Það er ekki á hverjum degi sem hægt er að sjá yfir 1.000 ára reynslu á einu og sama leik­sviðinu, saman­þjappaða í 19 ein­stak­lingum. Leik­hópur Marat/Sade, eftir Peter Weiss og í leik­stjórn Rúnars Guð­brands­sonar, er þver­skurður af leikurum og tón­listar­mönnum sem settu ó­metan­legt mark á ís­lenska menningar­sögu. Eftir­væntingin var því mikil á frum­sýningunni en byltingin er slungið fyrir­bæri.

Leikurinn gerist á Charenton-hælinu í Frakk­landi þar sem de Sade mark­greifi er í haldi og í miðjum klíðum að setja upp leik­rit um dauð­daga byltingar­mannsins Jean-Paul Marat með að­stoð hinna sjúk­linganna. Marat/Sade er af­sprengi sjöunda ára­tugarins og upp­gjör við al­hæfingar, sem leiða oftar en ekki til blóðugra styrj­alda. Textinn er marg­laga, saman­safn af ein­ræðum um lífið og til­veruna í bland við bar­áttu­söngva í anda Ber­tolt Brecht.

Arnar Jóns­son, sem leikur de Sade mark­greifa, fagnaði átt­ræðis­af­mæli sínu deginum eftir frum­sýningu og hefur fáu gleymt þegar kemur að texta­flutningi, ein­staki radd­blærinn enn­þá töfrandi, en de Sade virðist fjar­lægur. Fyrir miðju sviðsins situr byltingar­maðurinn Marat í baði, sem kallast á við mál­verkið La Mort de Marat eða Marat Assassiné eftir Jacqu­es-Louis David. Sigurður Skúla­son kemur til­finninga­legri ringul­reið Marat vel til skila en virðist spóla í sama farinu. Sömu­leiðis eins­korðast hlut­verk Krist­bjargar Kjeld við ein­faldar gjörðir og hennar hæfi­leikar eru ekki nýttir.

Margrét Guðmundsdóttir leiftraði í hlutverki Charlotte Corday að mati gagnrýnanda.
Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Eins og lítil sprengi­stjarna

En að yfir­náttúru­legum augna­blikum. Einungis ör­sjaldan eru leik­hús­á­horf­endur svo heppnir að leikari opnar fyrir þeim handan­heima, eins og við­komandi sé í beinu sam­bandi við æðri máttar­völd. Margrét Guð­munds­dóttir er eins og lítil sprengi­stjarna sem Char­lotte Cor­day, hlut­verk sem hún lék í Þjóð­leik­húsinu fyrir tæpum 56 árum. Engin leið er að vita hvort eldingu slær niður tvisvar á sama stað en augna­blikið átti sér stað og Margrét leiftraði á frum­sýningunni.

Henni til halds og trausts, ef svo má að orði komast, er Eggert Þor­leifs­son sem hefur hættu­lega nær­veru og húmorinn á hár­réttum stað. Frá honum stafar raun­veru­leg ógn og hann eggjar alla í kringum sig. Árni Pétur Guð­jóns­son er í heljarinnar stuði á þessu leik­ári, ó­út­reiknan­legur, kraft­mikill og í beinu sam­bandi við á­horf­endur. Sigurður Karls­son kemur sömu­leiðis inn með miklu afli, sprengi­efni byltingarinnar. En stundum kviknar ekki eldur af fá­einum neistum.

Margrét Guð­munds­dóttir er eins og lítil sprengi­stjarna sem Char­lotte Cor­day, hlut­verk sem hún lék í Þjóð­leik­húsinu fyrir tæpum 56 árum.

Stefnu­laus hópur

Rúnar Guð­brands­son á heiður skilinn fyrir að ná þessum hópi saman en mis­heppnast að byggja heild­stæða sýningu í kringum hann. Í leik­skrá er vitnað í hina al­tæku stofnun en tákn­myndin er sjaldan notuð og hug­myndirnar hanga ekki saman. Hópurinn er of stór fyrir þetta ó­ljósa ferða­lag og pólitísk skila­boð leik­ritsins týnast nánast al­gjör­lega í glund­roðanum.

Hópurinn er sundur­slitinn og stefnu­laus, þó að leik­gleðin sé svo sannar­lega til staðar. Kórinn kætir en ráfandi vist­fólkið hefur engan á­kvörðunar­stað. Sömu­leiðis nýtir leik­stjórinn ekki þá ríku og raun­veru­legu sögu sem leik­hópurinn geymir. Litla at­riðið þegar Viðar og Þór­hildur berjast um valda­sprotann opnar á sögu­legt sam­hengi, tengsl sem hefðu bætt við eld­fimri breytu í sýninguna. Undir lokin er fremur van­máttug til­raun til að vitna í bús­á­halda­byltinguna, enn önnur hug­mynd án úr­lausnar.

Rúnar Guð­brands­son á heiður skilinn fyrir að ná þessum hópi saman en mis­heppnast að byggja heild­stæða sýningu í kringum hann.

Brota­kennd byltingar­sýning

Tækni­legri um­gjörð er mjög á­bóta­vant, eigin­lega á öllum póstum. Leik­myndin minnir á ein­angrunar­hólf á heil­brigðis­stofnunum og að­stoðar­fólkið er í­klætt kunnug­legum og klunna­legum ein­kennis­búningum. Búningarnir eru kaotískur sam­tíningur og stangast á við um­gjörðina, þá vekur búningur Coul­mi­er hina mestu furðu. Er hann vist­maður eða stjórnandi stofnunarinnar? Tengingarnar á milli ytri og innri heims sýningarinnar eru með öllu ó­full­nægjandi. Sömu­leiðis eru titlar á at­riðum nánast ó­sýni­legir og illa unnir. Hljóð­vinnan er kraft­laus, ekki er við leikarana að sakast en hljóð­vistin og stuðningur á sviðinu þarf að vera betri.

Marat/Sade er sögu­legur við­burður, leik­sýning sem við munum ekki sjá aftur í bráð. Því miður stendur Marat/Sade ekki undir væntingum sem list­ræn heild þrátt fyrir ein­staka at­riði sem munu lifa lengi í minningunni. Sýningin er sundur­slitin og sam­hengis­laus en kemst nokkuð langt á frammi­stöðu fárra og mikil­feng­legri Margréti.

Niður­staða: Margrét Guð­munds­dóttir er yfir­náttúru­leg í annars brota­kenndri byltingar­sýningu.