Jóni Atla Jónassyni eru lögreglukonur og börn nokkuð hugleikin þessi árin. Í skáldsögunni Andnauð sem kom út á Storytel í sumar er lögreglukona sem leggur ýmislegt í sölurnar til að eignast barn og einnig skrifaði hann fyrir nokkrum árum nokkra þætti í finnskri sjónvarpsþáttaseríu um lögreglukonu sem átti fatlað barn sem hafði áhrif á líf hennar og störf.
Hvatvís og hnífskörp
Í glæpasögunni Brotin er lögreglukonan Dóra í forgrunni en hún lifir með því að hafa fengið voðaskot í höfuðið við skyldustörf sem hafði þau áhrif á heilann að breyta persónuleika hennar, losa um hömlur og hvatvísi og skerpa athyglisgáfuna. Þessi breyting gerir Dóru í senn afburða góða í sínu fagi þar sem hún sér hlutina ekki eins og aðrir og kemur því oft auga á það sem öðrum yfirsést, en einnig fullkomlega ófæra um að sinna starfinu þar sem hún hefur ekki stjórn á hvatvísi sinni og hnífskarpri tungu.
Vinnufélagi hennar Rado á ekki síður áhugaverða baksögu, allt frá því að koma til Íslands sem barn á flótta undan Bosníustríðinu að því að vera tengdur inn í helstu glæpagengi landsins. Saman fá þau það verkefni að finna stálpið Morgan sem hverfur úr skólaferðalagi á Þingvöllum en sagan fer svo um víðan völl innlendra gengjastríða og alþjóðlegra stórglæpamanna sem svífast einskis.
Brotin er í alla staði mjög vel heppnuð glæpasaga. Jón Atli hóf feril sinn sem leikritaskáld og því eru persónurnar sérstaklega vel skrifaðar og trúverðugar.
Vel heppnuð glæpasaga
Brotin er í alla staði mjög vel heppnuð glæpasaga. Jón Atli hóf feril sinn sem leikritaskáld og því eru persónurnar sérstaklega vel skrifaðar og trúverðugar í framandleika sínum og plottið er þykkt og safaríkt með ólíkum þráðum sem að lokum bindast vel og rækilega saman.
Lýsingarnar á undirheimum Reykjavíkur eru óþægilega trúverðugar og innsýnin í átök milli glæpagengja og hvernig lögreglan skipuleggur rassíur er áhugaverð og spennandi, ekki síst núna þegar raunveruleiki slíks færist sífellt nær hinum almenna borgara. Lýsingar á slagsmálum og líkamsmeiðingum verða kannski full langdregnar, alla vega fyrir lesanda sem hefur ekki mikla þolinmæði fyrir slíku í myndmiðlun heldur, en virka samt til að gefa atburðum trúverðugan blæ.
Jón Atli hefur unnið við skriftir á sjónvarpsþáttum, bæði hér heima og erlendis, árum saman og það er mjög auðvelt að sjá fyrir sér hvernig Brotin gæti orðið að sjónvarpsseríu. Og helst nokkrum þar sem persónur Dóru og Rado eiga heilmikið inni.
Niðurstaða: Vel heppnuð glæpasaga, áhugaverð persónusköpun og flétta sem gengur vel upp.