Bækur

Far­sótt – Hundrað ár í Þing­holts­stræti 25

Höfundur: Kristín Svava Tómas­dóttir

Út­gefandi: Sögu­fé­lag

Fjöldi síðna: 518

Aðal­per­sónan í þessari sögu er gamalt timbur­hús, nánar til­tekið Þing­holts­stræti 25 hér í borg, sem enn stendur. Bókin varð til fyrir kald­hæðni ör­laganna, að sögn höfundar, því að hún var að hluta til skrifuð í Co­vid-19 far­sóttinni. Gömul hug­tök og mörgum gleymd, eins og ein­angrun, sótt­kví, smit­gát, urðu skyndi­lega á hvers manns vörum og menn upp­lifðu óttann við að smitast af far­sóttinni.

Þing­holts­stræti 25 var byggt árið 1884 og var fyrsta sjúkra­húsið í Reykja­vík. Það var gert að far­sóttar­sjúkra­húsi árið 1920 í þeim til­gangi að vernda bæjar­búa fyrir hættu­legum smit­sjúk­dómum. Þar var einnig rekið geð­sjúkra­hús og loks at­hvarf fyrir heimilis­lausa til ársins 1984.

Stór­brotnar for­stöðu­konur

Bókinni er skipt í fjóra hluta eftir því hlut­verki sem húsið gegndi á hverjum tíma. Þar réðu ríkjum stór­brotnar for­stöðu­konur sem voru sann­kallaðir skörungar; fyrst Guð­rún Jóns­dóttir og síðan María Maack, báðar menntaðar í hjúkrun. Á­huga­vert er að með fram starfi sínu á spítalanum ráku þær sína eigin fé­lags­þjónustu því vel­ferðar­kerfi var afar frum­stætt á Ís­landi á þessum árum, svo ekki sé meira sagt.

Maríu Maack langaði mikið til að verða læknir en á þessum árum fengu stúlkur ekki að setjast á skóla­bekk í Lærða skólanum og engin kona var við nám í lækna­skólanum. María lét mikið að sér kveða á ýmsum sviðum þjóð­lífsins. Stjórn­semi og á­kveðni voru hluti af per­sónu­leika Maríu og sjálf lýst hún sér á þess leið: „Ég er frek, og á að vera frek. Og ég læt engan vaða yfir mig.“ Senni­lega er sterkur per­sónu­leiki hennar lykillinn að þeim mikla árangri sem hún náði í að hjálpa fá­tækum og um­komu­lausum.

Mikil eftir­spurn eftir líkum

Eins og gefur að skilja eru bráð­smitandi og hættu­legir sjúk­dómar fyrir­ferðar­miklir í þessari bók. Þar má nefna tauga­veiki, barna­veiki, skarlats­sótt, mis­linga og kíg­hósta. Síðan bættust berklarnir við sem náðu há­marki á þriðja ára­tug síðustu aldar, en þá voru berklar dánar­or­sök fimmta hvers Ís­lendings. Sem betur fer hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan með hjálp bólu­efna, pensi­líns, ó­mengaðs drykkjar­vatns og fleira.

Far­sóttar­húsið stendur enn á horni Þing­holts­strætis og Spítala­stígs. Það er í einka­eigu en hefur staðið autt í átta ár. Vonandi verður það ekki niður­níðslu að bráð. Á lóðinni má enn sjá leifar gamla lík­hússins og krufningar­stofunnar sem fylgdu spítalanum en þar var líka rekinn lækna­skóli. Skemmti­leg saga er sögð í bókinni í tengslum við þetta. Mikil eftir­spurn var eftir líkum til að kryfja í lær­dóms­skyni fyrir lækna­nema og jafn­vel al­gengt að fá­tækt fólk gæfi líkama sína til krufningar upp í sveitar­skuld. Frægur er bragurinn um Þórð Mala­koff eftir Björn M. Ol­sen, fyrsta rektor Há­skóla Ís­lands, sem enn er sunginn: „Hann Þórður gamli þraukar enn. Loff Mala­koff.“ Þórður var mikill slarkari og seldi lækna­nemum lík sitt fyrir fram til þess að fá fyrir brenni­víni. Þegar kvittur fór af stað um and­lát Þórðar og menn hugsuðu sér gott til glóðarinnar að fá nú loks að kryfja líkið, þá reyndist Þórður hins vegar enn þá sprell­lifandi.

Minnir á okkar tíma

At­hyglis­vert er að lesa um breytingar sem voru gerðar á húsinu í þágu smit­varna árið 1920 þegar því var breytt í far­sóttar­spítala. Inn­gangur að húsinu sem virtist vera einar breiðar dyr frá götunni séð voru í raun tvennar að­skildar dyr, önnur sem leiddi inn á fyrstu hæðina en hin inn á aðra hæð, til þess að koma í veg fyrir að smit bærist á milli deilda. Þetta og fleira í bókinni minnir okkur mjög á okkar eigin far­sóttar­upp­lifun í Co­vid-19.

Niður­staða: Afar fróð­leg og vel skrifuð bók um efni sem hefur mikla skír­skotun til okkar tíma þegar Co­vid-fárið er ný­af­staðið, í bili að minnsta kosti.