Lóa Hlín Hjálm­týs­dóttir hefur fyrir löngu haslað sér völl með mynda­sögum sínum en hún sýnir núna ár eftir ár færni sína í texta­sögum og er með tvær bækur í jóla­bóka­flóði ársins, Mömmu köku og Héra­gerði.

Tví­bura­syst­kinin Inga og Baldur bíða páskanna með eftir­væntingu enda fela þeir í sér essin þrjú, slökun, súkku­laði og meira súkku­laði. Þegar í ljós kemur að þau eiga að verja páskunum í Hvera­gerði (sem Ingu heyrist fyrst heita Héra­gerði) með ömmu sem þau hafa aldrei hitt og frænku sem sést ekki verða þau dá­lítið efins en láta til leiðast, ekki síst eftir ná­kvæma út­reikninga um aftur­virka páska­eggja­skuld hinnar fyrrum fjar­verandi ömmu. Þegar þau koma svo í Héra­gerði er amman heilsu­óð og telur súkku­laði­neyslu barna jafn­gilda eitur­gjöfum og út­litið er ekki bjart. En úr öllu rætist og syst­kinin eiga eftir­minni­lega páska sem eiga eftir að draga marga góða dilka á eftir sér.

Í­hugular ærsla­sögur

Héra­gerði er sjálf­stætt fram­hald af Grísa­firði sem kom út fyrir tveimur árum og var til­nefnd til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna og Barna­bóka­verð­launa Norður­landa­ráðs. Hér er sama græsku­lausa fjörið við völd og Héra­gerði er jafn­vel enn þá betri en Grísa­fjörður, sögu­þráðurinn flóknari og per­sónurnar líka. Tví­burarnir Inga og Baldur eru mjög ólík, hún er of­virkur stuð­bolti, fyndin og hress, sem hræðist fátt og fer iðu­lega yfir öll strik sem á vegi hennar verða á meðan hann er kvíðinn og var­kár og sér strikin stundum sem ó­kleifa veggi.

Mamma þeirra er ein­stæð móðir sem oft á erfitt með að láta enda ná saman og um það er fjallað á á­reynslu­lausan hátt en Lóu lætur einkar vel að skrifa um sam­skipti og ó­líka upp­lifun per­sóna sem skín í gegn um fjörið og skemmti­leg­heitin þannig að sögurnar hennar ná þeim fá­gæta árangri að vera í­hugular ærsla­sögur þar sem hvorki fjör né næmni geldur hins.

Skemmti­legar mynd­lýsingar

Mynd­lýsingarnar og um­brotið allt er líka einkar skemmti­legt, myndirnar eru bæði út­listun á því sem er að gerast í sögunni en leggja líka iðu­lega í mynda­sögu­formi út af einni setningu eða hug­mynd í textanum og búa þannig til fleiri víddir í söguna, auka­sögur eða vísanir, les­endum til mikillar gleði. Svo er líka vasi innan á aftara kápu­spjaldinu í þessari bók eins og í Grísa­firði þar sem má finna ýmsan glaðning, meðal annars mynda­söguna um Hér­lokk Hólms en hún kemur ein­mitt við sögu í bókinni.

Niður­staða: Héra­gerði er af­skap­lega skemmti­leg, lit­rík og fjörug saga sem sendir gleði­geisla inn í hug og hjarta lesandans.

Hér er sama græsku­lausa fjörið við völd og Héra­gerði er jafn­vel enn þá betri en Grísa­fjörður, sögu­þráðurinn flóknari og per­sónurnar líka.