Ís­lenskur dans­heimur er að mestu leyti heimur kvenna og fylla konur raðir ís­lenskra dans­höfunda. Um­fjöllunar­efni verka þeirra tengjast því eðli­lega kven­legum veru­leika, bæði slæmum og góðum hliðum hans. Efni til um­fjöllunar undan­farin ár hafa verið; vinna kvenna, breytinga­skeiðið og hvernig konur geta tekið yfir al­manna­rými svo eitt­hvað sé nefnt.

Á Reykja­vík Dance Festi­val sem haldin var 16.-20. nóvember 2022 mátti eins og áður sjá sterka femíníska dans­sköpun eins og Femínískt reif Önnu Kol­finnu Kuran og Cumulus Andreu Gunn­laugs­dóttur og Claudiu Lomoschitz, sem fjallar um lofts­lags­vána og sýnir á­horf­endum pólitík himinsins út frá femínísku sjónar­horni. Þar voru líka tvö verk eftir Höllu Ólafs­dóttur, eina af okkar sterkustu femínísku höfundum, en flest það sem frá henni kemur ögrar hug­myndum okkar um kven­leika á á­hrifa­ríkan hátt.

Amanda Apetrea og Halla Ólafsdóttir skipa danstvíeykið Beauty and the Beast.
Mynd/Märta Thisner

Júlíu dúettinn

Tvær konur á miðjum aldri standa á sviðinu. Grá hár sjást í vanga, línur farnar að mýkjast. Þær hreyfast úr stað um leið og þær fara með texta, á ensku. Það heyrist varla orða­skil en hreyfingarnar sýna það sem eyrað ekki nemur. Vígi karl­mennskunnar. Ættir hatast, karlar sýna krafta sína og völd, þenja sig á torgum, skylmast, drepa, hefna, allt fyrir heiðurinn og hetju­skapinn en hún, hún er bara fjór­tán. Sviðssjarmi kvennanna er mikill, líkamar, losti, lesbísk ást kannski, ofsi og of­beldi. Lang­dreginn dauði í anda balletts­ins. En hún var bara fjór­tán, hún var ást­fangin, hún naut ásta og … fæðing, brjósta­gjöf, barn með barni, barn að eiga barn eða mey­barn að fæða af sér feðra­veldið.

Efni verksins er sterk af­bygging á ballettinum Rómeó og Júlíu sem hefur til að bera nokkrar af dramatískustu senum klassísku ballettanna. Það er sterkur leikur hvernig höfundar færa sýn á­horf­enda frá hetju­skap og rómantík yfir í of­beldi og blá­kaldan veru­leika ungrar konu í heimi feðra­veldisins.

Á­horf­endur kynntust Júlíu dúettinum fyrst sem verki í vinnslu á Vor­blóti Tjarnar­bíós og Reykja­vík Dance Festi­val í júní 2021 og fangaði það sterkt at­hygli þeirra. Litlar breytingar hafa orðið á dans­verkinu síðan þá nema að það virðist hafa lengst, ekki endi­lega til batnaðar. Verkið er hliðar­af­urð af sköpun Höllu Ólafs­dóttur og Ernu Ó­mars­dóttur á verkinu Rómeó og Júlía sem Ís­lenski dans­flokkurinn sýndi á síðasta leik­ári og ber höfundum sínum ljós merki.

Dead er á­hrifa­ríkt verk í alla staði. Efnið, fram­setningin og ekki síst flutningurinn.

Dead

Halla Ólafs­dóttir er einnig höfundur dans­verksins Dead, með­höfundur hennar í því verki er Amanda Apetrea, sam­starfs­kona til margra ára, en saman mynda þær tví­eykið Beauty and the Beast.

Dead er á­hrifa­ríkt verk í alla staði. Efnið, fram­setningin og ekki síst flutningurinn. Verkið er klám­fengin könnun á kyn­orkunni, greddu og losta. Í henni birtist nekt og kyn­ferðis­leg sam­skipti sem í gegnum aldirnar hafa verið tengd við myrkur og hið illa. Um­gjörð verksins undir­strikaði það villta og dökka í við­fangs­efninu. Svið­setningin minnti á djöfla­dýrkunar­senu í bíó­mynd nema að skjárinn var ekki til að skapa fjar­lægð fyrir á­horf­endurna heldur sátu þeir þétt upp við sviðið, auk þess sem dansararnir nýttu pláss fyrir aftan á­horf­enda­bekkina. Undir öllu saman dunaði kraft­mikil og hrika­lega flott tón­list sem magnaði upp and­rúms­loftið í rýminu. Verkið var samt ekki að­eins um kraftinn sem býr í ó­beislaðri kyn­orku heldur líka óður til kven­líkamans og píkunnar. Í byrjun þess var and­rúms­loftið frekar á léttu nótunum en þyngdist þegar líða tók á.

Niður­staða: Í heimi kvenna eru mál­efni þeirra ofar­lega á baugi eins og við er að búast. Kröftug femínísk dans­sköpun er því á­berandi í ís­lenskum dans­heimi þar sem konur ráða að mestu ríkjum.