Steinunn Sigurðar­dóttir prýðir for­síðu vor/sumar­blaðs Glamour sem kemur út í dag mið­viku­dag. Þar ræðir Steinunn meðal annars hvernig það var að við­halda starfs­ferlinum eftir að sonurinn, Alexander, fjöl­fatlaður, kom í heiminn.

Steinunn er klár­lega okkar fremsti fata­hönnuður og einn fremsti braut­ryðjandi í greininni hér á landi. Eftir að hafa starfað fyrir ekki minni hönnuði en Ralph Lauren, Cal­vin Klein og Gucci fór Steinunn að hanna undir eigin merki fyrir 19 árum.

Hún segir son sinn, hinn fjöl­fatlaða 24 ára gamla Alexander, sinn stærsta kennara og leið­beinanda í lífinu en gagn­rýnin sem hún fékk frá kyn­systrum sínum þegar hún á­kvað að halda starfs­ferli sínum gangandi á hans yngri árum hefur á­vallt valdið henni heila­brotum.

Sjö­tíu prósent hjóna­banda flosna upp

Steinunn segir þau hjónin að­eins hafa verið for­eldra í þrjá daga þegar læknir hafi sagt þeim að mikill meiri­hluti eða í kringum sjö­tíu prósent hjóna­banda flosnaði upp við það að eignast fatlað barn, þetta var vega­nestið sem þau lögðu upp með frá upp­hafi. Þau hjónin á­kváðu því að þau ætluðu líka að lifa eigin lífi, og sonurinn yrði stór partur af því.

,,Ég fékk þá vinnu á Ítalíu og ferðaðist fram og til baka aðra hvora viku í átta ár sem var ekki al­gengt að fólk gerði á þeim tíma.“ Steinunn hafði fengið hönnunar­stöðu og fór fyrir hönnunar­deild í fyrir­tæki sem ekki margir á þeim tíma litu til sem há­tísku­fyrir­tækis.

Mynd/Baldur Kristjáns

Gagn­rýnd fyrir að fara frá litlu veiku barni

„Við eignuðumst okkar eigið líf og það varð skemmti­leg jafna úr því. Ég fékk að lifa mínu lífi með minni hönnun og gera það sem mér finnst skemmti­legast og Páll fékk að gera það sem honum finnst skemmti­legt með sinni hönnun og saman gáfum við syni okkar þá hamingju.“ Steinunn ferðaðist á milli Reykja­víkur, Flórens og Mílanó til að sækja starf sitt hjá Gucci sem þá var rétt að byrja.

Að­spurð segist Steinunn vissu­lega hafa fengið blendin við­brögð frá um­hverfinu við því að hún færi frá feðgunum aðra hvora viku. „Ég var ekki að­eins að fara frá litlu barni, heldur var ég að fara frá litlu veiku barni,“ út­skýrir hún.

„En þetta var besta gjöfin sem ég gat gefið þeim feðgum sem fengu að þróa sitt sam­band án þess að ég kæmi þar að. Konur eru þó sér­lega dóm­harðar, á þessum tíma var ég græn­metis­æta og æfði jóga fimm sinnum í viku. Ég var í besta formi lífs míns, það var túlkað sem ég væri með anorexíu,“ rifjar Steinunn upp í ein­lægu við­tali við Glamour um ferilinn, fjöl­skylduna og margt fleira.

Mynd/Baldur Kristjáns