Bækur

Plómur

Höfundur: Sunna Dís Más­dóttir

Fjöldi síðna: 45

Út­gefandi: Mál og menning

Svika­skáldið Sunna Dís sendir nú frá sér sína fyrstu ljóða­bók og „fyrr það mátti vera“ eins og þar stendur. Ljóð Sunnu eru inn­hverf, beinast að bernsku, þroska, minningum og til­finningum. Allt sí­gild við­fangs­efni ljóð­listar fyrr og síðar. Yrkis­efni sem hafa heillað skáld í margar aldir og munu verða á dag­skrá á­fram nema manneskjan stökk­breytist í eitt­hvað nýtt og allt annað. Stundum vitnar bók­mennta­fólk í Biblíuna um að „ekkert sé nýtt undir sólinni“ en það orkar tví­mælis. „Ekkert nýtt nema ver­öldin“ er miklu betri til­vitnun. Ný augu og ný eyru sjá og heyra nýja ver­öld.

Stundum hafa menn (bæði karlar og konur) tekist á um það hvað ljóð séu eigin­lega. Ég geng út frá því að ljóð séu þéttur texti sem á and­stæðu­kenndan hátt þéttist oft mest vegna þess sem skilið er eftir og fær ekki að vera með í ljóðinu. Í þessum kjarna ljóð­listarinnar finnst mér Sunna Dís afar sterk. Hún blaðrar ekki. Strikar frekar út og kallar lesandann til leiks á smekk­lega völdum augna­blikum.

Ást og for­tíðar­þrá

Í ljóðinu Brenna hefur ljóð­mælandinn brennt bréf frá ein­hverjum sem gæti verið fyrsta ástin. Ljóð­mælandinn er að leita að bréfunum sem brennd voru, þau verða tákn fyrir æsku­ástina og þar með færist leitin af hinu per­sónu­lega sviði ljóð­mælandans og yfir til allra þeirra sem þekkja blíðar til­finningar sem geta aldrei komið aftur. Svipað þema er tekið upp í kvæðinu Tuttugu ár. Tuttugu árum seinna langar ljóð­mælandann að vita hvort hinn elskaði endur­galt ekki ástina eða fannst ástin ekki þess virði að halda sam­bandinu. Ljóð­mælandinn þorir ekki að spyrja en hann getur aug­ljós­lega ekki spurt. Eftir stendur vit­neskja okkar allra um það hve erfitt er að kveðja for­tíð sem við þekkjum ein.

Ó­ljós titill

Í ljóðinu Bambi er ljóð­mælandinn ungur, fer út í bíl­skúr að sækja tandur­hreint lindar­vatn á flösku og þar hangir þá bambi með brostin augu og undir honum kaldur blóð­pollur. Stjúp­faðirinn hefur drepið bamba. Hér koma ýmsar túlkanir til greina. Auð­vitað má deila um hvort það að veiða bamba er ljótara en að kaupa dá­dýra­steik á veitinga­húsi, en ljóðið kallar lesandann til leiks á smekk­legan og mark­vissan hátt og krefst skapandi hugsunar. Aftar­lega í bókinni er fal­legt ástar­kvæði sem heitir Akur. Þar brýtur hitinn sér leið inn í brjóst­holið sem höfundur skildi ekki áður að var gler­búr.

Í þessum pistli hefur einungis verið drepið á nokkur um­hugsunar­efni sem upp spruttu við lestur þessarar fal­legu ljóða­bókar. Ég er enn að hugsa um hvernig gjöfulast væri að túlka titil bókarinnar, Plómur? Ég hefði viljað sjá betri titil.

Niður­staða: Ljóða­bókin Plómur er fal­legt bók­mennta­verk sem fjallar um enda­lausa viður­eign mann­eskjunnar við sjálfa sig, vonir sínar og þrár. Sunna Dís Más­dóttir er ó­svikið skáld.