Jósef Stalín hlustaði mikið á út­varp. Kvöld eitt heyrði hann píanó­kon­sert nr. 23 eftir Mozart, og varð frá sér numinn af hrifningu. Enda var kon­sertinn leikinn af Maríu Yu­dinu, sem naut mikillar hylli í fyrrum Sovét­ríkjunum. Stalín hringdi því strax í út­varps­ráðið, og krafðist þess að fá plötuna með þessari frægu lista­konu. „Að sjálf­sögðu,“ var auð­vitað svarið. Samt var platan ekki til, og hafði aldrei verið. Stalín hafði nefni­lega heyrt beina út­sendingu frá tón­leikum, og voru nú góð ráð dýr. Enginn dirfðist að segja nei við Stalín, því af­leiðingarnar gætu orðið hroða­legar.

Neyðar­kall var því sent til Yu­dinu, og hljóm­sveitinni komið á pall á svip­stundu. Upp­töku­tækin voru sett í gang, en allt fór í vit­leysu vegna þess að hljóm­sveitar­stjórinn var svo hræddur við Stalín. Hann var sendur heim, bilaður á taugum, og annar kallaður til. En allt kom fyrir ekki, og var það loks sá þriðji sem var í nægi­legu jafn­vægi til þess að upp­takan gæti heppnast. Þá var komin nótt, allir voru í svita­baði en samt tókst að ljúka verkinu. Platan var til­búin um morguninn – að­eins eitt ein­tak. Stalín fékk hana senda strax, auð­vitað í limó­sínu.

Sir Stephen ­Hough lék verk eftir Rak­hmanín­off og Sjosta­kó­vit­sj með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Mynd/Aðsend

Um­deild endur­minninga­bók

Í tíundu sin­fóníunni eftir Sjosta­kó­vit­sj fjallar tón­skáldið um ógnar­stjórn Stalíns. Það er ef marka má endur­minninga­bók tón­skáldsins eftir Solomon Vol­kov. Sú bók er reyndar um­deild og ekki allir sann­færðir um sann­leiks­gildi hennar. Sagan hér að ofan er ein­mitt þaðan. Mér finnst þó bókin öll trú­verðug; óttinn í tíundu sin­fóníunni er all­tént á­þreifan­legur.

Á tón­leikum Sin­fóníu­hljóm­sveitar Ís­lands á fimmtu­dags­kvöldið stjórnaði Kornilios Michaili­dis og gerði það á­gæt­lega. Mjög krefjandi raddir tré­blásaranna voru listi­lega út­færðar og heildar­hljómurinn í verkinu var sann­færandi. Túlkunin var spennu­þrungin og stígandin í henni var mark­viss. Það var helst hinn hraði annar kafli sem var dá­lítið laus í reipunum, hann var vissu­lega snarpur eins og hann átti að vera, en ná­kvæmnin í sam­spilinu hefði getað verið meiri.

Spila­mennskan var glæsi­leg, full af krafti þegar við átti. Lag­línurnar voru fal­lega mótaðar og tækni­lega séð var leikurinn tær og ná­kvæmur.

Tón­listar­skólinn í hel­víti

Hitt verkið á efnis­skránni var annar píanó­kon­sertinn eftir Rak­hmanín­off. Sú goð­sögn hefur gengið um kon­sertinn að hann hafi verið saminn í dá­leiðslu. Það er orðum aukið. Rak­hmanín­off missti sjálfs­traustið þegar frum­flutningurinn á fyrstu sin­fóníunni hans mis­heppnaðist. Hljóm­sveitar­stjórinn var fullur og í gagn­rýni eftir tón­leikana var sagt að sin­fónían gæti verið verk um plágurnar sjö í Egypta­landi, eftir nemanda í tón­listar­skólanum í Hel­víti.

Til að komast yfir á­fallið fór Rak­hmanín­off í tíma hjá sál­fræðingnum Nikolai Dahl, sem dá­leiddi hann og hjálpaði honum þannig að endur­heimta sjálfs­traustið. Upp úr því fór hann að semja aftur og skömmu síðar leit píanó­kon­sertinn dagsins ljós.

Þessi vin­sæli kon­sert hefur oft verið fluttur hér á landi og núna var komið að Sir Stephen Hough að leika ein­leikinn. Spila­mennskan var glæsi­leg, full af krafti þegar við átti. Lag­línurnar voru fal­lega mótaðar og tækni­lega séð var leikurinn tær og ná­kvæmur. Eina undan­tekningin var byrjunin á síðasta kaflanum, sem var nokkuð subbu­leg. En heildar­myndin var stór­brotin og endirinn til­komu­mikill, enda var ein­leikaranum ákaft fagnað.

Niður­staða: Magn­þrungin sin­fónía og flottur píanó­kon­sert.