Samkvæmt gögnum frá skráningarstofunni Dýraauðkenni hefur gæludýrahald landans stóraukist í heimsfaraldri.

Þvert á áhyggjur fólks virðast flest þeirra gæludýra sem ættleidd voru á bilinu 2020 til 2022 hafa fengið framtíðarheimili.

„Það hefur orðið sprenging í hundum. Nú eru allir að fá sér hunda,“ segir Daníel Örn Hinriksson, formaður Hundaræktunarfélags Íslands. Hann staðhæfir að fjölgunin sé til komin vegna heimsfaraldurs.

„Ég held að þetta sé uppstokkun hjá fólki sem er farið að horfa á lífið öðrum augum,“ segir hann. „Hraðinn er búinn og fólk þarf ekki að fara til London í hvert einasta skipti sem það á aukadag í fríi. Kannski er þetta búið að vera draumur lengi hjá einhverjum, en fólk ekki gefið sér að láta verða af því fyrr en núna.“

Daníel Örn segist ekki sjá marga hunda í heimilisleit núorðið og segist halda að fólk átti sig betur á ábyrgðinni sem hundahaldi fylgi. „Það eru helst blendingarnir sem lenda á flakki,“ segir hann.“

Enginn hundur í heimilisleit

Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar, svarar aðspurð að ekki hafi verið fjölgun á dýrum á vergangi eftir að samkomutakmörkunum létti og staðan á Íslandi sé ekki eins slæm og erlendis. „Það er miklu minna hér heldur en annars staðar,“ segir Valgerður. „Ástæðan er þróun sem er þannig að fólk er ábyrgara hvað varðar að fjölga dýrunum sínum,“ segir hún og bendir á að sá gamli hugsanagangur sé á undanhaldi að dýr þurfi að fjölga sér í að minnsta kosti eitt skipti áður en þau eru geld. „Þetta var mýta sem þurfti bara aðeins að fræða fólk um,“ segir hún.

Að sögn Valgerðar hafði eftirspurnin aukist nokkuð áður en heimsfaraldur kom til sögunnar.

„Þremur árum fyrir Covid var meiri eftirspurn en framboð eftir dýrunum, sem þýðir að það var hægt að velja heimilið betur,“ segir hún. Þannig hafi verið miklu fleiri um hvert og eitt dýr. „Það gerðist í fyrsta skipti í Covid að það var enginn hundur í heimilisleit.“

Tómt í Kattholti í kóvidinu

Valgerður segir að þó komi bylgjur í þessum efnum. „En það er nóg af fólki sem vill sinna þessum dýrum.“ Aðspurð hvort einhver breyting sé á taktinum í lífi fólks svarar hún. „Ég þekki það ekki, en það getur verið að fólk sé búið að bíða lengi,“ segir hún. Valgerður segir að margir hafi haft miklar áhyggjur í upphafi faraldurs, að fjöldi dýra yrði heimilislaus eftir faraldurinn. En það sé ekki raunin.

Hanna Evensen, rekstrarstjóri í Kattholti, segist hafa séð fjölgun katta í heimilisleit eftir afléttingar. „En það var allt tómt í Covid-inu. Kettir stoppuðu mjög stutt hjá okkur þá. En við erum aðeins farin að finna fyrir því aftur,“ segir Hanna.

Hún tekur þó fram að fólk fari leynt með það ef dýrinu er skilað vegna breytinga í tengslum við faraldurinn. „Fólk er ekkert að viðurkenna að það sé þetta Covid-ástand,“ segir hún. „En mér finnst vera aukning.“

Vill meta stöðuna í haust

Hanna segist óska þess að allir sem vilji ketti eignist ketti. „En ég vil ekki að fólk skili þeim. Þeir kettir sem fara frá okkur, þeir fara á heimili þar sem fólk er að eignast nýjan fjölskyldumeðlim,“ segir hún.

„Þeir kettir sem fóru frá okkur í Covid-inu fóru til frambúðar. Það er mjög mikilvægt að fólk sé ekki að taka að sér ketti vegna þess að því leiðist og það kemst ekki í vinnu,“ segir hún.

Að sögn Hönnu er of snemmt að staðhæfa strax um hvernig íslenskir kettir komi út úr heimsfaraldrinum. „Ég vil ekki vera með staðhæfingar. Sjáum hvernig sumarið þróast.“