Ég var síðhærður unglingur og allt til þrítugs að ég fór yfir í venjulega hártísku. Ætli ég hafi ekki látið lokkana fjúka vegna þess að ég var ekki kominn á „I don’t give a fuck“-aldurinn þá og hlustaði um of á aðra í kringum mig, en fyrir átta árum fór ég að safna aftur,“ segir Logi Már Einarsson, húsasmiður og bassaleikari í rokktríóinu Nýríka Nonna.

„Ég lærði húsasmíði því það lá beinast við; það eru svo margir smiðir í ættinni. Starfið á vel við mig en eftir á að hyggja hefði ég heldur viljað fara í vélstjóranám og vinna til sjós. Pabbi var vélstjóri og ég er alveg klár á að ef ég hefði haft hann lengur hjá mér hefði ég lært til vélstjóra, en þegar ég var fimm ára tók pabba út fyrir borð þar sem hann var við störf á farskipi. Það hvarflaði svo aldrei að mér að söðla yfir í vélstjórn þegar ég var í húsasmíðanáminu því eftir að pabbi drukknaði gaf ég mömmu loforð um að fara aldrei á sjó og stóð við það. Eldri sonur minn er hins vegar útlærður vélstjóri. Ég er mjög sáttur við það þótt ég hugsi auðvitað alltaf til hans en hann er góður í sínu starfi og hefur greinilega fengið vélstjóragenin frá afa sínum.“

Rokkarar sérþjóðflokkur

Logi er Sunnlendingur í báðar ættir. Foreldrar hans ólust upp í Flóanum og undir Eyjafjöllunum en saman fluttu þau á mölina þar sem Logi ólst upp í höfuðstaðnum.

„Ég varð strax heillaður af tónlist sem barn og fyrirmyndirnar voru Bítlarnir, Rolling Stones, Kinks, Doors og fleiri sem voru að kikka inn þegar ég var strákur. Ég var settur í píanónám en með litlum árangri. Ég vildi miklu frekar læra á gítar en það þótti endemis bítlagarg og kom ekki til greina. Þegar ég komst á partíárin tók ég svo upp gítarinn og lærði á hann sjálfur, en svo tók lífið við, með börnum og buru, og tónlistin drukknaði í lífsins önn, þar til fór að hægjast um og ég tók upp þráðinn aftur, fyrir um fimm árum síðan.“

Það var þá sem leiðir Loga og Guðlaugs Hjaltasonar lágu fyrst saman og tríóið Nýríki Nonni varð til.

„Við Gulli lentum þá óvænt saman í vinnustaðabandi fyrir árshátíð Strætó, þótt ég væri ekki á meðal starfsmanna þar. Ég var bara „sjanghæjaður“ með bassann í bandið og kom í ljós að við Gulli áttum mýmargt sameiginlegt og okkur varð vel til vina. Það var gaman að eignast vin með sömu áhugamál og geta skapað tónlist saman. Gulli átti talsvert af efni sem hann hafði samið í gegnum tíðina og langaði að koma á framfæri og úr varð að við fengum trommara með okkur í tríóið, en nú spilar með okkur Örvar Erling Árnason sem tók við trommukjuðunum af Óskari Þorvaldssyni,“ segir Logi sem spilar á bassa í Nýríka Nonna sem þykir með eindæmum þétt og gott tríó, á við margra manna hljómsveit þegar best lætur.

„Það er ákveðin áskorun að spila í tríói. Maður þarf að spila bæði hratt og mikið á sitt hljóðfæri til að útkoman verði þétt, en mér finnst það gaman og í raun ekkert mál. Það er bara talið í og byrjað.“

Einar er mikill bíla- og mótorhjólamaður og hefur í áranna rás starfað mikið með ferðaklúbbnum 4x4. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Fór í rokkið frekar en golf

Logi var rótari hjá hljómsveitinni Pónik og Einari á unglingsárunum.

„Það var ævintýri. Pónik var gríðarvinsælt band með flottum spilurum og skemmtilegum einstaklingum sem voru afar flinkir á hljóðfærin sín. Ég fór með sem rótari þegar þeir spiluðu fyrir Kanann á Keflavíkurflugvelli og ekki sjálfgefið að sextán ára gutti kæmist inn á Völlinn þá og inn á dansstaði Bandaríkjahers, en þar fékk ég dýrmæta innsýn í hvernig hljómsveitir starfa,“ segir Logi.

Hann á fimm börn og fimm barnabörn sem hann segir hafa gaman af hljómsveitabrölti hans.

„Þau sjá hvað ég nýt þess að spila. Með Nýríka Nonna hefur ákveðinn draumur ræst. Menn á mínum aldri eru flestir komnir í golf, hunda og hesta, og eyða í það fúlgum fjár, en ég fór í rokkið og eyði mínum peningum þar,“ segir Logi og hlær.

Hann segist kominn á þann aldur að sökkva ekki djúpt í alræmdan lífsstíl rokks og róls.

„Þetta er nú fyrst og fremst hobbí en engu að síður skemmtilegur lífsstíll. Rokkarar eru ákveðinn þjóðflokkur og rosalega heilsteypt lið upp til hópa þótt sumir sökkvi á bólakaf í „sex, drugs and rock n’ roll“. Menn eru trúir sínu, ná góðum tengslum við þá sem þeir vinna með og verða oftar en ekki vinir til lífstíðar.“

Nýríki Nonni sé bara rétt að byrja.

„Þetta er ungt band og á mikið eftir. Tónlist er auk þess hafin yfir allan aldur. Þannig spila ég líka á bassa í Kiss-bandinu Licks með mun yngri strákum og þeir líta á mig sem jafningja. Músík brúar aldursbilið og auðvitað mörg dæmi um að fjörgamlir karlar spili með kornungu fólki þar sem þeir miðla mörgu og unga fólkið kemur með nýja hluti. Ég er reyndar ekki sá reynslubolti sjálfur en ég get sannarlega miðlað gleðinni.

Ég fæ mikið út úr þessu, ekki síst hamingju og reyni nú að grúska í að semja fleiri lög og fikra mig áfram í textagerðinni.“

Eldri og skynsamari nú

Logi er líka djúpt sokkinn í bíla og mótorhjól.

„Allt sem tengist vélum togar í mig; ætli það sé ekki vélstjórinn í mér. Ég keppti ungur í rallý-akstri, sem er skemmtileg leið til að setja sig á hausinn, og var mikið á mótorhjóli þar sem ég lét allt vaða, ungur og kærulaus. Sem betur fer tók ég mér þrjátíu ára hlé á mótorhjólamennskunni og hefði sennilega drepið mig á því annars, en byrjaði aftur fyrir fjórum árum síðan, orðinn aðeins eldri og skynsamari,“ segir Logi sem hjólar á Hondu Magna 700, árgerð 1985.

„Það er gamalt, gott og skemmtilegt hjól til að krúsa á en mótorhjól snúast mikið um frelsið sem fylgir því að hjóla út í bláinn, einn síns liðs eða í félagi við aðra. Því fylgir einstök frelsistilfinning.“

Á veturna fer Logi í fjallaferðir á upphækkuðum jeppa með ferðaklúbbnum 4x4, þar sem hann var í stjórn og nefndum um árabil.

„Ég hef mikla ánægju af fjallaferðum sem geta verið krefjandi. Stundum gengur allt upp en það eru ferðirnar sem maður man síst eftir. Maður man miklu frekar eftir brasinu sem fjallaferðunum fylgir og hvernig á að leysa úr hlutunum og þá reynir á grunneðlið í mönnum, hvort þeir kunni að bjarga sér. Sumir klára sig með allt á meðan aðrir klóra sér í hausnum og ekkert gerist.

Í uppáhaldi er að fara í Setrið, fjallaskála 4x4, sem stendur í reginauðn undir Hofsjökli. Þangað er stundum farið í hópferð á veturna, gist í stórum skálanum og haft glens og gaman.“

Ekki Logi í Samfylkingunni

Nýríki Nonni gaf út sína fyrstu plötu, För, haustið 2019 og á dögunum kom út platan Hver vinnur stríðið? Á henni heyrist fyrsta lag Loga sem hann samdi við texta Guðlaugs Hjaltasonar.

„Ég er mjög sáttur við lagið og syng það sjálfur. Nýja platan er ólík þeirri fyrri, hrárri og minna unnin og á henni erum við meira eins og við erum, með svolítið gamaldags rokk,“ útskýrir Logi en platan var unnin með Jóhanni Ásmundssyni í Stúdíó Paradís.

„Gulli er mikill íslenskupervert í sinni vönduðu textagerð og hrifinn af bragfræði. Textinn myndgerist í manni sem fer í stríð, lendir framan við óvininn og deyr, en til hvers dó hann? Hver er ávinningurinn af dauða hans? Hann er enginn. Það vinnur enginn stríð. Textarnir eru innihaldsríkir og auðvelt að samsama sig þeim, eins og í Lífið er leikhús sem er pæling um ferli mannsins í lífinu. „Lífið er leikhús, leikarar við. Í sorg og í gleði við göngum á svið.““

Logi á sér alnafna; það er Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og er þeim iðulega ruglað saman.

„Já, já, ég fæ reglulega tölvupósta, símtöl og sms með erindum sem ég kannast ekkert við en það truflar mig ekkert. Ég er þó ekki Samfylkingarmaður, það væri að bera í bakkafullan lækinn ef við værum tveir þar inni. Ætli ég sé ekki pólitískt viðrini og ég er alls ekki fjórflokksmaður, en við Logi höfum spjallað og hlegið að þessum misskilningi og ég komið erindum áleiðis í réttar hendur.“

Hrífstu með og hlustaði á báðar plötur Nýríka Nonna á Spotify.