„Í byrjun fannst mér erfitt að fara inn í samband þar sem þrír aðrir einstaklingar fylgdu með einstaklingnum sem ég var að kynnast,“ segir athafnakonan Lína Birgitta Sigurðardóttir spurð hvernig lífið breyttist eftir að hún kynntist unnustanum Guðmundi Birki Pálmasyni, betur þekktum sem Gumma kíró, og hún varð stjúpmamma.

Að sögn Línu upplifði hún ákveðna pressu og hræðslu í byrjun hvernig hlutirnir myndu þróast.

„Mér fannst það brekka í byrjun því þarna var ég að koma inn sem stakur einstaklingur að kynnast fjórum í einu. Með tímanum hefur allt orðið skýrara og þægilegra og ég get ekki ímyndað mér samband okkar Gumma án þeirra.“

Góður vinur barnanna

Börnin sem um ræðir eru líkt og fyrr segir þrjú og eru á aldrinum sjö til átján ára. Tveir drengir og ein stúlka.

Lína segir það ekki sjálfgefið að þau hafi öll náð saman líkt og gerðist í hennar tilfelli.

„Við getum orðað það þannig að ég er mjög góður vinur þeirra og þau vita að þau geta treyst mér fyrir sínu,“ segir Lína sem telur sig afar heppna þar sem traust og vinskapur hefur vaxið á milli hennar og barnanna.

„Ég elska þau út af lífinu og þau gera sambandið okkar Gumma extra litríkt því ég gæti ekki séð sambandið okkar án þeirra.“

Gummi og Lína ásamt börnunum þremur á jólunum.
Fréttablaðið/Instagram

Mér fannst það brekka í byrjun, því þarna var ég að koma inn sem stakur einstaklingur að kynnast fjórum í einu

Þolinmæði lykillinn

Spurð hvernig hún hafi kynnst Gumma segir Lína að fyrrum einkaþjálfarinn hennar hafi kynnt þau, en hún fór í meðhöndlun til hans eftir að hafa lent í árekstri.

„Ég byrjaði svo að mæta í tíma til hans og við urðum strax góðir félagar en nokkrum árum seinna bauð hann mér svo á deit,“ upplýsir Lína og segir þau hafa verið saman nánast daglega frá þeim degi.

Ellefu ár skilja parið að í aldri en að sögn Línu hefur það aldrei truflað hana og lýsir sambandinu sem traustu.

„Sambandið okkar Gumma er allskonar. Við erum með svipuð áhugamál sem gerir sambandið okkar extra skemmtilegt en við elskum bæði að ferðast, fara út að borða og kíkja í búðir sem dæmi. Svo vitum við bæði að við eigum alltaf pláss hjá hvort öðru til þess að tjá okkur ef það er eitthvað sem liggur á okkur,” segir hún einlæg, en þau hafa verið saman í þrjú ár.

Spurð hvort hún geti gefið konum einhver ráð fyrir stjúpmóðurhlutverið segir Lína: „Mitt ráð er að vera þolinmóður því það tekur tíma að komast í flæðið og læra inná hlutina.”

Gummi og Lína elska að ferðast,f ara út að borða saman og kíkja í búðir.
Fréttablaðið/Instagram