Einn af þátt­tak­endum bresku raun­veru­leika­þáttanna Love Is­land hefur á­kveðið að skila launum sem hún fékk fyrir þátt­töku í þáttunum til breska heil­brigðis­kerfisins NHS en Pri­ya Gopaldas, sem var í þáttunum í viku áður en hún datt út, greindi frá málinu á Insta­gram síðu sinni.

„Love Is­land tékkinn nýttur vel,“ skrifaði Gopaldas til fylgj­enda sinna á Insta­gram en hún fékk í heildina 750 pund fyrir þættina, sem sam­svarar ríf­lega 130 þúsund ís­lenskra króna. Hún sýndi síðan skjá­skot þar sem hún gaf peningana til NHS Charities Toget­her.

Hin 23 ára Gopaldas er sjálf lækna­nemi á fimmta ári en hún stefnir á að verða bæklunar­læknir. Á Insta­gram síðu hennar má finna þó nokkrar myndir af henni að störfum en hún hefur meðal annars starfað sem sjálf­boða­liði á Co­vid deildum í Bret­landi.