Bækur

Hvað er Drottinn að drolla?

Auður Haralds

Fjöldi síðna: 270

Út­gefandi: JPV út­gáfa

Saga Auðar Haralds Hvað er Drottinn að drolla? er skemmti­leg af­lestrar og stundum fyndin. Gæti verið prýði­legt les­efni fyrir fram­halds­skóla­nema. Far­sæl skrif­stofu­kona lendir 676 ár aftur í tímann og vaknar í smá­þorpi á Mið-Eng­landi, rétt áður en svarti dauði hel­tekur Evrópu. Sögur af tíma­flakki eru margar, bæði í bók­menntum og kvik­myndum. Það er freistandi og skemmti­legt að not­færa sér í frá­sögn allt það smáa en mikil­væga sem breyst hefur á löngum tíma og bæði skop­leg og rauna­leg til­hugsun að hvers­dags­lífið geti skyndi­lega snúist á haus.

Yfir­burðir nú­tímans

Stundum kemur gesturinn í tíma­flakks­sögum úr gamla tímanum og inn í nú­tímann, verður kjána­legur og gerir allt skakkt eins og jóla­sveinunum okkar hættir til þegar þeir koma ofan úr fjöllunum. Í sögu Auðar kemur gesturinn úr nú­tímanum inn í for­tíðina og hefur heil­mikla yfir­burði. Guð­björg skrif­stofu­kona lendir að vísu í líkama miklu yngri konu, heitir þá Elísa­bet og ber oft fyrir sig minnis­leysi þegar hana vantar þekkingu Elísa­betar. Hins vegar er hún vel lesin í mið­alda­sögu og veit allt mögu­legt sem hinir nýju „sam­tíma­menn“ hennar hafa ekki að­gang að. For­tíðin stendur nú­tímanum nokkuð langt að baki. Guð­björg sem nú heitir Elísa­bet, spreytir sig dá­lítið á sótt­vörnum en fljótt verður ljóst að í lág­þróuðu sam­fé­lagi er ekki hægt að verjast bakteríum. Það er af tækni­legum á­stæðum og auk þess eru hand­hafar þekkingarinnar árið 1346 van­trúaðir á upp­lýsingar þessarar konu sem þeir vita ekki betur en sé Elísa­bet.

Tvær pestir

Ef til vill mætti gagn­rýna söguna fyrir að fara ei­lítið hægt af stað. Hrein­lætis­mál verða að á­steytingar­steini strax í upp­hafi og marg­sinnis er hnykkt á þeim vanda áður en yfir lýkur. Að vissu leyti rétt­lætist það hins vegar í frá­sögninni þegar pestin kemur og blómstrar í sóða­skapnum. Það er líka um­hugsunar­efni hvernig svarti dauði birtist í sögu­legri skáld­sögu rétt eftir Co­vid. Drep­sótt í varnar­lausu sam­fé­lagi er ansi mikið harka­legri en í okkar tækni­vædda nú­tíma. Við vældum nú samt ef ég man rétt og hrinum út af því hvað Co­vid væri okkur erfitt og sumum virtist jafn­vel finnast að aldrei, hvorki fyrr né síðar, hefði nokkur kyn­slóð lent í svo hræði­legum raunum. Höfundurinn lætur að þessu liggja í lok sögunnar og um­hugsunar­efnið á fullan rétt á sér. Erum við nú­tíma­menn frekar grátt leikin af sjálfs­með­aumkun? Í því mið­alda­sam­fé­lagi sem hér er lýst túlka guðs­mennirnir pestina sem refsingu guðs og það verður ekki með nokkru móti sagt að full­trúar guðs í þessari bók beri honum fagurt vitni.

Niður­staða: Skemmti­leg, sögu­leg skáld­saga, nokkuð fyndin og heldur uppi á­gætri spennu. Svarti dauði er uppi­staða í þeirri for­tíð sem lýst er.