Yrja Kristinsdóttir og Marit Davíðsdóttir leggja fram Gleðiskrudduna sína en í henni vinna þær með það sem þær kjósa að kalla gleðiverkfæri og er ætlað að efla sjálfsþekkingu og vellíðan barna og ungmenna á grundvelli jákvæðrar sálfræði.

Gleðiskrudduverkefnið byggir á sameiginlegu lokaverkefni þeirra í jákvæðri sálfræði við Háskóla Íslands. Þær segja stoltar frá því að Gleðiskruddan hafi í upphafi verið þunnt hefti sem endaði bæði sem bók og námskeið sem miðar að því að gera áskoranir lífsins yfirstíganlegri.

Góð verkfærakista

„Ég var áður nemendaráðgjafi og fann hversu mikill kvíði var innra með krökkunum og hversu erfitt þau áttu með að finna sig og áhugasvið sín. Það vantaði ákveðin bjargráð við þessum vanda,“ útskýrir Yrja og Marit grípur boltann og bendir á að þær hafi tengt þetta við sín eigin æskuár.

„Það vantaði snemmtæka íhlutun í forvarnarskyni. Grípa börnin áður en þau falla.“

Þær segja bókina byggja á 21 þema úr jákvæðri sálfræði og mynda grunn námskeiðsins. „Við erum að bera á borð það sem hefur verið rannsakað innan þessa geira og þau verkfæri sem við þekkjum. Hvert og eitt barn á að geta valið sér verkfæri.“

Aukin áhersla færðist á jákvæða sálfræði upp úr aldamótum og þær benda á að áður hafi alltaf verið einblínt á sjúkdómshliðina frekar en að rannsaka það þegar fólki farnast vel.

„Það er enginn að neyða okkur til að vera hamingjusöm,“ útskýrir Yrja. „Margar tilfinningar geta verið í gangi og þær eiga rétt á sér. Það þarf að kenna börnunum að setja nafn á þessar tilfinninga. Svona líður mér akkúrat núna og mér má líða svona.

Í stað þess að leggja áherslu á það sem er neikvætt erum við að leggja áherslu á það sem við viljum sjá meira af,“ heldur Yrja áfram. „Það er svo ótrúlega mikilvægt að efla vellíðan og sjálfstyrkingu.“

Ótrúlega góð viðbrögð

Námskeiðin, sem miðast við sjö til tólf ára krakka, hafa vakið mikla lukku hjá bæði börnum og foreldrum en bókin er skrifuð með sex til fimmtán ára börn í huga og jafnvel yngri.

„Það er dásamlegt að sjá börn ná árangri. Sum þeirra hafa mætt og verið alveg inni í sér en eru farin að rétta upp hönd og segja frá í lok námskeiðs. Það gefur manni ótrúlega mikið að sjá þau blómstra á þennan hátt.“

Yrja segir viðbrögðin við verkefninu hafið farið fram úr þeirra björtustu vonum. „Við höfum verið beðnar um að halda foreldranámskeið, sem við erum búnar að setja á dagskrá, þar sem foreldrarnir vilja geta tekið meiri þátt og skilja það sem börnin hafa verið að læra. Þetta hefur ýtt undir meiri samverustundir heima og okkur hlýnar svo í hjartanu við það.“

Þakklætisæfingar

Þegar þær eru spurðar hvað þær séu að gera með börnunum á námskeiðinu segja þær markmiðasetningu og þakklætisþrennuna vera meðal þess sem stendur upp úr.„Við eigum báðar yngri börn sem við höfum gert þakklætisæfingar með.

Þær snúast um að nefna þrjá hluti sem þau eru þakklát fyrir í dag og í lífinu, það ýtir undir jákvæðar tilfinningar,“ segja þær brosandi. „Oft er líka talað um að börn séu svo dugleg og maður spyr sig af hverju? Þau þurfa þetta innihaldsríka hrós. Þá blómstra þau og trúa á sjálf sig. Það er svo geggjað.“

Yrja og Marit hafa staðið straum af öllum kostnaði við bókina og námskeiðin sjálfar en Gleðiskrudduna og frekari upplýsingar um námskeiðin má nálgast á vefsíðunni glediskruddan.is.