Gjáin á milli þjóðfélagsstétta stækkar með degi hverjum, ofgnótt þeirra sem eiga stækkar og lífsbarátta þeirra sem eiga ekki harðnar. Í forgarði helvítis er síðan flóttafólk í leit að betra lífi en kemur alls staðar að lokuðum dyrum. Hvernig er hægt að koma á jöfnuði í slíku samfélagi? Í Draumaþjófnum er reynt að svara þessum áleitnu spurningum og er hann eitt stærsta viðfangsefni Þjóðleikhússins á þessu leikári. Öllu er tjaldað til og splunkunýr íslenskur söngleikur lítur dagsins ljós á Stóra sviðinu. Þjóðleikhúsið leggur hér allt undir í leit að smelli.
Gunnar Helgason á stóran aðdáendahóp í heimi barnabókmennta og tryggt sæti á metsölulistum. Draumaþjófurinn kom út á bók 2019 og fjallar um rottur sem berjast fyrir betri heimi. Björk Jakobsdóttir skrifar leikgerðina og Hallgrímur Helgason semur söngtextana í samvinnu við parið.

Meingölluð uppbygging
Á yfirborðinu geymir Draumaþjófurinn margt gott. Ævintýraheim þar sem barátta milli góðs og ills snýst um jöfnuð. Aðalpersónan er sterkur kvenkyns karakter. Þar með eru flestir kostirnir upptaldir, í söngleik sem minnir óneitanlega á Cats og áhrif Vesalinganna eru líka áþreifanleg. Handritsgallarnir eru fjölmargir og útfærslur ófullnægjandi. Persónur verksins segja stöðugt frá viðburðum og útskýra í stað þess að höfundar sýni áhorfendum veröldina.
Uppbygging sögunnar er meingölluð, framvindan silast áfram og persóna sem kynnt er til sögunnar sem aðalpersóna hverfur fljótlega á braut. Aðalsagan er fremur veik og hliðarsögurnar sömuleiðis. Bátarottunum eru aldrei gerð góð skil og áhorfendur kynnast þeim lítið. Sumir áherslupunktar eru útskýrðir út í hið óendanlega en aðrir alls ekki. Af hverju ákveður Eyrdís að leita að matarfjallinu? Af hverju sækist Ljúfur eftir völdum? Hvað gera bardagarotturnar?
Söngtextarnir eru frekar til að útskýra söguþráðinn en að þróa persónurnar: „Við stöndum saman alla leið. Þá verður rottugatan greið! Við erum algjörir Hafnarlands-himna-rottu-vinir. Erum besta teymi í heimi.“ Þessi tækni er gegnumgangandi allan tímann, að útskýra heiminn og söguþráðinn. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson semur tónlistina og stjórnar en tekst ekki að skapa heildstæðan hljómheim. Fyrir utan einstaka lag eins og „Ekki gráta“ eru fá eftirminnileg. Grunnstefið vantar, lögin tengjast þannig ekki heldur eru samansafn af ólíkum hugmyndum.
Uppbygging sögunnar er meingölluð, framvindan silast áfram og persóna sem kynnt er til sögunnar sem aðalpersóna hverfur fljótlega á braut.
Blær heillar salinn
Leikarahópurinn gerir sitt besta með takmarkað efni. Nærvera Þuríðar Blævar heillar heilan sal og er frábært val fyrir söngleik af þessu tagi. Gleðin og lífskrafturinn geislar af henni í hlutverki Eyrnastórrar Aðalbarns Gullfallegrar Rottudísar, nafnið er dæmi um brandara sem er aldrei fyndinn. Kjartan Darri er svikinn af sínu hlutverki og fær miklu minna að gera en söngleikurinn lofar. Hann er þó algjörlega á réttri hillu, orkumikill með fína söngrödd. Örn á skilið orðu fyrir þjónustu sína í þágu barnaleikhúss. Hann gefur svo gríðarlega mikið af sér í hlutverki Hjassa Draumasmiðs, Old Deuteronomy að frönskum hefðarstíl. Þegar hann stígur á svið birtir til, íburðarmikill í anda Count de Monet og Mel Brooks. Þröstur Leó er honum til halds og trausts, til í tuskið og sjarmerandi.
Hafnarlandi stjórnar Skögultönn foringi með harðri hendi, leikin af Steinunni Ólínu. Frammistaða hennar hverfur undir gervinu en kemur með skemmtilega en iðandi orku inn í sýninguna. Atli Rafn leikur Ljúf af miklum móð. Ljúfur þjáist af dansröskun, annað dæmi um hugmynd sem er sett fram en ekki vel framkvæmd. Gaman er að sjá unga og upprennandi leikara fjölmenna á sviðið í fjölbreyttum hlutverkum. Þórey í hlutverki Pílu er hressandi og lífleg. Viktoría grípur augnablikið og skilar sínum söng af mikilli fagmennsku. Oddur Júlíusson er á heimavelli. Börnin standa sig með prýði og gefa sýningunni glaðværan lit. Spyrja má hvort ofaukið sé í leikarahópnum. Reyndir leikarar á borð við Pálma, Guðrúnu og Eddu týnast í fjöldanum.

Styrk leikstjórn
Stefán leiðir hópinn og með styrkri leikstjórn gerir hann hvað hann getur við efniviðinn. Senurnar flæða vel og samvinna hópsins er góð. Danshöfundurinn Lee Proud hefur séð betri daga. Dansarnir renna hver inn í annan, „Jó halló“ er undantekningin þrátt fyrir undarleg efnistök. Ilmur Stefánsdóttir skapar leikmyndina og tekst ágætlega til. Hún leikur sér að hlutföllum, allt er í rottustærð, og áferðum til að draga fram smáatriði til að skapa sviðsmyndirnar. María Th. Ólafsdóttir sér um búningana sem er frekar ruglingslegur gjörningur, í takt við söguna.
Allt of margir ofhlaðnir heimar skarast og fáum eru gerð góð skil. Af hverju eru ítölsku veitingastaðarrotturnar í flamengóbúningum? Grímurnar sem leikararnir bera á höfði eiga að undirstrika rottugervin en eru ekki nægilega sýnilegar.

Þrátt fyrir töfrandi augnablik er Draumaþjófurinn kannski best geymdur á hafsbotni.
Gleðin dvínar snögglega
Senuþjófarnir eru stórkostlegar brúður Charlie Tymms, leikhúsdraumar í raunheimi. Magnað er að berja tannhvassa selinn, svarta köttinn og fálkann fljúgandi augum. Hver þeirra er eins og ljóð á hreyfingu, litríkir leikhústöfrar í öllum sínum krafti.
Nýr íslenskur söngleikur er fagnaðarefni, en gleðin dvínar snögglega þegar á hólminn er komið. Metnaðurinn sem stjórnendur Þjóðleikhússins hafa sett í Draumaþjófinn er sömuleiðis virðingarverður. Aftur á móti er veðjað á kolrangan söngleik í annað sinn á leikárinu og uppskeran er eftir því. Skilaboðin eru falleg, leikhópurinn gerir sitt allra besta og brúðurnar eru listaverk, en afspyrnu dapurt handrit verður söngleiknum að falli.
Niðurstaða: Þrátt fyrir töfrandi augnablik er Draumaþjófurinn kannski best geymdur á hafsbotni.