Um daginn var frumsýnd samstarfssýningin Eyja á Litla sviði Þjóðleikhússins. Eyja er úr ranni sviðslistahópsins O.N. sem samanstendur af heyrandi og heyrnarlausu listafólki og sérhæfir sig í tvítyngdum sýningum. Hér er ekki verið að tala um erlent tungumál heldur hitt íslenska tungumálið, íslenskt táknmál. Eyja fer fram á báðum málum og er bæði táknmálstúlkuð og textuð.
Samfélag döff einstaklinga
Eftirfarandi skilgreiningu má finna á heimasíðu Félags heyrnarlausra: „Á Íslandi er orðið döff notað um heyrnarlaust fólk sem talar táknmál. Að vera döff er að tilheyra samfélagi heyrnarlausra og líta á táknmál sem sitt fyrsta mál. Samsömun og sjálfsmynd eru mikilvægir þættir í þessu samhengi. Að vera döff er því menningarleg skilgreining á heyrnarleysi.”
Þessi skilgreining er bæði gagnleg til glöggvunar á samfélagi döff einstaklinga og Eyju sem snertir á mörgum þeim punktum sem fram í henni koma. Eyja er að mörgu leyti hefðbundið fjölskyldudrama. Faðirinn, höfuð fjölskyldunnar, er fallinn frá, börnin hans koma saman til að ganga frá eigum hans og gera upp fortíðina. Gömul sár opnast og allt breytist þegar óvæntan gest ber að garði.

Áralöng þreyta
Uldis Ozols leikur Hrafn sem er döff, líkt og Uldis, og framvindan snýr aðallega að upplifun hans í bæði samfélaginu og fjölskyldunni sinni. Hrafn er best skrifaði karakter leikverksins og gerir Uldis sér mikinn mat úr því með einlægum leik. Hann fangar vel áralanga þreytu Hrafns yfir því að vera útilokaður, húmorinn er þó aldrei langt undan. Jökull Smári Jakobsson er nýútskrifaður úr Listaháskóla Íslands og er að taka sín fyrstu skref á leiksviðinu sem takast afbragðs vel. Tómas, kærasti Hrafns, er hlýr, afslappaður og fyndinn í hans höndum.
Uglu, tvíburasystur Hrafns, leikur Ástbjörg Rut Jónsdóttur en hún er einnig handritshöfundurinn ásamt Sóleyju Ómarsdóttur. Björn Ingi Hilmarsson leikur frumburðinn Valdimar, elsta soninn sem fékk allt upp í hendurnar en glímir við persónuleg vandamál. Sigríður Vala Jóhannsdóttir leikur svo Eyju, óvænta gestinn sem skekur fjölskylduna. Hún, Ástbjörg Rut og Björn Ingi leysa sín hlutverk ágætlega en handritsgallar hamla framsetningu þeirra.
Fyrir utan Hrafn og Tómas eru persónur verksins ekki nægilega vel skrifaðar og söguþráðurinn oft yfirborðskenndur. Leikritið lifnar við þegar samskiptaörðugleikarnir milli Hrafns og Valdimars blossa upp og sumar línur hitta beint í mark. Aftur á móti er mörgum spurningum ósvarað, framvindan flöt og persónur eyða of miklum tíma í að útskýra frekar en að segja frá náttúrulega og leyfa áhorfendum að fylla í eyðurnar. Umræðurnar um Gallaudet-háskólann í Bandaríkjunum eru svo draumkenndar að þær jaðra við ævintýri og ákvörðun Hrafns undir lok leiksins virðist algjörlega aftengd raunveruleikanum.
Enginn er eyland, sagði skáldið, en mannfólkið er þrátt fyrir það duglegt að einangra þá sem eru öðruvísi.
Mikilvægt skref
Leikstjórinn Andrea Elín Vilhjálmsdóttir finnur einfaldar en skynsamar lausnir í sviðsetningunni, þar spila hönnun Tönju Huldar Levý Guðmundsdóttur og hljóðheimur Hreiðars Más Árnasonar mikilvægt hlutverk. Eyja er römmuð inn með atriðum sem notast við VV (visual vernacular), tjáningarform sprottið upp úr döff-samfélaginu, og heppnast einkar vel. Táknmálstúlkunin og textinn eru saumuð lipurlega í leikmyndina. Eitt eftirminnilegasta atriðið, fyrir heyrandi einstakling, er þegar heyrandi áhorfendur sem kunna ekki táknmál eru settir á jaðarinn og upplifa á eigin skinni hvernig er að vera útilokaður. Einnig má nefna ljúft augnablik þegar Hrafn og Tómas dansa saman.
Enginn er eyland, sagði skáldið, en mannfólkið er þrátt fyrir það duglegt að einangra þá sem eru öðruvísi, hvort sem er innan fjölskyldueiningarinnar eða í samfélaginu öllu. Eyja er mikilvægt skref í inngildingu fleiri hópa inn í leikhúsið, bæði sem þátttakenda í listsköpun og áhorfenda, og þar liggur styrkur sýningarinnar en veikleiki hennar er melódramatískt og á köflum væmið handrit.
Niðurstaða: Melódramatísk en mikilvæg sýning.