Bókin Ofur­vættir er önnur í þriggja bóka flokki Ólafs Gunnars Guð­laugs­sonar Síðasti seið­skrattinn en fyrri bókin Ljós­beri hlaut Ís­lensku barna­bóka­verð­launin í fyrra. Hér höldum við á­fram að fylgja eftir ung­lingunum Hildi, Theó­dóru, Baldri og Bjarna sem í síðustu bók urðu ýmissa ofur­krafta sinna á­skynja og þurftu auk þess að horfast í augu við þá stað­reynd í bókar­lok að heimurinn er í hættu og ekki bara okkar heimur heldur allir heimar. Og það er undir þeim og hæfi­leikum þeirra komið að bjarga honum. Sagan er sem fyrr sögð í fyrstu per­sónu frá sjónar­hóli þeirra hvers um sig og þannig flakkar lesandinn um bæði sögu­svið og hugar­heima eftir því hvar sjónar­hornið er.

Í fyrstu bókinni var á­herslan á Ís­land, forna trú og hjá­trú, hauga og drauga en í þessari bók er farið lengra á lendur annars konar fanta­síu sem á minna skylt við þjóð­sagna­arfinn, fleiri heimar kannaðir og ferðast á milli þeirra auk þess sem unnið er með minnið um guðina sem of­metnast og falla með skelfi­legum af­leiðingum fyrir mann­kyn allt.

Flókinn sögu­þráður

Sögu­per­sónurnar eru komnar dýpra inn á lendur furðu­sögunnar og hvers­dags­leikinn sem kom á svo skemmti­legan hátt inn í fyrri bókina er ekki eins á­þreifan­legur, tengingin við okkar heim minni. Bókin hnikar sér því milli greina innan furðu­sagna­flokksins, frá því að vera úr­vinnsla úr þjóð- og goð­sagna­arfinum og yfir í heima­sköpun þar sem tengingin við okkar heim er nánast auka­at­riði.

Slík heima­sköpun krefst mikillar hug­mynda­vinnu og í bókinni er stöðugt verið að kynna nýjar hug­myndir, per­sónur og sögu­svið til sögunnar svo stundum getur orðið ruglings­legt að fylgja því eftir auk dul­speki­pælinga um eðli al­heimsins sem eru á­huga­verðar en flækjast að­eins fyrir sögu­þræðinum. En þetta er al­vana­legt með miðju­bækur í þrí­leikjum, þær þjóna í raun því hlut­verki að vera brú milli upp­hafs og endis, per­sónur þróast en ná engum lausnum strax og sögu­þráður flækist til þess að hægt sé að leysa hann far­sæl­lega í loka­bókinni.

Heldur lesanda við efnið

Þessi hluti þrí­leiksins minnir á köflum á seinni bækurnar í þrí­leik Philips Pull­man um myrku öflin (His Dark Materials), einkum þó þegar kemur að flakkinu milli heima og pælinga. Hug­myndin um guðina sem eins konar ofur­vætti sem bera í sér alla mögu­leika og breysk­leika er skemmti­lega út­færð en sí­endur­teknar upp­lifanir krakkanna á heildar­skipu­lagi al­heimsins gegnum þriðju augun verða að­eins til­breytingar­lausar til lengdar.

Bókin heldur samt lesandanum við efnið enda búið að byggja vel undir tengingar við per­sónurnar og fram­vinduna í fyrstu bókinni. Per­sónu­sköpun krakkanna er þó flatari hér enda verða þau í raun tákn­myndir sinna ein­stöku krafta frekar en ung­lingar af holdi og blóði og það er mikil­vægt, ef ekki nauð­syn­legt, að hafa lesið Ljós­bera til að fá sam­hengi við per­sónur og fram­vindu.

Ofur­vættir ætti að gleðja unn­endur góðra fantasíu­bóka og þau sem hrifust af Ljós­beranum verða ekki fyrir von­brigðum með þetta fram­hald. Það á þó eftir að hnýta marga hnúta sem væntan­lega gerist ekki fyrr en að ári.

Niður­staða: Á­gætis fram­hald af Ljós­beranum en fram­vindan geldur að­eins fyrir hug­mynda­vinnu og heims­sköpun.