„Ég er bara flott, hress og kát. Þetta kaffi sem ég fékk í morgun á Bylgjunni það gerði bara mjög gott fyrir daginn. Þetta var fáránlega öflugt kaffi og yndislegir alltaf þeir Heimir og Gulli.“

Inga á eftir að komast að því hvaða kaffi þeir félagar buðu henni. „Því þetta verður það kaffi sem ég ætla að fá mér á hverjum einasta morgni hér eftir.“

Inga var í slíku banastuði þegar hún gagnrýndi sóttvarnaaðgerðir á Bylgjunni í gærmorgun að einum kjósanda hennar þótti nóg um og sendi henni Facebook-skilaboð um að hún hefði verið dónaleg.

„Mér fannst við bara skemmtileg í morgun þó einhverjir hafi fengið hjartaáfall. Ég biðst bara afsökunar á því ef fólk hefur dottið dautt niður, eða að minnsta kosti liðið yfir það.“

Inga segir nýja árið leggjast vel í sig. Fyrir utan stefnu stjórnvalda í sóttvörnum.

„Ég er ekki sátt við hana eins og hún er að þróast núna. Við eigum bara að skima og skima á landamærunum. Ég vil ekki hafa tuttugu, þrjátíu þúsund manns einangraða eða í sóttkví heima. Ég vil hafa þetta fólk í vinnu og hlaupandi úti í samfélaginu.“

Sjálf segist hún ekki vera sótthrædd.

„Ég er bólusett. En bólusettir smita eins og aðrir þannig að ég vil ekki bera veiruna heim til þeirra sem geta ekki tekist á við hana eins og ég gæti gert. Ég myndi taka þessa veiru og syngja bara fyrir hana og hún myndi sofna mjög fljótt hjá mér. En ég vil ekki hafa það á samviskunni að hafa borið hana í þá sem eru virkilega viðkvæmir fyrir því að fá þetta heima hjá mér. Þess vegna er ég að fórna mörgu sem ég gjarnan vildi geta gert,“ segir Inga og nefnir Kryddsíldina þar sem hún kaus að mæta ekki en horfði á að heiman.

„Já, já, já, og það vantaði allt krydd í hana! Ég er að fíflast, vegna þess að það vantaði mig. Og aftur segi ég gleðilegt nýtt ár! Þetta verður dásamlegt ár. Ég held að sumarið verði alveg frábært. Við verðum í sólbaði í allt sumar.“