Sagt hefur verið að La Boheme eftir Puccini hljóti að vera grí­nópera, því ein aðal­sögu­per­sónan þjáist af tæringu en syngur samt fullum hálsi fram í and­látið. Vissu­lega kemur margt skondið fyrir í óperunni, enda er bak­grunnur hennar bóhemlíf lista­manna í Latínu­hverfinu í París.

Þetta er þó fyrst og fremst harm­leikur sem fjallar um ástir skálds og dauð­vona stúlku, og er ein vin­sælasta ópera allra tíma. Enda er tón­listin meistara­leg, og eru sum at­riðanna með því fegursta sem heyrist.

La Boheme hefur verið flutt nokkrum sinnum hér á landi og ég man eftir tveimur upp­færslum Ís­lensku óperunnar sem báðar hafa verið frá­bærar.

En á þriðju­dagsk völdið var óperan flutt í mynd sem hlýtur að vera ný­lunda. Hún var leikin af fiðlu­leikara og píanó­leikara án söngs, leiks, sviðs­myndar eða búninga. Í staðinn var skjá­textum varpað upp þar sem hægt var að fylgjast með fram­vindu sögunnar.

Lit­ríkar út­setningar

Flytj­endur voru Mathieu van Bellen fiðlu­leikari og Mathias Halvor­sen píanó­leikari. Þeir út­settu jafn­framt óperuna fyrir hljóð­færin sín og segjast verður eins og er að út­setningarnar voru snilldar­legar. Ekkert smá­ræði er að um­rita ein­söng, kór og sin­fóníu­hljóm­sveit fyrir að­eins tvö hljóð­færi, en hér var veru­lega vel að verki staðið. Út­setningarnar voru fjöl­breyttar og lit­ríkar. Til dæmis var kaflinn þar sem her­menn birtast með til­heyrandi trumbu­slætti og alls konar látum virki­lega flottur. Trommu­slátturinn var yfir­færður á bassa­nótur píanósins og var það afar sann­færandi.

Flutningurinn var yfir­leitt mjög góður. Píanó­leikurinn var frá­bær, gríðar­lega kröftugur og glitrandi. Fiðlu­leikurinn var líka fínn, þótt hann hafi verið ör­lítið ó­hreinn á við­kvæmum stöðum. Fimm­undirnar í upp­hafi þriðja þáttar voru til dæmis ekki nægi­lega ná­kvæmar. En heilt yfir gneistaði af fiðlu­leiknum og margt í honum var sér­deilis glæsi­legt.

Flutningurinn var yfir­leitt mjög góður. Píanó­leikurinn var frá­bær, gríðar­lega kröftugur og glitrandi. Fiðlu­leikurinn var líka fínn, þótt hann hafi verið ör­lítið ó­hreinn á við­kvæmum stöðum.

Öfug stígandi

Gallinn við tón­leikana var óperan sjálf. Hún byrjar með miklum til­þrifum þegar hún lýsir iðandi lista­manna­lífinu í París, en er sorgin nær yfir­höndinni verður tón­listin mun inn­hverfari. Þetta virkaði ekki al­menni­lega í um­gjörðinni hér. Það var enginn há­stemmdur söngur um von­lausa ást og brostnar vonir, og engin hljóm­sveit til að magna upp til­finningarnar. Í staðinn var eins og verið væri að horfa á óperuna í síma, án heyrnar­tóla. Nístandi sorgin í lokin var ekki hvellur heldur kjökur, svo enskt orða­til­tæki sé þýtt á ís­lensku: „Ended not with a bang but a whimper.“

Fiðlan og píanóið bara náðu ekki treganum í lok óperunnar. Þvert á móti voru sorg­legu kaflarnir lit­lausir og allt fjörið í byrjun, sem lofaði svo góðu, varð ekki að neinu – bara tómum leiðindum. Á eftir spurði maður sjálfan sig um tón­leikana: Til hvers?

Niður­staða: Flottar út­setningar en tón­leikarnir misstu engu að síður marks.