Breski ferðabloggarinn Dan Swygart hefur verið gagnrýndur fyrir samband sitt við bandarísku raunveruleikastjörnuna Shauna Rae. Swygart er 26 ára gamall og Rae er 23 ára, en hún glímir við fötlun og er því sögð líta út fyrir að vera yngri en hún er í raun og veru.

Rae fékk heilakrabbamein þegar hún var barn og hafði meðferðin áhrif á vöxt hennar. Fjallað hefur verið um líf hennar í raunveruleikaþáttunum I Am Shauna Rae.

Swygart greindi frá sambandi þeirra á Instagram og svaraði jafnframt fyrir gagnrýni sem hann hafði hlotið vegna þess. Hann benti á að vegna fötlunar sinnar hefði Rae átt erfitt með að fara á stefnumót. Áður heftur hún fullyrt að vegna stærðar sinnar sé hún lítils virt og útilokuð í stefnumótaheiminum.

Hann segist hafa sent henni blóm og skilaboð eftir að hafa horft á fyrstu seríu þáttarins. Í kjölfarið hafi þau hist og farið á stefnumót.

„Það er mjög mikilvægt að muna að Shauna er ótrúleg 23 ára gömul kona sem glímir við fötlun,“ segir Swygart. „Þegar maður er að mynda tengsl við hana er mikilvægt að átta sig á fötluninni, líta fram hjá henni og átta sig á því hvers konar manneskja hún er.“

Hann heldur áfram: „Um leið og þú fullyrðir að hún geti ekki myndað raunverulega tengingu við aðra ertu að gera lítið úr henni sem manneskju. Hún er manneskja. Hún á rétt á því að vera í samböndum og mynda tengsl við hvern sem hún vill.“

The Mirror greinir frá því að fjöldi fólks hafi gagnrýnt hann vegna sambandsins. Hann hafi verið kallaður „veikur og ógeðslegur“.

„Þegar þú lítur á mig sérðu átta ára gamla stelpu,“ sagði Rae í viðtali við New York Post í fyrra. „En ef þú gefur þér tíma og horfir á smáatriðin í andlitinu mínu, í höndunum á mér, sérðu að ég er fullorðin. Og ef þú gefur þér tíma til að tala við mig, þá áttarðu þig á því að ég er 23 ára gömul.“