Gamli Niccolo Paganini var svo snjall fiðluleikari að fólk hélt að hann væri í slagtogi við djöfulinn. Auðvelt væri að trúa því sama upp á Anne-Sophie Mutter. Hún er stundum kölluð drottning fiðlunnar. Og ekki að undra; á tónleikunum í Eldborg á föstudagskvöldið hafði hún fiðluna fullkomlega á valdi sínu. Hún lék sér að erfiðustu heljarstökkum eftir strengjunum eins og ekkert væri.
Prestur og skylmingameistari voru meðal tónskáldanna á efnisskránni. Auk þess að vera fiðlusnillingur og tónskáld hlaut Antonio Vivaldi prestsvígslu þegar hann var tuttugu og fimm ára, og Joseph Bologne var líka afar fær skylmingamaður og starfaði um tíma sem konunglegur lífvörður. Sá síðarnefndi er sérstaklega áhugaverður, því í dag vita fæstir hver hann var. Það breytist væntanlega í vor, því þá kemur út kvikmynd um ævi hans.

Undraverðir hæfileikar
Bologne, einnig kallaður Chevalier (riddari) de Saint-Georges, var samtímamaður Mozarts. Hann fæddist á eyjunni Guadeloupe, sonur hvíts plantekrueiganda og afrísks þræls. Hann sýndi fljótlega undraverða hæfileika, og er hann óx úr grasi sló hann í gegn í tónlistarheiminum í Evrópu, ekki síst fyrir framandi útlitið og leikni hans í skylmingum. Á endanum var hann sæmdur riddaratign.
Á tónleikunum lék Mutter eftir hann fiðlukonsert í A-dúr op. 5 nr. 2 og með henni spilaði hljómsveitin Mutter Virtuosi. Flutningurinn var frábær. Tónlistin sjálf var skemmtileg, ekki ósvipuð Mozart, en með talsvert tilþrifameiri einleiksrödd. Túlkunin var sannfærandi, flæðið í leiknum var óheft og grípandi, stígandin spennuþrungin. Sjarmerandi heiðríkja sveif yfir verkinu, það var fullt af bjartsýni og dirfsku. Vonandi fær maður að heyra miklu meira eftir Bologne er fram líða stundir.
Kadensan ein eftir
Allt öðru vísi var Gran Cadenza eftir suður-kóreska tónskáldið Unsuk Chin (f. 1961). Kadensa er einleiksþáttur í lok fyrsta og stundum síðasta kafla í konsert, upphaflega hugsaður fyrir einleikara svo hann geti virkilega sýnt snilli sína. Manni dettur í hug píanóleikarinn Liberace, sem spilaði fyrsta píanókonsertinn eftir Tsjajkovskí á fimm mínútum (hann tekur um 40 mínútur) með því „að sníða burt þetta leiðinlega“. Svipað var uppi á teningnum hér, það var búið að „hreinsa“ allt annað, og bara kadensan, með alls konar flugeldasýningum, var ein eftir.
Og hvílíkar flugeldasýningar! Tónmálið var ómstrítt og áleitið, manísk þráhyggja; eins og örvæntingarfull leit að einhverju sem ómögulegt var að skilgreina. Mutter lék verkið ásamt Samuel Nebyu og gerði það afskaplega vel. Samspilið var hárnákvæmt og allar brjálæðislegu tónahendingarnar og stefin voru fullkomlega af hendi leyst. Þetta var frábært.
Túlkunin var óvanalega öfgafull. Hraðinn var ofsalegur, en var fleygaður með innhverfum hugleiðingum þar sem tíminn stóð kyrr.
Öfgafull túlkun
Vivaldi átti restina af efnisskránni, annars vegar konsert fyrir fjórar fiðlur í h-moll op. 3 nr. 10 og hins vegar Árstíðirnar, þar sem Mutter lék einleikinn. Fyrri tónsmíðin var glæsilega flutt, en það var hin síðarnefnda sem gerði allt vitlaust í salnum.
Túlkunin var óvanalega öfgafull. Hraðinn var ofsalegur, en var fleygaður með innhverfum hugleiðingum þar sem tíminn stóð kyrr. Árstíðirnar eru gjarnan spilaðar af meiri formfestu, en hér var túlkunin gríðarlega ástríðuþrungin, nánast eins og um rómantískt verk væri að ræða. Tónlistin sjálf er þó mjög tilþrifamikil og segja má því að hún bjóði upp á svona meðhöndlun. Hún líka svínvirkaði og fagnaðarlætin í lokin, þar sem allt ætlaði um koll að keyra, voru fyllilega verðskulduð.
Niðurstaða: Stórkostlegir tónleikar.