Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hefur fyrir löngu haslað sér völl með myndasögum sínum en hún sýnir núna ár eftir ár færni sína í textasögum og er með tvær bækur í jólabókaflóði ársins, Mömmu köku og Héragerði.
Tvíburasystkinin Inga og Baldur bíða páskanna með eftirvæntingu enda fela þeir í sér essin þrjú, slökun, súkkulaði og meira súkkulaði. Þegar í ljós kemur að þau eiga að verja páskunum í Hveragerði (sem Ingu heyrist fyrst heita Héragerði) með ömmu sem þau hafa aldrei hitt og frænku sem sést ekki verða þau dálítið efins en láta til leiðast, ekki síst eftir nákvæma útreikninga um afturvirka páskaeggjaskuld hinnar fyrrum fjarverandi ömmu. Þegar þau koma svo í Héragerði er amman heilsuóð og telur súkkulaðineyslu barna jafngilda eiturgjöfum og útlitið er ekki bjart. En úr öllu rætist og systkinin eiga eftirminnilega páska sem eiga eftir að draga marga góða dilka á eftir sér.
Íhugular ærslasögur
Héragerði er sjálfstætt framhald af Grísafirði sem kom út fyrir tveimur árum og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Hér er sama græskulausa fjörið við völd og Héragerði er jafnvel enn þá betri en Grísafjörður, söguþráðurinn flóknari og persónurnar líka. Tvíburarnir Inga og Baldur eru mjög ólík, hún er ofvirkur stuðbolti, fyndin og hress, sem hræðist fátt og fer iðulega yfir öll strik sem á vegi hennar verða á meðan hann er kvíðinn og varkár og sér strikin stundum sem ókleifa veggi.
Mamma þeirra er einstæð móðir sem oft á erfitt með að láta enda ná saman og um það er fjallað á áreynslulausan hátt en Lóu lætur einkar vel að skrifa um samskipti og ólíka upplifun persóna sem skín í gegn um fjörið og skemmtilegheitin þannig að sögurnar hennar ná þeim fágæta árangri að vera íhugular ærslasögur þar sem hvorki fjör né næmni geldur hins.
Skemmtilegar myndlýsingar
Myndlýsingarnar og umbrotið allt er líka einkar skemmtilegt, myndirnar eru bæði útlistun á því sem er að gerast í sögunni en leggja líka iðulega í myndasöguformi út af einni setningu eða hugmynd í textanum og búa þannig til fleiri víddir í söguna, aukasögur eða vísanir, lesendum til mikillar gleði. Svo er líka vasi innan á aftara kápuspjaldinu í þessari bók eins og í Grísafirði þar sem má finna ýmsan glaðning, meðal annars myndasöguna um Hérlokk Hólms en hún kemur einmitt við sögu í bókinni.
Niðurstaða: Héragerði er afskaplega skemmtileg, litrík og fjörug saga sem sendir gleðigeisla inn í hug og hjarta lesandans.
Hér er sama græskulausa fjörið við völd og Héragerði er jafnvel enn þá betri en Grísafjörður, söguþráðurinn flóknari og persónurnar líka.