Máltaka á stríðstímum er fallegur skáldskapur sem á rætur í raunalegu stríði. Bókin skiptist í kaflana: 1. Að tala, 2. Að skrifa, 3. Að hlusta og 4. Að skilja. Í þeim kafla eru síðurnar auðar. Það hefur ljóðmælandanum ekki tekist enn þegar bókin kemur út. Leiðin til skilnings er hins vegar tvímælalaust að tala, skrifa og hlusta.
Nokkuð langt ljóð í bókinni heitir Götukrakkar. Þar er bernskan teiknuð upp í mildum litum en í baksýn er alltaf eitthvað tengt hernaði og mannvígum. Jafnvel í hinni sælu bernsku leynist stríðsveira fortíðarinnar. Það er farið á rúlluskauta í stóra Sigurgarðinum, eftir göngustígum sem tengjast flugmönnum úr stríðinu, skriðdrekahermönnum og skæruliðum; það er hlaupið milli granítbrjóstmynda við hetjustíg, komið að gröf óþekkta hermannsins og broddsúlu sem rís til himins, áletruð nöfnum byltingarmanna. Lokalínur ljóðsins eru þversögn: „við trúðum á bjarta framtíð barin með kylfum.“
Fjölskylda í molum
Í ljóðum Natöshu birtist fjölskyldan í molum. Árásargjarnir draumar um móðurina sem virðist afneita hörmungunum, faðirinn veikur og þreyttur í leit að lyfjum, sambandið við systurina er rofið. Tungumálið er brostið eins og sést í ljóði sem kallast Nútímasamtöl. Það sem þörf væri að ræða er einfaldlega of sorglegt til þess að segja það. Hugsanirnar er hvorki hægt að orða né hlusta á. Það er ekki hægt að skilja þó að óhjákvæmilegt sé að tala, skrifa og hlusta. Er málið tekið af mönnum á stríðstímum eða þurfa menn að glíma við máltöku á ný vegna þess að öll merking er niðurbrotin og ónýt? Sennilega gildir hvort tveggja og titill ljóðabókarinnar er tvíbentur.
Ný merking tungumáls
Á baksíðu ljóðabókarinnar standa þessi orð: „Ótti og hatur eru aðalvopn áróðurs. Ég vel að vera óhrædd og elska.“ Í þessu held ég einmitt að sé fólgin sú „máltaka á stríðstímum“ sem bókin fjallar um. Ef og þegar þolendum stríðsógna tekst að elska og víkja frá sér ótta og hatri mun tungumálið fá merkingu á ný. Hvort sem það er nýtt tungumál í nýju landi flóttamanns eða gamla tungumálið sem missti merkingu sína frammi fyrir stríðsglæpum og ómennsku.
Málfar og myndmál í ljóðabókinni Máltaka á stríðstímum er verulega aðlaðandi og gott íhugunarefni. Stundum fær tungumálið á sig súrrealískan blæ, eins og í ljóðinu Rústir. Það tengist augljóslega efni þessa kvæðis sem fjallar um skrifræðið.
Niðurstaða: Falleg og vönduð ljóðabók sem glímir við þann harm sem sprettur af stríði og leitar svara við því hvernig sé hægt að vera til þegar merkingunni með lífi okkar hefur verið eytt.