Myndlist

Rólegur Snati Ég er 500 manns

Magnús Helgason

Listamenn Gallerí

Ef mér hefði einhvern tímann verið sagt að við vissar aðstæður gæti ferköntuð og marflöt strangflatalistin verið tilfyndið, jafnvel kómískt, fyrirbæri, þá hefði ég vísast hváð. Að vísu var Mondrian, einn af upphafsmönnum þessarar listar, ekki gersneyddur kímnigáfu, en regluverkið sem myndlist hans er reist á leyfði engin frávik.

Myndverkið átti að vera huglægt og tvívítt fyrirbæri, aðeins þrír frumlitir voru leyfðir, gulur, blár og rauður (plús grátt og svart, sem ekki töldust til lita) og allar línur skyldu vera ýmist lóðréttar eða láréttar. Hér var komið eins konar Esperantó myndlistarinnar, myndmál sem allir áttu að geta skilið, hvar sem þeir væru í sveit settir.

Sálufélagi Mondrians, Van Doesburg gerði honum þann grikk að innleiða fleiri liti, skálínur og lífræna formgerð, sem varð til þess að hann var settur út af sakramentinu. Van Doesburg átti samt síðasta orðið, strangflatalistin færðist æ meira í frjálsræðisátt eftir því sem tímar liðu. Geómetrísku málararnir íslensku eru síðan skilgetnir afkomendur hans fremur en Mondrians. En þeir voru ekki brandarakarlar fremur en þeir Mondrian og van Doesburg, strangflatalistin var þeim dauðans alvara.

Helsta einkenni á þessum samsettu verkum er notkun listamannsins á rúðugleri, sem eykur á fjölbreytni og margræði byggingarstílsins.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Leikgleði og léttúð

Tilefni þessa formála er sýning Magnúsar Helgasonar hjá Listamönnum, þar sem ýmsar grunnstoðir strangflatalistar eru sannarlega fyrir hendi, marflatir grunnlitir, láréttar og lóðréttar útlínur, innbyrðis samræmi. Hins vegar nálgast Magnús hugmynda- og formfræði þessarar listar af öllu meiri leikgleði og léttúð en forverarnir, enda kominn alllangt frá þeim í tíma.

Í fyrsta lagi erum við ekki lengur að tala um hrein og klár málverk, heldur óregluleg samsett verk, combines, úr margs konar afgangstimbri, krossvið með alls konar mynstri, spónaplötum, borðplötum og parketi, jafnvel pappa, sem mynda undirstöður verkanna. Litróf Magnúsar spannar síðan allan skalann frá klassískum blátónum upp í nærbuxnableikt og appelsínugult, og eru litirnir ýmist málaðir, „fundnir“ eða koma fyrir á mislitum pappírseiningum sem dreift er um alla fleti.

Helsta einkenni á þessum samsettu verkum er samt notkun listamannsins á rúðugleri, sem eykur á fjölbreytni – og margræðni – byggingarstílsins. Glerið er enn ein viðbót við áferðarflóruna í hverju verki, auk þess sem litir eru ekki samir þegar þeir eru komnir undir gler. En gler er í senn fráhrindandi, kemur í veg fyrir bein tengsl áhorfandans við það sem fyrirfinnst á fletinum, um leið og það speglar áhorfandann og gerir hann þar með að þátttakanda í þeim „listhlut“ sem verkið er.

Verk Magnúsar eru ekki hrein og klár málverk, heldur óregluleg samsett verk úr margs konar afgangstimbri.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hvítt sem hvítt …

Óvissuþættir og tvíræðni af þessu tagi eru ær og kýr Magnúsar og auka óneitanlega á skemmtanagildi verka hans. Til dæmis virðist honum fyrirmunað að hantéra hvítt sem hreinan lit, hann er ekki fyrr komin með hvítan flöt en hann hefst handa við að krota á hann, sletta á hann afgangslitum eða líma ofan á hann. Þetta ferli, komplett með efasemdum og útstrikunum, ratar svo beint inn í endanlega samsett verk.

Það er engu líkara en listamaðurinn vilji ekki láta hanka sig á alvöru á borð við þá sem einkennir strangflatalistina gömlu, því hann er ekki fyrr kominn niður á „lausn“ en hann umturnar þeirri niðurstöðu í næsta verki. Skondið er líka það uppátæki hans á þessari sýningu að framlengja nokkur verk yfir á veggi sýningarsalarins, eins og þau séu hluti af ferli sem stöðugt þarfnast endurskoðunar.

Maður veltir fyrir sér hvort hugmyndafræði þessara verka Magnúsar sé í grunninn þvert á það sem við skynjum í verkum þeirra Mondrians & co. Markmið Mondrians var að skapa hrein, fögur og tær form úr engu, spegilmyndir þeirrar fullkomnunar sem hann taldi mannkyn þarfnast á óvissutímum. Skyldi ekki markmið Magnúsar vera að gera það sama, að viðbættum húmor, úr öllum úrganginum sem er að vaxa mannkyni yfir höfuð? Að minnsta kosti nefnir hann leit sína að „jafnvægi, spennu og fegurð“ á einum stað í sýningarskrá. Um leið skýrir hann fyrir okkur af hverju sýningin heitir Rólegur Snati.

Niðurstaða: Vettvangur formfastrar leikgleði.