Íslenskur dansheimur er að mestu leyti heimur kvenna og fylla konur raðir íslenskra danshöfunda. Umfjöllunarefni verka þeirra tengjast því eðlilega kvenlegum veruleika, bæði slæmum og góðum hliðum hans. Efni til umfjöllunar undanfarin ár hafa verið; vinna kvenna, breytingaskeiðið og hvernig konur geta tekið yfir almannarými svo eitthvað sé nefnt.
Á Reykjavík Dance Festival sem haldin var 16.-20. nóvember 2022 mátti eins og áður sjá sterka femíníska danssköpun eins og Femínískt reif Önnu Kolfinnu Kuran og Cumulus Andreu Gunnlaugsdóttur og Claudiu Lomoschitz, sem fjallar um loftslagsvána og sýnir áhorfendum pólitík himinsins út frá femínísku sjónarhorni. Þar voru líka tvö verk eftir Höllu Ólafsdóttur, eina af okkar sterkustu femínísku höfundum, en flest það sem frá henni kemur ögrar hugmyndum okkar um kvenleika á áhrifaríkan hátt.

Júlíu dúettinn
Tvær konur á miðjum aldri standa á sviðinu. Grá hár sjást í vanga, línur farnar að mýkjast. Þær hreyfast úr stað um leið og þær fara með texta, á ensku. Það heyrist varla orðaskil en hreyfingarnar sýna það sem eyrað ekki nemur. Vígi karlmennskunnar. Ættir hatast, karlar sýna krafta sína og völd, þenja sig á torgum, skylmast, drepa, hefna, allt fyrir heiðurinn og hetjuskapinn en hún, hún er bara fjórtán. Sviðssjarmi kvennanna er mikill, líkamar, losti, lesbísk ást kannski, ofsi og ofbeldi. Langdreginn dauði í anda ballettsins. En hún var bara fjórtán, hún var ástfangin, hún naut ásta og … fæðing, brjóstagjöf, barn með barni, barn að eiga barn eða meybarn að fæða af sér feðraveldið.
Efni verksins er sterk afbygging á ballettinum Rómeó og Júlíu sem hefur til að bera nokkrar af dramatískustu senum klassísku ballettanna. Það er sterkur leikur hvernig höfundar færa sýn áhorfenda frá hetjuskap og rómantík yfir í ofbeldi og blákaldan veruleika ungrar konu í heimi feðraveldisins.
Áhorfendur kynntust Júlíu dúettinum fyrst sem verki í vinnslu á Vorblóti Tjarnarbíós og Reykjavík Dance Festival í júní 2021 og fangaði það sterkt athygli þeirra. Litlar breytingar hafa orðið á dansverkinu síðan þá nema að það virðist hafa lengst, ekki endilega til batnaðar. Verkið er hliðarafurð af sköpun Höllu Ólafsdóttur og Ernu Ómarsdóttur á verkinu Rómeó og Júlía sem Íslenski dansflokkurinn sýndi á síðasta leikári og ber höfundum sínum ljós merki.
Dead er áhrifaríkt verk í alla staði. Efnið, framsetningin og ekki síst flutningurinn.
Dead
Halla Ólafsdóttir er einnig höfundur dansverksins Dead, meðhöfundur hennar í því verki er Amanda Apetrea, samstarfskona til margra ára, en saman mynda þær tvíeykið Beauty and the Beast.
Dead er áhrifaríkt verk í alla staði. Efnið, framsetningin og ekki síst flutningurinn. Verkið er klámfengin könnun á kynorkunni, greddu og losta. Í henni birtist nekt og kynferðisleg samskipti sem í gegnum aldirnar hafa verið tengd við myrkur og hið illa. Umgjörð verksins undirstrikaði það villta og dökka í viðfangsefninu. Sviðsetningin minnti á djöfladýrkunarsenu í bíómynd nema að skjárinn var ekki til að skapa fjarlægð fyrir áhorfendurna heldur sátu þeir þétt upp við sviðið, auk þess sem dansararnir nýttu pláss fyrir aftan áhorfendabekkina. Undir öllu saman dunaði kraftmikil og hrikalega flott tónlist sem magnaði upp andrúmsloftið í rýminu. Verkið var samt ekki aðeins um kraftinn sem býr í óbeislaðri kynorku heldur líka óður til kvenlíkamans og píkunnar. Í byrjun þess var andrúmsloftið frekar á léttu nótunum en þyngdist þegar líða tók á.
Niðurstaða: Í heimi kvenna eru málefni þeirra ofarlega á baugi eins og við er að búast. Kröftug femínísk danssköpun er því áberandi í íslenskum dansheimi þar sem konur ráða að mestu ríkjum.