Bækur
Farsótt – Hundrað ár í Þingholtsstræti 25
Höfundur: Kristín Svava Tómasdóttir
Útgefandi: Sögufélag
Fjöldi síðna: 518
Aðalpersónan í þessari sögu er gamalt timburhús, nánar tiltekið Þingholtsstræti 25 hér í borg, sem enn stendur. Bókin varð til fyrir kaldhæðni örlaganna, að sögn höfundar, því að hún var að hluta til skrifuð í Covid-19 farsóttinni. Gömul hugtök og mörgum gleymd, eins og einangrun, sóttkví, smitgát, urðu skyndilega á hvers manns vörum og menn upplifðu óttann við að smitast af farsóttinni.
Þingholtsstræti 25 var byggt árið 1884 og var fyrsta sjúkrahúsið í Reykjavík. Það var gert að farsóttarsjúkrahúsi árið 1920 í þeim tilgangi að vernda bæjarbúa fyrir hættulegum smitsjúkdómum. Þar var einnig rekið geðsjúkrahús og loks athvarf fyrir heimilislausa til ársins 1984.
Stórbrotnar forstöðukonur
Bókinni er skipt í fjóra hluta eftir því hlutverki sem húsið gegndi á hverjum tíma. Þar réðu ríkjum stórbrotnar forstöðukonur sem voru sannkallaðir skörungar; fyrst Guðrún Jónsdóttir og síðan María Maack, báðar menntaðar í hjúkrun. Áhugavert er að með fram starfi sínu á spítalanum ráku þær sína eigin félagsþjónustu því velferðarkerfi var afar frumstætt á Íslandi á þessum árum, svo ekki sé meira sagt.
Maríu Maack langaði mikið til að verða læknir en á þessum árum fengu stúlkur ekki að setjast á skólabekk í Lærða skólanum og engin kona var við nám í læknaskólanum. María lét mikið að sér kveða á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Stjórnsemi og ákveðni voru hluti af persónuleika Maríu og sjálf lýst hún sér á þess leið: „Ég er frek, og á að vera frek. Og ég læt engan vaða yfir mig.“ Sennilega er sterkur persónuleiki hennar lykillinn að þeim mikla árangri sem hún náði í að hjálpa fátækum og umkomulausum.
Mikil eftirspurn eftir líkum
Eins og gefur að skilja eru bráðsmitandi og hættulegir sjúkdómar fyrirferðarmiklir í þessari bók. Þar má nefna taugaveiki, barnaveiki, skarlatssótt, mislinga og kíghósta. Síðan bættust berklarnir við sem náðu hámarki á þriðja áratug síðustu aldar, en þá voru berklar dánarorsök fimmta hvers Íslendings. Sem betur fer hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan með hjálp bóluefna, pensilíns, ómengaðs drykkjarvatns og fleira.
Farsóttarhúsið stendur enn á horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs. Það er í einkaeigu en hefur staðið autt í átta ár. Vonandi verður það ekki niðurníðslu að bráð. Á lóðinni má enn sjá leifar gamla líkhússins og krufningarstofunnar sem fylgdu spítalanum en þar var líka rekinn læknaskóli. Skemmtileg saga er sögð í bókinni í tengslum við þetta. Mikil eftirspurn var eftir líkum til að kryfja í lærdómsskyni fyrir læknanema og jafnvel algengt að fátækt fólk gæfi líkama sína til krufningar upp í sveitarskuld. Frægur er bragurinn um Þórð Malakoff eftir Björn M. Olsen, fyrsta rektor Háskóla Íslands, sem enn er sunginn: „Hann Þórður gamli þraukar enn. Loff Malakoff.“ Þórður var mikill slarkari og seldi læknanemum lík sitt fyrir fram til þess að fá fyrir brennivíni. Þegar kvittur fór af stað um andlát Þórðar og menn hugsuðu sér gott til glóðarinnar að fá nú loks að kryfja líkið, þá reyndist Þórður hins vegar enn þá sprelllifandi.
Minnir á okkar tíma
Athyglisvert er að lesa um breytingar sem voru gerðar á húsinu í þágu smitvarna árið 1920 þegar því var breytt í farsóttarspítala. Inngangur að húsinu sem virtist vera einar breiðar dyr frá götunni séð voru í raun tvennar aðskildar dyr, önnur sem leiddi inn á fyrstu hæðina en hin inn á aðra hæð, til þess að koma í veg fyrir að smit bærist á milli deilda. Þetta og fleira í bókinni minnir okkur mjög á okkar eigin farsóttarupplifun í Covid-19.
Niðurstaða: Afar fróðleg og vel skrifuð bók um efni sem hefur mikla skírskotun til okkar tíma þegar Covid-fárið er nýafstaðið, í bili að minnsta kosti.