Gjáin á milli þjóð­fé­lags­stétta stækkar með degi hverjum, of­gnótt þeirra sem eiga stækkar og lífs­bar­átta þeirra sem eiga ekki harðnar. Í for­garði hel­vítis er síðan flótta­fólk í leit að betra lífi en kemur alls staðar að lokuðum dyrum. Hvernig er hægt að koma á jöfnuði í slíku sam­fé­lagi? Í Drauma­þjófnum er reynt að svara þessum á­leitnu spurningum og er hann eitt stærsta við­fangs­efni Þjóð­leik­hússins á þessu leik­ári. Öllu er tjaldað til og splunku­nýr ís­lenskur söng­leikur lítur dagsins ljós á Stóra sviðinu. Þjóð­leik­húsið leggur hér allt undir í leit að smelli.

Gunnar Helga­son á stóran að­dá­enda­hóp í heimi barna­bók­mennta og tryggt sæti á met­sölu­listum. Drauma­þjófurinn kom út á bók 2019 og fjallar um rottur sem berjast fyrir betri heimi. Björk Jakobs­dóttir skrifar leik­gerðina og Hall­grímur Helga­son semur söng­textana í sam­vinnu við parið.

Gleðin og lífskrafturinn geislar af Þuríði Blævi í hlutverki Eyrnastórrar Aðalbarns Gullfallegrar Rottudísar.
Mynd/Jorri

Mein­gölluð upp­bygging

Á yfir­borðinu geymir Drauma­þjófurinn margt gott. Ævin­týra­heim þar sem bar­átta milli góðs og ills snýst um jöfnuð. Aðal­per­sónan er sterkur kven­kyns karakter. Þar með eru flestir kostirnir upp­taldir, í söng­leik sem minnir ó­neitan­lega á Cats og á­hrif Vesa­linganna eru líka á­þreifan­leg. Hand­rits­gallarnir eru fjöl­margir og út­færslur ó­full­nægjandi. Per­sónur verksins segja stöðugt frá við­burðum og út­skýra í stað þess að höfundar sýni á­horf­endum ver­öldina.

Upp­bygging sögunnar er mein­gölluð, fram­vindan silast á­fram og per­sóna sem kynnt er til sögunnar sem aðal­per­sóna hverfur fljót­lega á braut. Aðal­sagan er fremur veik og hliðar­sögurnar sömu­leiðis. Báta­rottunum eru aldrei gerð góð skil og á­horf­endur kynnast þeim lítið. Sumir á­herslu­punktar eru út­skýrðir út í hið ó­endan­lega en aðrir alls ekki. Af hverju á­kveður Eyrdís að leita að matar­fjallinu? Af hverju sækist Ljúfur eftir völdum? Hvað gera bar­daga­rotturnar?

Söng­textarnir eru frekar til að út­skýra sögu­þráðinn en að þróa per­sónurnar: „Við stöndum saman alla leið. Þá verður rottugatan greið! Við erum al­gjörir Hafnar­lands-himna-rottu-vinir. Erum besta teymi í heimi.“ Þessi tækni er gegnum­gangandi allan tímann, að út­skýra heiminn og sögu­þráðinn. Þor­valdur Bjarni Þor­valds­son semur tón­listina og stjórnar en tekst ekki að skapa heild­stæðan hljóm­heim. Fyrir utan ein­staka lag eins og „Ekki gráta“ eru fá eftir­minni­leg. Grunn­stefið vantar, lögin tengjast þannig ekki heldur eru saman­safn af ó­líkum hug­myndum.

Upp­bygging sögunnar er mein­gölluð, fram­vindan silast á­fram og per­sóna sem kynnt er til sögunnar sem aðal­per­sóna hverfur fljót­lega á braut.

Blær heillar salinn

Leikara­hópurinn gerir sitt besta með tak­markað efni. Nær­vera Þuríðar Blævar heillar heilan sal og er frá­bært val fyrir söng­leik af þessu tagi. Gleðin og lífs­krafturinn geislar af henni í hlut­verki Eyrna­stórrar Aðal­barns Gull­fal­legrar Rottu­dísar, nafnið er dæmi um brandara sem er aldrei fyndinn. Kjartan Darri er svikinn af sínu hlut­verki og fær miklu minna að gera en söng­leikurinn lofar. Hann er þó al­gjör­lega á réttri hillu, orku­mikill með fína söng­rödd. Örn á skilið orðu fyrir þjónustu sína í þágu barna­leik­húss. Hann gefur svo gríðar­lega mikið af sér í hlut­verki Hjassa Drauma­smiðs, Old Deu­terono­my að frönskum hefðar­stíl. Þegar hann stígur á svið birtir til, í­burðar­mikill í anda Count de Monet og Mel Brooks. Þröstur Leó er honum til halds og trausts, til í tuskið og sjarmerandi.

Hafnar­landi stjórnar Skögul­tönn foringi með harðri hendi, leikin af Steinunni Ó­línu. Frammi­staða hennar hverfur undir gervinu en kemur með skemmti­lega en iðandi orku inn í sýninguna. Atli Rafn leikur Ljúf af miklum móð. Ljúfur þjáist af dans­röskun, annað dæmi um hug­mynd sem er sett fram en ekki vel fram­kvæmd. Gaman er að sjá unga og upp­rennandi leikara fjöl­menna á sviðið í fjöl­breyttum hlut­verkum. Þór­ey í hlut­verki Pílu er hressandi og líf­leg. Viktoría grípur augna­blikið og skilar sínum söng af mikilli fag­mennsku. Oddur Júlíus­son er á heima­velli. Börnin standa sig með prýði og gefa sýningunni glað­væran lit. Spyrja má hvort of­aukið sé í leikara­hópnum. Reyndir leikarar á borð við Pálma, Guð­rúnu og Eddu týnast í fjöldanum.

Draumaþjófurinn er splunku­nýr ís­lenskur söng­leikur þar sem öllu er tjaldað til á stóra sviði Þjóðleikhússins.
Mynd/Jorri

Styrk leik­stjórn

Stefán leiðir hópinn og með styrkri leik­stjórn gerir hann hvað hann getur við efni­viðinn. Senurnar flæða vel og sam­vinna hópsins er góð. Dans­höfundurinn Lee Proud hefur séð betri daga. Dansarnir renna hver inn í annan, „Jó halló“ er undan­tekningin þrátt fyrir undar­leg efnis­tök. Ilmur Stefáns­dóttir skapar leik­myndina og tekst á­gæt­lega til. Hún leikur sér að hlut­föllum, allt er í rottu­stærð, og á­ferðum til að draga fram smá­at­riði til að skapa sviðs­myndirnar. María Th. Ólafs­dóttir sér um búningana sem er frekar ruglings­legur gjörningur, í takt við söguna.

Allt of margir of­hlaðnir heimar skarast og fáum eru gerð góð skil. Af hverju eru ítölsku veitinga­staðar­rotturnar í flamengó­búningum? Grímurnar sem leikararnir bera á höfði eiga að undir­strika rottu­gervin en eru ekki nægi­lega sýni­legar.

Senu­þjófar Draumaþjófsins eru stór­kost­legar brúður Charli­e Tymms.
Mynd/Jorri

Þrátt fyrir töfrandi augna­blik er Drauma­þjófurinn kannski best geymdur á hafs­botni.

Gleðin dvínar snögg­lega

Senu­þjófarnir eru stór­kost­legar brúður Charli­e Tymms, leik­hús­draumar í raun­heimi. Magnað er að berja tann­hvassa selinn, svarta köttinn og fálkann fljúgandi augum. Hver þeirra er eins og ljóð á hreyfingu, lit­ríkir leik­hús­töfrar í öllum sínum krafti.

Nýr ís­lenskur söng­leikur er fagnaðar­efni, en gleðin dvínar snögg­lega þegar á hólminn er komið. Metnaðurinn sem stjórn­endur Þjóð­leik­hússins hafa sett í Drauma­þjófinn er sömu­leiðis virðingar­verður. Aftur á móti er veðjað á kol­rangan söng­leik í annað sinn á leik­árinu og upp­skeran er eftir því. Skila­boðin eru fal­leg, leik­hópurinn gerir sitt allra besta og brúðurnar eru lista­verk, en af­spyrnu dapurt hand­rit verður söng­leiknum að falli.

Niður­staða: Þrátt fyrir töfrandi augna­blik er Drauma­þjófurinn kannski best geymdur á hafs­botni.