Geigen­geist, fiðlu­andi eða fiðlu­heimur, er fyrsta frum­sýning Ís­lenska dans­flokksins þetta sýningar­árið. Verkið fer fram á litla sviði Borgar­leik­hússins en ekki á sviðinu heldur er á­horf­endum boðið í salinn eins og um dans­klúbb væri að ræða. Í verkinu halda teknófiðlu-dúettinn Gígja Jóns­dóttir og Pétur Eggerts­son á­fram að kanna, ögra og leika sér með fiðluna og mögu­leikann á að frelsa hana frá sinni klassísku í­mynd, en verkið þeirra Geigen sem sýnt var á Reykja­vík Dance Festi­val 2019 sló fyrst tóninn fyrir fagur­fræðina sem þau vinna á­fram með hér.

Í Geigen­geist taka átta dansarar úr Ís­lenska dans­flokknum þátt, á­samt Gígju og Pétri. Þeir auðga fiðlu­heiminn sem þau hafa skapað með líkömum sínum og gefa honum nýtt líf. Saman láta þau fiðlurnar dansa, dansa við þær og um­breytast í fiðlur. En þó fiðlurnar séu í for­grunni bylur tek­n­ótaktur undir öllu saman sem gefur dansinum og hljóðum fiðlunnar nýja vídd. Í grunninn var sam­runi þessara ó­líku tón­listar­heima mjög vel gerður en stundum urðu fín­legir hljómar fiðlunnar undir í bar­áttunni við kraft teknósins, sér­stak­lega í fyrri hlutanum þegar dansarar með fiðlu­boga strjúka mjúk­lega yfir strengi fiðlanna á ferðum sínum um rýmið.

Þátt­taka á­horf­enda

Á­horf­endur höfðu einnig hlut­verki að gegna í dans­sköpuninni meðal annars til að undir­strika klúbba­­stemminguna í salnum. Þar sem þeir sátu ekki í sætum heldur stóðu, sköpuðu hreyfingar þeirra í rýminu flæði sem gaf dans­smíðinni auka vídd. Það að blanda á­horf­endum í dans­sköpun er ekkert nýtt. Sú leið hefur oft verið farin með mis­jöfnum árangri. Í Geigen­geist tókst þetta vel nema að til­gangurinn var ekki skýr þegar fjórir ein­staklingar voru færðir út af sviðinu undir hvítum slæðum. Annars voru á­horf­endur smátt og smátt boðnir vel­komnir í fiðlu­heiminn og urðu hluti af sýningunni. And­rúms­loftið var af­slappað og á­horf­endur voru til í að vera með, reyndar svo mjög að í lokin urðu þeir spældir yfir því að verkinu lauk og allir skyldu heim. Þeir voru orðnir til­búnir í að dansa alla nóttina.

Dans­leikja­form síns tíma

Búningarnir í verkinu voru geggjaðir, hvítir og stíl­hreinir, þar sem parrukk, korselett og háir hælar nutu sín. Þeir báru með sér form­festu barokk­tímans ekki síður en frelsi rave-menningarinnar en þessir ó­líku menningar­heimar voru grunnur verksins. Hreyfingar dansaranna undir­strikuðu líka þessa ó­líku menningar­heima. Verkið hófst á fáguðum dansi í anda dans­leikja barokk­tímans en endaði í kröftugu ra­ve­partíi í ó­nefndum klúbbi og það var eins og ekkert væri eðli­legra en að tengja þetta tvennt saman, enda bæði dans­leikja­form síns tíma.

Sam­spil list­greina, tón­listar, dans og hönnunar, og þá um leið lista­manna úr mis­munandi greinum er einn af styrk­leikum verksins. Sam­spil sem þetta er á­berandi í ís­lenskum dans­heimi nú um stundir og heppnast nánast undan­tekningar­laust vel. Sviðs­myndin sem byggist ekki síst upp af á­huga­verðum leik­munum og sér­lega vel heppnaðri notkun ljóss og lita er töff eins og t.d. fiðlu­bogar með ljósi á endanum sem gátu skrifað á búningana. Leikur með ljós og leik­muni var sann­færandi partur af dans­sköpuninni og heildar­út­komunni allri.

Niður­staða: Geigen­geist er kröftugt og töff verk. Sterk heildar­upp­lifun þar sem tónar sjást, hreyfingar heyrast og ljós, litir og form örva skynjun á­horf­andans þannig að hann langar að leika með.