Leikhús
Síðustu dagar Sæunnar
Matthías Tryggvi Haraldsson
Borgarleikhúsið
Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir
Leikarar: Guðrún S. Gísladóttir, Jóhann Sigurðarson og Snorri Engilbertsson
Leikmynd, búningar og vörpun: Elín Hansdóttir
Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson
Lýsing: Pálmi Jónsson
Hljóðmynd: Þorbjörn Steingrímsson
Myndvinnsla: Elmar Þórarinsson
Leikgervi: Elín S. Gísladóttir
Sæunn býr ein. Sæunn býr með manninum sínum. Sæunn býr með ókunnugu fólki. Sæunn býr á öldrunarheimili. Hún lætur dagana líða með því að reyna að spila á spil eða rifja upp gamla tíma með Trausta sínum sem er heilabilaður. Þess á milli tekur Sæunn upp leiðbeiningar fyrir fjölskylduna þar sem hún útleggur útför og erfðaskrá sína á forláta kassettutæki, upptökur sem hún eyðir jafnan. En aðallega reynir hún að hemja kraumandi reiðina sem mallar innra með henni. Reiðina yfir óréttlæti lífsins, ástandi Trausta og yfirvofandi dauðanum.
Síðustu dagar Sæunnar er nýtt íslenskt leikrit eftir Matthías Tryggva Haraldsson sem var frumsýnt á Litla sviðinu fyrir stuttu. Síðastliðin tvö ár hefur Matthías starfað sem eitt af leikskáldum Borgarleikhússins og er leikritið afrakstur þeirrar vinnu. Matthías er ekki ókunnugur leiksviðinu en eftir hann liggja nokkur styttri leikverk og hefur hann starfað sem dramatúrg í nokkrum leiksýningum.
Vannýttir möguleikar
Heilabilun er skelfilegur sjúkdómur, fyrir sjúklinga og aðstandendur. Einstaklingar hverfa, sjálfum sér og öðrum. Sjúkdóminum fylgir líka kvíði, ofsahræðsla og þunglyndi. Sæunn er miðpunktur sögunnar og áhorfendur sjá heiminn með hennar augum. En er hún trúverðug sögukona? Hún upplifir sig eina á móti heiminum en er það raunverulega svo? Fjölskylda hjónanna er nefnd en enginn kemur í heimsókn. Lárus, sonur þeirra, er sömuleiðis fjarverandi og uppfyllir ekki ósk móður sinnar um að gefa henni barnabarn.
Matthías Tryggvi nær ágætlega utan um grunnástand aðalpersónanna, svo sem látlausar endurtekningar, en mætti kafa dýpra bæði hvað varðar söguna og stílbragðið. Við fáum það á tilfinninguna að ekki sé allt sem sýnist. Gæti verið að Sæunn berjist sjálf við heilabilun? En þræðir leikritsins og úrvinnsla nýta ekki þá möguleika sem annars góð hugmyndavinna Matthíasar ber með sér. Sæunn segir bókstaflega á einum tímapunkti að hún hafi aldrei upplifað sín bestu ár en áhorfendur fá aldrei neinar frekari útskýringar, ekki frekar en ástæðu fyrir hatri hennar á Borgarnesi.

Sympatísk og snúin
Guðrún S. Gísladóttir ber sýninguna á herðum sér enda stendur hún á sviði allan tímann. Í hennar meðferð er Sæunn bæði sympatísk og snúin, kona sem sjaldan hefur leyft sér að dreyma stórt. Guðrún skilur líka húmorinn í þessum sáru aðstæðum en finnur bæði sársaukann og ástina í sambandi Sæunnar og Trausta. Togstreita einkennir tilvist hennar og Guðrún fangar þessa sorgmæddu konu fallega, fulla af breyskleika og ást.
Trausti er leikinn af Jóhanni Sigurðarsyni, sem er hér á nýjum slóðum. Fáir leika betur með augnasvipnum einum en Jóhann, þannig verða sum atriðin glimrandi góð og nístandi sársaukafull. Stundum hleypir hann of miklu melódrama í túlkun sína en leysir hlutverkið vel. Snorri Engilbertsson skilar sínum litlu hlutverkum sæmilega en velta má upp þeirri spurningu hvort höfundur hefði átt að sleppa þeim, enda gefa persónurnar sögunni lítið.
Síðustu dagar Sæunnar er ljúfsárt leikrit um harmleik efri áranna og hrylling heilabilunar.
Harmleikur efri áranna
Una Þorleifsdóttir leikstýrði einni af áhugaverðustu sýningum síðasta leikárs, Ást og upplýsingum eftir Caryl Churchill sem allt of fáir sáu. Hæfileikar hennar njóta sín yfirleitt í leikverkum sem liggja á mörkum raunveruleikans, þar sem manneskjur eru á skjön við tilvistina og í leit að tilgangi. Af þeim sökum er Síðustu dagar Sæunnar kjörið leikrit fyrir hennar nálgun en hún tekst ekki á við efnið af nægilegum krafti. Hér má ganga lengra með textann og taka framvinduna fjær raunveruleikanum, en leikaravinnan er góð.
Listræn umgjörð er að miklu leyti í höndum Elínar Hansdóttur sem hannaði frábæru leikmyndina og myndbönd fyrir Vertu úlfur. Niðurstaðan hérna veldur vonbrigðum, stundum virtist hreinlega eins og hugmyndirnar væru enn þá á teikniborðinu. Hvítir veggir eru dapurlegir fyrir augað og myndbandsvinnslan sjaldan eftirminnileg. Gísli Galdur Þorgeirsson semur hljómþýðu tónlistina sem orkar meira eins og hljóðmynd í anda Brian Reitzell en er ekki nægilega afgerandi til að styðja við sýninguna og lyfta henni á hærra plan.
Leiksýning sem vekur upp spurningar og skoðar sálarlíf eldra fólks er svo sannarlega af hinu jákvæða. En leikrit sem inniheldur of marga lausa þræði þarf skýrari listrænan ramma til að ganga upp. Matthías er hæfileikaríkur og með gott eyra fyrir leiktexta, vonandi heldur hann áfram að meitla rödd og stíl. Síðustu dagar Sæunnar er ljúfsárt leikrit um harmleik efri áranna og hrylling heilabilunar. Ljóðskáldið T.S. Eliot hafði rétt fyrir sér, heimurinn endar nefnilega ekki með hvelli heldur kveini.
Niðurstaða: Afburða góð frammistaða Guðrúnar Gísladóttur er bjartasti punkturinn í ljúfsáru en fremur lingerðu leikriti.