Bækur

Skóla­slit

Höfundur: Ævar Þór Bene­dikts­son

Mynd­lýsing: Ari H.G. Ya­tes

Fjöldi síðna: 265

Út­gefandi: Mál og menning

Ævar Þór Bene­dikts­son, rit­höfund, leikara, á­huga­vísinda­mann, lestrar­á­taks­stjóra og al­mennan sam­fé­lags­bæti, þarf ekki að kynna fyrir neinum sem hefur fylgst með barna­menningu undan­farinn ára­tug. Bókin sem hér er til um­fjöllunar, Skóla­slit, er hans tuttugasta og níunda bók sem er ansi vel af sér vikið á til­tölu­lega stuttum rit­ferli en hún sver sig í efnis­tökum í ætt við nokkrar fyrri bóka hans eins og Þína eigin hroll­vekju, Hrylli­lega stuttar hroll­vekjur og Fleiri hrylli­lega stuttar hroll­vekjur, að ó­gleymdum bóka­flokknum Bernsku­brek Ævars vísinda­manns þar sem höfundur leitar fanga í minni úr hryllings­myndum og B-myndum frá því um mið­bik síðustu aldar.

Bókin Skóla­slit er unnin upp úr hrekkja­vöku­daga­tali þar sem einn kafli birtist á sam­nefndri vef­síðu á hverjum degi allan októ­ber­mánuð í fyrra í þeim til­gangi að vekja á­huga nem­enda í grunn­skólum á lestri „á nýjan, frum­legan og skemmti­legan máta. Sem okkur tókst“, eins og segir í eftir­mála bókarinnar sem stað­festist með því að bókin rýkur út eins og heit … miltu og fram­haldið, Skóla­slit 2, er á leiðinni í loftið.

Hefst með látum

Skóla­slit hefjast með látum. Lesandanum er þeytt inn í at­burða­rás í skóla þar sem hrekkja­vöku­há­tíðar­höld hafa farið úr skorðum, svo um munar. Án þess að vilja spilla spennunni er les­endum ráðið frá því að tengjast per­sónum um of þar sem fljót­lega kemur í ljós að upp­vakningar eru ekkert lamb að leika sér við og hálfir í­þrótta­kennarar gera ekki mikið gagn við að halda uppi röð og reglu á skóla­lóðinni. Bókin fylgir sí­gildum sögu­þræði upp­vakninga­mynda áttunda ára­tugarins með ó­væntum upp­brotum og sam­suðu við önnur hryllings­mynda­minni. Á köflum er hún ansi blóðug og at­vik gætu alveg skotið ein­hverjum börnum skelk í bringu en önnur munu taka þessum grafísku lýsingum á ó­hugnaði fagnandi. Fléttan er góð og gengur upp þó hún trosni að­eins um mið­bikið.

Bókin ber mörg helstu ein­kenni höfundarins, léttan frá­sagnar­stíl, skemmti­lega per­sónu­sköpun og fyndni sem er oft mikil­væg en einkum þegar upp­vakningar eiga í hlut.

Hryllings­á­hugi barna

Mynd­lýsingar Ara H.G. Ya­tes eru ein­stak­lega vel unnar, enda var daga­talið sem bókin byggir á unnið í sam­starfi þeirra Ævars. Stíllinn minnir um margt á Dis­n­ey-teikni­myndirnar um Finn­boga og Felix sem er vel við hæfi þar sem Ævar ljáði per­sónum þar rödd sína og myndirnar kynna nýjar per­sónur til sögunnar með snaggara­legum hætti. Um­brotið er líka einkar skemmti­legt og sér­stak­lega er vert að minnast á bit­farið neðst í hægra horni bókarinnar.

Bókin er til­einkuð öllum þeim sem hafa ein­hvern tíma setið í skóla­stofu og velt fyrir sér eigin við­brögðum ef til inn­rásar upp­vakninga kæmi. Á­hugi barna á hryllingi er greini­lega mikill og hefur senni­lega alltaf verið það, saman­ber allar drauga­sögurnar. Ein­hverjar kenningar eru til um að með því að hugsa um yfir­náttúru­legan hrylling séu börn að búa sig undir á­föll og það að lifa af ef heims­mynd þeirra hrynur eða eitt­hvað skelfi­legt á sér stað. Ekki skal ég fjöl­yrða um það en mæli hik­laust með því að æfa sig í spennu, ótta, hug­rekki og upp­vakninga­bar­dögum með þessari bók.

Niður­staða: Skemmti­leg og spennandi hryllings­saga fyrir krakka, ansi blóðug á köflum.