins um það sem ekki má er al­gjör­lega of­aukið og á í raun heima í annarri sýningu.

Sam­fé­lagið hefur alltaf þurft á fíflinu að halda, frá forn­eskju til vorra daga. Ein­hverjum sem þorir að gagn­rýna og gera gys að þeim sem heiminum stjórnar. Sjaldan hefur verið meiri þörf á þjónustu þess og nú.

Sam­fé­lagið og fíflið

Fátt er heilagt, fíflið sér til þess enda hlut­verkið skapað til að gleðja en að sama skapi gagn­rýna. Í seinni­parti sýningar víkur að sam­fé­lags­s­laufun og því sem ekki má segja en þetta á­herslu­at­riði passar illa í fram­vindunni, er frekar frá­vik. Hérna er mál­efni skoðað fremur yfir­borðs­lega af hálfu höfundar. Endur­skoðun á því sem má og má ekki segja var fyrir löngu orðin tíma­bær. Stór munur er á því að gera grín að vald­höfum og valda­lausum, for­réttinda­fólki eða minni­hluta­hópum. Fíflið grætur eða hlær að hörmungum heimsins en er aldrei grimmt.

Sam­fé­lagið hefur alltaf þurft á fíflinu að halda, frá forn­eskju til vorra daga. Ein­hverjum sem þorir að gagn­rýna og gera gys að þeim sem heiminum stjórnar. Sjaldan hefur verið meiri þörf á þjónustu þess og nú. Fíflið eftir Karl Ágúst er góð á­minning um þetta nauð­syn­lega hlut­verk og ljúf kveðju­sýning. En hættan steðjar að þegar fíflið og vald­hafinn sam­einast í eina mann­eskju, eins og höfundur ýjar að. Þegar sann­leikurinn er um­deilan­legur, vegið er að réttindum minni máttar og vísindi dregin í efa með mis­gáfu­legum skoðunum. Í gervi fíflsins þreifar Karl Ágúst á þessum mál­efnum en tekur ekki nægi­lega föstum tökum.

Niður­staða: Ljúf en ör­lítið lang­dregin kveðju­sýning.