Elías Knörr er ein­stakt skáld á ís­lenskan mæli­kvarða. Hann er fæddur og upp­alinn í Galisíu en hefur verið bú­settur á Ís­landi í meira en ára­tug og yrkir aðal­lega á ís­lensku. Það er þó ekki þjóð­ernið sem gerir Elías svo sér­stakt skáld heldur fyrst og fremst næmni hans fyrir ljóð­rænu tungu­málsins og frjó­semi texta hans sem eiga sér engan líka meðal ís­lenskra skálda.

Elías vakti mikla at­hygli fyrir fyrstu ljóða­bók sína á ís­lensku, Sjóarinn með morgun­hestana undir kjólnum, sem kom út 2010 og var ekki bara eitt fyrsta dæmið um ís­lenskar inn­flytj­enda­bók­menntir heldur ein sterkasta hin­segin ljóða­bók nýja ár­þúsundsins en báðar þessar bók­mennta­greinar hafa verið af skornum skammti hér.

Ljóð­rænn veru­leiki

Áður en ég breytist er þriðja ljóða­bók Elíasar á ís­lensku og fylgir eftir ljóða­kverinu Greitt í liljum frá 2016. Ljóð Elíasar sækja ekki í per­sónu­lega reynslu eða innra líf ljóð­mælanda heldur skapa sinn eigin skáld­lega veru­leika úr knöppum setningum og sterkum ljóð­myndum svo minnir á ímagis­mann, eina höfuð­stefnu módern­ismans í ljóða­gerð á 20. öld.

Þetta má sjá strax í fyrstu tveimur ljóð­línum bókarinnar: „Ljós­blá og skýjuð sköp / sváfu á himninum“ (bls. 11). Þessar línur eru bein vísun í kápu­mynd Áður en ég breytist þar sem má sjá hin skýjuðu sköp á fal­lega ljós­bláum bak­grunni.

Þrátt fyrir að þessi skáld­lega af­staða Elíasar sé ekkert nýja­brum á hún sér fáar fyrir­myndir í ís­lenskri nú­tíma­ljóð­list sem undan­farin ár hefur ein­kennst af hinu per­sónu­lega ljóði þar sem skilin á milli ljóð­mælanda og skálds eru grunn eða lítil sem engin. Í ljóðum Elíasar tekur skáldið ekki sjálft til máls heldur skrifar gjarnan í gegnum ýmsa karaktera, lífs eða liðna.

Raddir að handan

Í Áður en ég breytist er hin dular­fulla Ev­genía sögu­maður og er ritunar­saga bókarinnar nokkuð for­vitni­leg eins og kemur fram í ný­legu við­tali mínu við Elías í Frétta­blaðinu:

„(…) bækur mínar eru svo sem hlaðnar af mis­munandi röddum. Það eru margir karakterar eða per­sónur sem koma fram en hér er aðal­lega ein kona. Hún heitir eða kallast Ev­genía sem þýðir „sú vel borna“ á grísku.“

Elías kveðst hafa notað spírit­isma við skrif bókarinnar og segir anda áður­nefndrar Ev­geníu hafa skrifað í gegnum sig. Ekkert af þessu er þó auð­séð við lestur bókarinnar og Ev­genía er hvergi nefnd á nafn fyrir utan stutta skýringu á kóló­fón-síðu. Þá er vel hægt að njóta skáld­skaparins án þess að vera með­vitaður um „kuklið“ sem liggur að baki honum.

Svo sterk eru ljóð Elíasar að þau standa al­gjör­lega fyrir sínu hvort sem maður „skilur“ þau eða ekki. Ljóð­málið er í senn kjarn­yrt og marg­rætt og þarna eru nokkrar línur sem eru með þeim eftir­minni­legustu sem undir­ritaður hefur lesið á ís­lenskri tungu.

Les­endur eru hvattir til að gefa sér góðan tíma í lesturinn og hér sannast það sem á við um sannan skáld­skap, að því meiri tíma sem maður gefur hverju ljóði, því meira fær maður til baka. Að sama skapi væri ef­laust hægt að eyða mörgum stundum í að velta fyrir sér bók­mennta­legum til­vísunum verksins sem ná allt frá Bene­dikt Grön­dal til heims­enda­frá­sagna Biblíunnar. Undir­ritaður er þó ekki nógu vel að sér í bók­mennta- og trúar­bragða­sögu til að reyna slíkt.

Ljóð­málið er í senn kjarn­yrt og marg­rætt og þarna eru nokkrar línur sem eru með þeim eftir­minni­legustu sem undir­ritaður hefur lesið á ís­lenskri tungu.

Tungu­mál og erótík

Áður en ég breytist leikur sér að tungu­málinu eins og sjá má víða í bókinni:

„Höfundurinn hrasaði / ofan í bræðslu­ofninn / meðan tungu­málið brann / til svartra kola“ (bls. 68).

Þá má finna ýmis ný­yrði svo sem nafn­orð sem hefur verið breytt í sagnir „við túr­istumst“ og að „spor­baugast“ auk lýsingar­orða eins og „plómublóma­f­róma frúin“.

Að lokum verður að nefna að bókin er ein besta ný­lega birtingar­myndin á erótískum og hin­segin skáld­skap í ís­lenskri ljóð­list. Elíasi tekst að gera hið hold­lega bæði ó­vænt og skáld­legt sem er síður en svo sjálf­gefið enda eiga erótísk ljóð það oft til að verða klén og bit­laus. Hér hins vegar leiftrar skáld­skapurinn: „brjóst mín / fjar­verandi hvít­plómur / titruðu í munaðar­leysi“ (bls. 87).

Niður­staða: Kraft­mikil og kjarn­yrt ljóða­bók þar sem gaman er að týna sér í marg­ræðni textans.