Gamli Niccolo Paganini var svo snjall fiðlu­leikari að fólk hélt að hann væri í slag­togi við djöfulinn. Auð­velt væri að trúa því sama upp á Anne-Sophie Mutter. Hún er stundum kölluð drottning fiðlunnar. Og ekki að undra; á tón­leikunum í Eld­borg á föstu­dags­kvöldið hafði hún fiðluna full­kom­lega á valdi sínu. Hún lék sér að erfiðustu heljar­stökkum eftir strengjunum eins og ekkert væri.

Prestur og skylminga­meistari voru meðal tón­skáldanna á efnis­skránni. Auk þess að vera fiðlu­snillingur og tón­skáld hlaut Antonio Vivaldi prests­vígslu þegar hann var tuttugu og fimm ára, og Joseph Bologne var líka afar fær skylminga­maður og starfaði um tíma sem konung­legur líf­vörður. Sá síðar­nefndi er sér­stak­lega á­huga­verður, því í dag vita fæstir hver hann var. Það breytist væntan­lega í vor, því þá kemur út kvik­mynd um ævi hans.

Tónleikar Anne-Sophie Mutter og Mutter Virtu­osi voru frábærir að mati gagnrýnanda.
Mynd/Mummi

Undra­verðir hæfi­leikar

Bologne, einnig kallaður Chevali­er (riddari) de Saint-Geor­ges, var sam­tíma­maður Mozarts. Hann fæddist á eyjunni Guadeloupe, sonur hvíts plant­ekru­eig­anda og afrísks þræls. Hann sýndi fljót­lega undra­verða hæfi­leika, og er hann óx úr grasi sló hann í gegn í tón­listar­heiminum í Evrópu, ekki síst fyrir framandi út­litið og leikni hans í skylmingum. Á endanum var hann sæmdur riddara­tign.

Á tón­leikunum lék Mutter eftir hann fiðlu­kon­sert í A-dúr op. 5 nr. 2 og með henni spilaði hljóm­sveitin Mutter Virtu­osi. Flutningurinn var frá­bær. Tón­listin sjálf var skemmti­leg, ekki ó­svipuð Mozart, en með tals­vert til­þrifa­meiri ein­leiks­rödd. Túlkunin var sann­færandi, flæðið í leiknum var ó­heft og grípandi, stígandin spennu­þrungin. Sjarmerandi heið­ríkja sveif yfir verkinu, það var fullt af bjart­sýni og dirfsku. Vonandi fær maður að heyra miklu meira eftir Bologne er fram líða stundir.

Kadensan ein eftir

Allt öðru vísi var Gran Ca­denza eftir suður-kóreska tón­skáldið Unsuk Chin (f. 1961). Kadensa er ein­leiks­þáttur í lok fyrsta og stundum síðasta kafla í kon­sert, upp­haf­lega hugsaður fyrir ein­leikara svo hann geti virki­lega sýnt snilli sína. Manni dettur í hug píanó­leikarinn Liber­ace, sem spilaði fyrsta píanó­kon­sertinn eftir Tsja­jkovskí á fimm mínútum (hann tekur um 40 mínútur) með því „að sníða burt þetta leiðin­lega“. Svipað var uppi á teningnum hér, það var búið að „hreinsa“ allt annað, og bara kadensan, með alls konar flug­elda­sýningum, var ein eftir.

Og hvílíkar flug­elda­sýningar! Tón­málið var óm­strítt og á­leitið, manísk þrá­hyggja; eins og ör­væntingar­full leit að ein­hverju sem ó­mögu­legt var að skil­greina. Mutter lék verkið á­samt Samuel Nebyu og gerði það af­skap­lega vel. Sam­spilið var hár­ná­kvæmt og allar brjál­æðis­legu tóna­hendingarnar og stefin voru full­kom­lega af hendi leyst. Þetta var frá­bært.

Túlkunin var ó­vana­lega öfga­full. Hraðinn var ofsa­legur, en var fleygaður með inn­hverfum hug­leiðingum þar sem tíminn stóð kyrr.

Öfga­full túlkun

Vivaldi átti restina af efnis­skránni, annars vegar kon­sert fyrir fjórar fiðlur í h-moll op. 3 nr. 10 og hins vegar Árs­tíðirnar, þar sem Mutter lék ein­leikinn. Fyrri tón­smíðin var glæsi­lega flutt, en það var hin síðar­nefnda sem gerði allt vit­laust í salnum.

Túlkunin var ó­vana­lega öfga­full. Hraðinn var ofsa­legur, en var fleygaður með inn­hverfum hug­leiðingum þar sem tíminn stóð kyrr. Árs­tíðirnar eru gjarnan spilaðar af meiri form­festu, en hér var túlkunin gríðar­lega ást­ríðu­þrungin, nánast eins og um rómantískt verk væri að ræða. Tón­listin sjálf er þó mjög til­þrifa­mikil og segja má því að hún bjóði upp á svona með­höndlun. Hún líka svín­virkaði og fagnaðar­lætin í lokin, þar sem allt ætlaði um koll að keyra, voru fylli­lega verð­skulduð.

Niður­staða: Stór­kost­legir tón­leikar.