„Þetta er klikkaður árangur. Við gætum ekki verið á­nægðari með þetta. Alveg „kreisí,“ segir Hulda Kristín Kol­brúnar­dóttir, Gagna­magns-með­limur, um árangurinn í Euro­vision í gær, en eins og al­þjóð veit þá hafnaði Ís­land í fjórða sæti í keppninni í ár.

Hulda Kristín, og hinir í sveitinni, þurftu að horfa á keppnina og stiga­gjöfina upp á hótel­her­bergi. Hún viður­kennir að það hafi verið ansi tauga­trekkjandi að fylgjast með stiga­gjöfinni en þegar best gekk þá var Ís­land í fyrsta sæti.

„Við trúðum þessu ekki. Þetta fór svo upp og niður þegar dómara­stigin voru gefin,“ segir Hulda Kristín.

Spurð um keppnina í ár og sigur­vegarann segir Hulda Kristín að keppnin hafi verið ein­stak­lega góð og að hún sé hrifin af ítalska sigur­laginu. Þau náðu því miður ekkert að hitta ítalska hópinn vegna sótt­kvíarinnar.

„Þetta er 90‘s rokk og ég fíla það mjög vel,“ segir Hulda Kristín.

Hulda segir að hún ætli að byrja á því að hvíla sig vel.
Mynd/Gísli Berg

Byrja á því að hvíla sig

Hulda Kristín er á­samt ís­lenska teyminu á Schip­hol-flug­velli á leið heim en á­ætluð heim­koma er um klukkan 15 í dag. Jóhann Sigurður er þó ekki með í för því hann greindist með CO­ViD-19 og er enn að bíða eftir að komast í annað test.

„Vonandi kemur hann heim sem fyrst,“ segir Hulda Kristín.

Spurð um fram­haldið segir Hulda Kristín að hljóm­sveitin ætli að byrja á því að hvíla sig, en þau séu opin fyrir öllu.

„Við ætlum að taka okkur mjög góðan lúr og slaka á og svo hittumst við og metum það. Það er planið eins og það er núna,“ segir Hulda Kristín.

Þannig það er enginn við­burður á döfinni til að fagna þessum árangri?

„Nei, en ef ein­hver vill bjóða okkur þá erum við alltaf til,“ segir Hulda Kristín að lokum