Elías Knörr er einstakt skáld á íslenskan mælikvarða. Hann er fæddur og uppalinn í Galisíu en hefur verið búsettur á Íslandi í meira en áratug og yrkir aðallega á íslensku. Það er þó ekki þjóðernið sem gerir Elías svo sérstakt skáld heldur fyrst og fremst næmni hans fyrir ljóðrænu tungumálsins og frjósemi texta hans sem eiga sér engan líka meðal íslenskra skálda.
Elías vakti mikla athygli fyrir fyrstu ljóðabók sína á íslensku, Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum, sem kom út 2010 og var ekki bara eitt fyrsta dæmið um íslenskar innflytjendabókmenntir heldur ein sterkasta hinsegin ljóðabók nýja árþúsundsins en báðar þessar bókmenntagreinar hafa verið af skornum skammti hér.
Ljóðrænn veruleiki
Áður en ég breytist er þriðja ljóðabók Elíasar á íslensku og fylgir eftir ljóðakverinu Greitt í liljum frá 2016. Ljóð Elíasar sækja ekki í persónulega reynslu eða innra líf ljóðmælanda heldur skapa sinn eigin skáldlega veruleika úr knöppum setningum og sterkum ljóðmyndum svo minnir á ímagismann, eina höfuðstefnu módernismans í ljóðagerð á 20. öld.
Þetta má sjá strax í fyrstu tveimur ljóðlínum bókarinnar: „Ljósblá og skýjuð sköp / sváfu á himninum“ (bls. 11). Þessar línur eru bein vísun í kápumynd Áður en ég breytist þar sem má sjá hin skýjuðu sköp á fallega ljósbláum bakgrunni.
Þrátt fyrir að þessi skáldlega afstaða Elíasar sé ekkert nýjabrum á hún sér fáar fyrirmyndir í íslenskri nútímaljóðlist sem undanfarin ár hefur einkennst af hinu persónulega ljóði þar sem skilin á milli ljóðmælanda og skálds eru grunn eða lítil sem engin. Í ljóðum Elíasar tekur skáldið ekki sjálft til máls heldur skrifar gjarnan í gegnum ýmsa karaktera, lífs eða liðna.
Raddir að handan
Í Áður en ég breytist er hin dularfulla Evgenía sögumaður og er ritunarsaga bókarinnar nokkuð forvitnileg eins og kemur fram í nýlegu viðtali mínu við Elías í Fréttablaðinu:
„(…) bækur mínar eru svo sem hlaðnar af mismunandi röddum. Það eru margir karakterar eða persónur sem koma fram en hér er aðallega ein kona. Hún heitir eða kallast Evgenía sem þýðir „sú vel borna“ á grísku.“
Elías kveðst hafa notað spíritisma við skrif bókarinnar og segir anda áðurnefndrar Evgeníu hafa skrifað í gegnum sig. Ekkert af þessu er þó auðséð við lestur bókarinnar og Evgenía er hvergi nefnd á nafn fyrir utan stutta skýringu á kólófón-síðu. Þá er vel hægt að njóta skáldskaparins án þess að vera meðvitaður um „kuklið“ sem liggur að baki honum.
Svo sterk eru ljóð Elíasar að þau standa algjörlega fyrir sínu hvort sem maður „skilur“ þau eða ekki. Ljóðmálið er í senn kjarnyrt og margrætt og þarna eru nokkrar línur sem eru með þeim eftirminnilegustu sem undirritaður hefur lesið á íslenskri tungu.
Lesendur eru hvattir til að gefa sér góðan tíma í lesturinn og hér sannast það sem á við um sannan skáldskap, að því meiri tíma sem maður gefur hverju ljóði, því meira fær maður til baka. Að sama skapi væri eflaust hægt að eyða mörgum stundum í að velta fyrir sér bókmenntalegum tilvísunum verksins sem ná allt frá Benedikt Gröndal til heimsendafrásagna Biblíunnar. Undirritaður er þó ekki nógu vel að sér í bókmennta- og trúarbragðasögu til að reyna slíkt.
Ljóðmálið er í senn kjarnyrt og margrætt og þarna eru nokkrar línur sem eru með þeim eftirminnilegustu sem undirritaður hefur lesið á íslenskri tungu.
Tungumál og erótík
Áður en ég breytist leikur sér að tungumálinu eins og sjá má víða í bókinni:
„Höfundurinn hrasaði / ofan í bræðsluofninn / meðan tungumálið brann / til svartra kola“ (bls. 68).
Þá má finna ýmis nýyrði svo sem nafnorð sem hefur verið breytt í sagnir „við túristumst“ og að „sporbaugast“ auk lýsingarorða eins og „plómublómafróma frúin“.
Að lokum verður að nefna að bókin er ein besta nýlega birtingarmyndin á erótískum og hinsegin skáldskap í íslenskri ljóðlist. Elíasi tekst að gera hið holdlega bæði óvænt og skáldlegt sem er síður en svo sjálfgefið enda eiga erótísk ljóð það oft til að verða klén og bitlaus. Hér hins vegar leiftrar skáldskapurinn: „brjóst mín / fjarverandi hvítplómur / titruðu í munaðarleysi“ (bls. 87).
Niðurstaða: Kraftmikil og kjarnyrt ljóðabók þar sem gaman er að týna sér í margræðni textans.