Það er ekki á hverjum degi sem hægt er að sjá yfir 1.000 ára reynslu á einu og sama leiksviðinu, samanþjappaða í 19 einstaklingum. Leikhópur Marat/Sade, eftir Peter Weiss og í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar, er þverskurður af leikurum og tónlistarmönnum sem settu ómetanlegt mark á íslenska menningarsögu. Eftirvæntingin var því mikil á frumsýningunni en byltingin er slungið fyrirbæri.
Leikurinn gerist á Charenton-hælinu í Frakklandi þar sem de Sade markgreifi er í haldi og í miðjum klíðum að setja upp leikrit um dauðdaga byltingarmannsins Jean-Paul Marat með aðstoð hinna sjúklinganna. Marat/Sade er afsprengi sjöunda áratugarins og uppgjör við alhæfingar, sem leiða oftar en ekki til blóðugra styrjalda. Textinn er marglaga, samansafn af einræðum um lífið og tilveruna í bland við baráttusöngva í anda Bertolt Brecht.
Arnar Jónsson, sem leikur de Sade markgreifa, fagnaði áttræðisafmæli sínu deginum eftir frumsýningu og hefur fáu gleymt þegar kemur að textaflutningi, einstaki raddblærinn ennþá töfrandi, en de Sade virðist fjarlægur. Fyrir miðju sviðsins situr byltingarmaðurinn Marat í baði, sem kallast á við málverkið La Mort de Marat eða Marat Assassiné eftir Jacques-Louis David. Sigurður Skúlason kemur tilfinningalegri ringulreið Marat vel til skila en virðist spóla í sama farinu. Sömuleiðis einskorðast hlutverk Kristbjargar Kjeld við einfaldar gjörðir og hennar hæfileikar eru ekki nýttir.

Eins og lítil sprengistjarna
En að yfirnáttúrulegum augnablikum. Einungis örsjaldan eru leikhúsáhorfendur svo heppnir að leikari opnar fyrir þeim handanheima, eins og viðkomandi sé í beinu sambandi við æðri máttarvöld. Margrét Guðmundsdóttir er eins og lítil sprengistjarna sem Charlotte Corday, hlutverk sem hún lék í Þjóðleikhúsinu fyrir tæpum 56 árum. Engin leið er að vita hvort eldingu slær niður tvisvar á sama stað en augnablikið átti sér stað og Margrét leiftraði á frumsýningunni.
Henni til halds og trausts, ef svo má að orði komast, er Eggert Þorleifsson sem hefur hættulega nærveru og húmorinn á hárréttum stað. Frá honum stafar raunveruleg ógn og hann eggjar alla í kringum sig. Árni Pétur Guðjónsson er í heljarinnar stuði á þessu leikári, óútreiknanlegur, kraftmikill og í beinu sambandi við áhorfendur. Sigurður Karlsson kemur sömuleiðis inn með miklu afli, sprengiefni byltingarinnar. En stundum kviknar ekki eldur af fáeinum neistum.
Margrét Guðmundsdóttir er eins og lítil sprengistjarna sem Charlotte Corday, hlutverk sem hún lék í Þjóðleikhúsinu fyrir tæpum 56 árum.
Stefnulaus hópur
Rúnar Guðbrandsson á heiður skilinn fyrir að ná þessum hópi saman en misheppnast að byggja heildstæða sýningu í kringum hann. Í leikskrá er vitnað í hina altæku stofnun en táknmyndin er sjaldan notuð og hugmyndirnar hanga ekki saman. Hópurinn er of stór fyrir þetta óljósa ferðalag og pólitísk skilaboð leikritsins týnast nánast algjörlega í glundroðanum.
Hópurinn er sundurslitinn og stefnulaus, þó að leikgleðin sé svo sannarlega til staðar. Kórinn kætir en ráfandi vistfólkið hefur engan ákvörðunarstað. Sömuleiðis nýtir leikstjórinn ekki þá ríku og raunverulegu sögu sem leikhópurinn geymir. Litla atriðið þegar Viðar og Þórhildur berjast um valdasprotann opnar á sögulegt samhengi, tengsl sem hefðu bætt við eldfimri breytu í sýninguna. Undir lokin er fremur vanmáttug tilraun til að vitna í búsáhaldabyltinguna, enn önnur hugmynd án úrlausnar.
Rúnar Guðbrandsson á heiður skilinn fyrir að ná þessum hópi saman en misheppnast að byggja heildstæða sýningu í kringum hann.
Brotakennd byltingarsýning
Tæknilegri umgjörð er mjög ábótavant, eiginlega á öllum póstum. Leikmyndin minnir á einangrunarhólf á heilbrigðisstofnunum og aðstoðarfólkið er íklætt kunnuglegum og klunnalegum einkennisbúningum. Búningarnir eru kaotískur samtíningur og stangast á við umgjörðina, þá vekur búningur Coulmier hina mestu furðu. Er hann vistmaður eða stjórnandi stofnunarinnar? Tengingarnar á milli ytri og innri heims sýningarinnar eru með öllu ófullnægjandi. Sömuleiðis eru titlar á atriðum nánast ósýnilegir og illa unnir. Hljóðvinnan er kraftlaus, ekki er við leikarana að sakast en hljóðvistin og stuðningur á sviðinu þarf að vera betri.
Marat/Sade er sögulegur viðburður, leiksýning sem við munum ekki sjá aftur í bráð. Því miður stendur Marat/Sade ekki undir væntingum sem listræn heild þrátt fyrir einstaka atriði sem munu lifa lengi í minningunni. Sýningin er sundurslitin og samhengislaus en kemst nokkuð langt á frammistöðu fárra og mikilfenglegri Margréti.
Niðurstaða: Margrét Guðmundsdóttir er yfirnáttúruleg í annars brotakenndri byltingarsýningu.