Kaja organic á Akranesi hefur um nokkurra ára skeið boðið landsmönnum upp á úrval af vönduðum lífrænt ræktuðum vörum í Matarbúri Kaju og á kaffihúsinu Café Kaju á Akranesi. Karen Emilía Jónsdóttir stofnaði fyrirtækið í mars 2013 en hún flytur vörurnar inn frá Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi og pakkar heima undir vörumerkinu Kaja. „Þessar vörur seljum við beint til neytenda auk þess að flytja inn lúxusmatvörur fyrir verslanir. Við sérhæfum okkur einnig í að þjónusta framleiðendur, stóreldhús og sérverslanir, auk leik- og grunnskóla,“ segir Karen.

Frábærar vörur

Framleiðsluvörur Kaju eru lífrænt vottaðar og gerðar úr gæðahráefnum segir Karen. „Meðal vinsælla vara má nefna Latte drykkina sem eru haframjólkurdrykkir sem innihalda m.a. ýmis heilsusamleg krydd og vegan terturnar okkar sem eru einstaklega hollar enda búnar til úr fræjum, hnetum og ávöxtum. Ketó brauðin svokölluðu eru einnig glútenlaus en þar er undirstaðan möluð fræ. Frækexið bragðgóða er ekkert nema hollustan enda búið til úr m.a. fræjum og möndlumjöli. Ekki má gleyma að minnast á ferska pastað sem er unnið úr Demeter vottaðri semolinu frá Ítalíu og íslenskum lífrænum eggjum. Það er hrikalega bragðgott og að mínu mati það besta á markaði hérlendis.“

Spennandi ár í vændum

Árið í ár verður viðburðaríkt og spennandi. „Það sem er mest spennandi er að koma þeim vörum, sem við erum að bjóða upp á í Café Kaju, í sölu í verslanir. Þar er helst að nefna fiskibollurnar okkar sem eru bæði ketó og glútenlausar, falafelið okkar sem þykir virkilega gott og rauðlaukssultuna okkar sem er einstök. Í þessum töluðu orðum var ketóbrauðið okkar að fara á markað í Reykjavík, bæði bakað og sem frosið deig, tilbúið í ofn fyrir bakarí og verslanir.“

Ljúffengar veitingar

Café Kaja er eina lífrænt vottaða kaffihús landsins og hefur það að leiðarljósi að bjóða upp á skemmtilega samsettan mat segir Karen. „Við flokkum okkur sem pescaterian en kjöt er ekki á boðstólum hjá okkur. Daglega er boðið upp á tvær gerðir af súpum og er kókoskarrísúpan okkar í boði alla daga en hin er svo ketó- og veganvæn. Auk þess bjóðum við upp á samlokur, múffur og svo skemmtilega samsetta rétti úr úrvals hráefnum sem einkenna okkur.“