Bókin Ofurvættir er önnur í þriggja bóka flokki Ólafs Gunnars Guðlaugssonar Síðasti seiðskrattinn en fyrri bókin Ljósberi hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin í fyrra. Hér höldum við áfram að fylgja eftir unglingunum Hildi, Theódóru, Baldri og Bjarna sem í síðustu bók urðu ýmissa ofurkrafta sinna áskynja og þurftu auk þess að horfast í augu við þá staðreynd í bókarlok að heimurinn er í hættu og ekki bara okkar heimur heldur allir heimar. Og það er undir þeim og hæfileikum þeirra komið að bjarga honum. Sagan er sem fyrr sögð í fyrstu persónu frá sjónarhóli þeirra hvers um sig og þannig flakkar lesandinn um bæði sögusvið og hugarheima eftir því hvar sjónarhornið er.
Í fyrstu bókinni var áherslan á Ísland, forna trú og hjátrú, hauga og drauga en í þessari bók er farið lengra á lendur annars konar fantasíu sem á minna skylt við þjóðsagnaarfinn, fleiri heimar kannaðir og ferðast á milli þeirra auk þess sem unnið er með minnið um guðina sem ofmetnast og falla með skelfilegum afleiðingum fyrir mannkyn allt.
Flókinn söguþráður
Sögupersónurnar eru komnar dýpra inn á lendur furðusögunnar og hversdagsleikinn sem kom á svo skemmtilegan hátt inn í fyrri bókina er ekki eins áþreifanlegur, tengingin við okkar heim minni. Bókin hnikar sér því milli greina innan furðusagnaflokksins, frá því að vera úrvinnsla úr þjóð- og goðsagnaarfinum og yfir í heimasköpun þar sem tengingin við okkar heim er nánast aukaatriði.
Slík heimasköpun krefst mikillar hugmyndavinnu og í bókinni er stöðugt verið að kynna nýjar hugmyndir, persónur og sögusvið til sögunnar svo stundum getur orðið ruglingslegt að fylgja því eftir auk dulspekipælinga um eðli alheimsins sem eru áhugaverðar en flækjast aðeins fyrir söguþræðinum. En þetta er alvanalegt með miðjubækur í þríleikjum, þær þjóna í raun því hlutverki að vera brú milli upphafs og endis, persónur þróast en ná engum lausnum strax og söguþráður flækist til þess að hægt sé að leysa hann farsællega í lokabókinni.
Heldur lesanda við efnið
Þessi hluti þríleiksins minnir á köflum á seinni bækurnar í þríleik Philips Pullman um myrku öflin (His Dark Materials), einkum þó þegar kemur að flakkinu milli heima og pælinga. Hugmyndin um guðina sem eins konar ofurvætti sem bera í sér alla möguleika og breyskleika er skemmtilega útfærð en síendurteknar upplifanir krakkanna á heildarskipulagi alheimsins gegnum þriðju augun verða aðeins tilbreytingarlausar til lengdar.
Bókin heldur samt lesandanum við efnið enda búið að byggja vel undir tengingar við persónurnar og framvinduna í fyrstu bókinni. Persónusköpun krakkanna er þó flatari hér enda verða þau í raun táknmyndir sinna einstöku krafta frekar en unglingar af holdi og blóði og það er mikilvægt, ef ekki nauðsynlegt, að hafa lesið Ljósbera til að fá samhengi við persónur og framvindu.
Ofurvættir ætti að gleðja unnendur góðra fantasíubóka og þau sem hrifust af Ljósberanum verða ekki fyrir vonbrigðum með þetta framhald. Það á þó eftir að hnýta marga hnúta sem væntanlega gerist ekki fyrr en að ári.
Niðurstaða: Ágætis framhald af Ljósberanum en framvindan geldur aðeins fyrir hugmyndavinnu og heimssköpun.