Mál­taka á stríðs­tímum er fal­legur skáld­skapur sem á rætur í rauna­legu stríði. Bókin skiptist í kaflana: 1. Að tala, 2. Að skrifa, 3. Að hlusta og 4. Að skilja. Í þeim kafla eru síðurnar auðar. Það hefur ljóð­mælandanum ekki tekist enn þegar bókin kemur út. Leiðin til skilnings er hins vegar tví­mæla­laust að tala, skrifa og hlusta.

Nokkuð langt ljóð í bókinni heitir Götu­krakkar. Þar er bernskan teiknuð upp í mildum litum en í bak­sýn er alltaf eitt­hvað tengt hernaði og mann­vígum. Jafn­vel í hinni sælu bernsku leynist stríðsveira for­tíðarinnar. Það er farið á rúllu­skauta í stóra Sigur­garðinum, eftir göngu­stígum sem tengjast flug­mönnum úr stríðinu, skrið­dreka­her­mönnum og skæru­liðum; það er hlaupið milli granít­brjóst­mynda við hetju­stíg, komið að gröf ó­þekkta her­mannsins og brodd­súlu sem rís til himins, á­letruð nöfnum byltingar­manna. Loka­línur ljóðsins eru þver­sögn: „við trúðum á bjarta fram­tíð barin með kylfum.“

Fjöl­skylda í molum

Í ljóðum Na­töshu birtist fjöl­skyldan í molum. Á­rásar­gjarnir draumar um móðurina sem virðist af­neita hörmungunum, faðirinn veikur og þreyttur í leit að lyfjum, sam­bandið við systurina er rofið. Tungu­málið er brostið eins og sést í ljóði sem kallast Nú­tíma­sam­töl. Það sem þörf væri að ræða er ein­fald­lega of sorg­legt til þess að segja það. Hugsanirnar er hvorki hægt að orða né hlusta á. Það er ekki hægt að skilja þó að ó­hjá­kvæmi­legt sé að tala, skrifa og hlusta. Er málið tekið af mönnum á stríðs­tímum eða þurfa menn að glíma við mál­töku á ný vegna þess að öll merking er niður­brotin og ónýt? Senni­lega gildir hvort tveggja og titill ljóða­bókarinnar er tví­bentur.

Ný merking tungu­máls

Á bak­síðu ljóða­bókarinnar standa þessi orð: „Ótti og hatur eru aðal­vopn á­róðurs. Ég vel að vera ó­hrædd og elska.“ Í þessu held ég ein­mitt að sé fólgin sú „mál­taka á stríðs­tímum“ sem bókin fjallar um. Ef og þegar þol­endum stríðs­ógna tekst að elska og víkja frá sér ótta og hatri mun tungu­málið fá merkingu á ný. Hvort sem það er nýtt tungu­mál í nýju landi flótta­manns eða gamla tungu­málið sem missti merkingu sína frammi fyrir stríðs­glæpum og ó­mennsku.

Mál­far og mynd­mál í ljóða­bókinni Mál­taka á stríðs­tímum er veru­lega að­laðandi og gott í­hugunar­efni. Stundum fær tungu­málið á sig súrrealískan blæ, eins og í ljóðinu Rústir. Það tengist aug­ljós­lega efni þessa kvæðis sem fjallar um skrif­ræðið.

Niður­staða: Fal­leg og vönduð ljóða­bók sem glímir við þann harm sem sprettur af stríði og leitar svara við því hvernig sé hægt að vera til þegar merkingunni með lífi okkar hefur verið eytt.