Leik­hús

Á eigin vegum

Kristín Steins­dóttir

Borgar­leik­húsið

Leik­gerð: Maríanna Clara Lúthers­dóttir og Salka Guð­munds­dóttir

Leik­stjóri: Stefán Jóns­son

Leikari: Sig­rún Edda Björns­dóttir

Leik­mynd og mynd­bönd: Egill Sæ­björns­son

Búningar: Stefanía Adolfs­dóttir

Tón­list og hljóð­mynd: Sól­ey Stefáns­dóttir

Lýsing: Pálmi Jóns­son

Hljóð­mynd: Þor­björn Stein­gríms­son

Leik­gervi: Guð­björg Ívars­dóttir

Sig­þrúður Krist­björg Ólafs­dóttir. Ekkja, blað­beri og boð­flenna í jarðar­förum. Hún drekkur þunnt kaffi í erfi­drykkjum ó­kunnugra, leggur dóm á bakk­elsið, gætir þess að láta sig hverfa áður en ættingjarnir koma og skrifar alltaf í gesta­bókina. Þessi kona á stærra innra líf en flestan grunar. Á eigin vegum var frum­sýnd á Litla sviði Borgar­leik­hússins föstu­daginn 16. septem­ber. Leik­gerð skáld­sögu Kristínar Steins­dóttur er í höndum Maríönnu Clöru Lúthers­dóttur og Sölku Guð­munds­dóttur.

Sögu­lega eru konur eins og Sig­þrúður ekki aðal­per­sónur í bók­menntum eða leik­ritum heldur auka­per­sónur, aðal­lega í sögum karl­manna. Hvað þá fjöl­skyldu­lausar verka­konur úr sveit. Konur sem standa sína plikt, mæta alltaf á réttum tíma, harka af sér í hljóði og láta lítið fyrir sér fara. Á­horf­endur eru sam­tímis ó­væntir gestir í lífi Sig­þrúðar og vitni að fram­burði hennar. For­tíðin á­sækir ekki Sig­þrúði heldur er stöðugt í kringum hana, minningar um liðna tíð, á­föll og þá fáu sem voru henni góðir. Maríanna Clara og Salka um­skrifa skáld­sögu Kristínar af virðingu og að­laga fyrir leik­sviðið. Fínar lausnir á flestum stöðum en nokkrir þræðir eru losara­legir, sam­skipti Sig­þrúðar við föður sinn og fað­erni afa hennar sem dæmi.

Sögu­lega eru konur eins og Sig­þrúður ekki aðal­per­sónur í bók­menntum eða leik­ritum heldur auka­per­sónur, aðal­lega í sögum karl­manna.

Fram­úr­skarandi aðal­leik­kona

Sig­rún Edda Björns­dóttir heldur á­horf­endum í lófa sér enda fram­úr­skarandi leik­kona. Hún fyllir Sig­þrúði lífi með til­finninga­legum blæ­brigðum og litlum hreyfingum sem birtast oft í ein­földum endur­tekningum. Hver hreyfing er ná­kvæm, að taka af sér er ekki gert með hraði heldur hvers­dags­legum há­tíð­leika. Sig­þrúður tekur kápuna af herðunum, leggur á við­eig­andi snaga, höfuð­fatið fylgir og síðan er dustað af sér. Lífið er saman­safn af slíkum augna­blikum. Þögnin er yfir­þyrmandi í hennar lífi, sjaldan ó­þægi­leg þó stundum sár. Þetta gerir Sig­rún Edda af sinni ein­stöku natni, örugg í sinni reynslu og sviðs­fram­komu.

Á eigin vegum er öðru­vísi á­skorun fyrir leik­stjórann Stefán Jóns­son og al­gjör við­snúningur frá síðasta verk­efni hans, Sjö ævin­týrum um skömm í Þjóð­leik­húsinu. Hann nálgast verk­efnið af nær­gætni, leyfir sögu Sig­þrúðar að njóta sín og treystir Sig­rúnu Eddu til að koma sögunni til skila. Ein­staka senur ganga ekki upp eins og myrki blað­burðurinn sem tónar illa við heildina. Ein­faldar lausnir eins og þegar Sig­þrúður stígur á milli heima í gegnum dyrnar fram­kalla hvers­dags­lega töfra á snjallan máta.

Sig­rún Edda Björns­dóttir heldur á­horf­endum í lófa sér og fyllir Sig­þrúði lífi með til­finninga­legum blæ­brigðum.
Mynd/Grímur Bjarnason

Draumar spyrja ekki um stærð

Ein­fald­leikinn er reyndar á­berandi í öllum list­rænum á­kvörðunum í leik­sýningunni. Mynd­listar- og tón­listar­maðurinn Egill Sæ­björns­son er skapandi aflið á bak við lit­ríka og leiftrandi leik­myndina. Heims­mynd Sig­þrúðar er alls ekki barna­leg, heldur dregur hún upp fal­legar myndir til að takast á við raun­veru­leikann. Út­færsla Egils er fram­úr­skarandi fyrir utan and­lit for­tíðarinnar sem birtast á veggjum kjallara­í­búðarinnar, and­lits­drættirnir eru klunna­legir og munn­hreyfingarnar mis­heppnaðar. Stefanía Adolfs­dóttir klæðir Sig­þrúði lát­laust en lag­lega og Sól­ey Stefáns­dóttir skreytir þögnina með fögrum tónum.

Allir vegir enda í París. Árið 2006 kom út ameríska stutt­myndin 14e Ar­rondissi­ment skrifuð og leik­stýrt af Alexander Payne með hinni stór­kost­legu karakter­leik­konu Margo Mar­tinda­le í aðal­hlut­verki. Þessi stutta mynd er kjörin við­bót við þetta ljúf­sára kvöld í Borgar­leik­húsinu enda um­hverfast bæði verkin um drauma kvenna sem eru kannski litlir en skipta öllu máli fyrir konurnar sem eiga þá. Á eigin vegum er á­minning um að allir eiga sér for­tíð, allir eiga sér drauma og allir skipta máli. Sumir draumar eru kannski smáir en þrá spyr ekki um stærð.

Niður­staða: Lítil saga verka­konu með stórt hjarta göldruð fram af einni bestu leik­konu landsins.