Leik­hús

Síðustu dagar Sæunnar

Matthías Tryggvi Haralds­son

Borgar­leik­húsið

Leik­stjórn: Una Þor­leifs­dóttir

Leikarar: Guð­rún S. Gísla­dóttir, Jóhann Sigurðar­son og Snorri Engil­berts­son

Leik­mynd, búningar og vörpun: Elín Hans­dóttir

Tón­list: Gísli Galdur Þor­geirs­son

Lýsing: Pálmi Jóns­son

Hljóð­mynd: Þor­björn Stein­gríms­son

Mynd­vinnsla: Elmar Þórarins­son

Leik­gervi: Elín S. Gísla­dóttir

Sæunn býr ein. Sæunn býr með manninum sínum. Sæunn býr með ó­kunnugu fólki. Sæunn býr á öldrunar­heimili. Hún lætur dagana líða með því að reyna að spila á spil eða rifja upp gamla tíma með Trausta sínum sem er heila­bilaður. Þess á milli tekur Sæunn upp leið­beiningar fyrir fjöl­skylduna þar sem hún út­leggur út­för og erfða­skrá sína á for­láta kassettu­tæki, upp­tökur sem hún eyðir jafnan. En aðal­lega reynir hún að hemja kraumandi reiðina sem mallar innra með henni. Reiðina yfir ó­rétt­læti lífsins, á­standi Trausta og yfir­vofandi dauðanum.

Síðustu dagar Sæunnar er nýtt ís­lenskt leik­rit eftir Matthías Tryggva Haralds­son sem var frum­sýnt á Litla sviðinu fyrir stuttu. Síðast­liðin tvö ár hefur Matthías starfað sem eitt af leik­skáldum Borgar­leik­hússins og er leik­ritið af­rakstur þeirrar vinnu. Matthías er ekki ó­kunnugur leik­sviðinu en eftir hann liggja nokkur styttri leik­verk og hefur hann starfað sem dramatúrg í nokkrum leik­sýningum.

Van­nýttir mögu­leikar

Heila­bilun er skelfi­legur sjúk­dómur, fyrir sjúk­linga og að­stand­endur. Ein­staklingar hverfa, sjálfum sér og öðrum. Sjúk­dóminum fylgir líka kvíði, ofsa­hræðsla og þung­lyndi. Sæunn er mið­punktur sögunnar og á­horf­endur sjá heiminn með hennar augum. En er hún trú­verðug sögu­kona? Hún upp­lifir sig eina á móti heiminum en er það raun­veru­lega svo? Fjöl­skylda hjónanna er nefnd en enginn kemur í heim­sókn. Lárus, sonur þeirra, er sömu­leiðis fjar­verandi og upp­fyllir ekki ósk móður sinnar um að gefa henni barna­barn.

Matthías Tryggvi nær á­gæt­lega utan um grunná­stand aðal­per­sónanna, svo sem lát­lausar endur­tekningar, en mætti kafa dýpra bæði hvað varðar söguna og stíl­bragðið. Við fáum það á til­finninguna að ekki sé allt sem sýnist. Gæti verið að Sæunn berjist sjálf við heila­bilun? En þræðir leik­ritsins og úr­vinnsla nýta ekki þá mögu­leika sem annars góð hug­mynda­vinna Matthíasar ber með sér. Sæunn segir bók­staf­lega á einum tíma­punkti að hún hafi aldrei upp­lifað sín bestu ár en á­horf­endur fá aldrei neinar frekari út­skýringar, ekki frekar en á­stæðu fyrir hatri hennar á Borgar­nesi.

Matthías Tryggvi nær á­gæt­lega utan um grunná­stand aðal­per­sónanna að mati gagnrýnanda.
Mynd/Grímur Bjarnason

Sympatísk og snúin

Guð­rún S. Gísla­dóttir ber sýninguna á herðum sér enda stendur hún á sviði allan tímann. Í hennar með­ferð er Sæunn bæði sympatísk og snúin, kona sem sjaldan hefur leyft sér að dreyma stórt. Guð­rún skilur líka húmorinn í þessum sáru að­stæðum en finnur bæði sárs­aukann og ástina í sam­bandi Sæunnar og Trausta. Tog­streita ein­kennir til­vist hennar og Guð­rún fangar þessa sorg­mæddu konu fal­lega, fulla af breysk­leika og ást.

Trausti er leikinn af Jóhanni Sigurðar­syni, sem er hér á nýjum slóðum. Fáir leika betur með augna­svipnum einum en Jóhann, þannig verða sum at­riðin glimrandi góð og nístandi sárs­auka­full. Stundum hleypir hann of miklu meló­drama í túlkun sína en leysir hlut­verkið vel. Snorri Engil­berts­son skilar sínum litlu hlut­verkum sæmi­lega en velta má upp þeirri spurningu hvort höfundur hefði átt að sleppa þeim, enda gefa per­sónurnar sögunni lítið.

Síðustu dagar Sæunnar er ljúf­sárt leik­rit um harm­leik efri áranna og hrylling heila­bilunar.

Harm­leikur efri áranna

Una Þor­leifs­dóttir leik­stýrði einni af á­huga­verðustu sýningum síðasta leik­árs, Ást og upp­lýsingum eftir Car­yl Churchill sem allt of fáir sáu. Hæfi­leikar hennar njóta sín yfir­leitt í leik­verkum sem liggja á mörkum raun­veru­leikans, þar sem mann­eskjur eru á skjön við til­vistina og í leit að til­gangi. Af þeim sökum er Síðustu dagar Sæunnar kjörið leik­rit fyrir hennar nálgun en hún tekst ekki á við efnið af nægi­legum krafti. Hér má ganga lengra með textann og taka fram­vinduna fjær raun­veru­leikanum, en leikara­vinnan er góð.

List­ræn um­gjörð er að miklu leyti í höndum Elínar Hans­dóttur sem hannaði frá­bæru leik­myndina og mynd­bönd fyrir Vertu úlfur. Niður­staðan hérna veldur von­brigðum, stundum virtist hrein­lega eins og hug­myndirnar væru enn þá á teikni­borðinu. Hvítir veggir eru dapur­legir fyrir augað og mynd­bands­vinnslan sjaldan eftir­minni­leg. Gísli Galdur Þor­geirs­son semur hljóm­þýðu tón­listina sem orkar meira eins og hljóð­mynd í anda Brian Reitzell en er ekki nægi­lega af­gerandi til að styðja við sýninguna og lyfta henni á hærra plan.

Leik­sýning sem vekur upp spurningar og skoðar sálar­líf eldra fólks er svo sannar­lega af hinu já­kvæða. En leik­rit sem inni­heldur of marga lausa þræði þarf skýrari list­rænan ramma til að ganga upp. Matthías er hæfi­leika­ríkur og með gott eyra fyrir leik­texta, vonandi heldur hann á­fram að meitla rödd og stíl. Síðustu dagar Sæunnar er ljúf­sárt leik­rit um harm­leik efri áranna og hrylling heila­bilunar. Ljóð­skáldið T.S. Eliot hafði rétt fyrir sér, heimurinn endar nefni­lega ekki með hvelli heldur kveini.

Niður­staða: Af­burða góð frammi­staða Guð­rúnar Gísla­dóttur er bjartasti punkturinn í ljúf­sáru en fremur lin­gerðu leik­riti.