„Ég held ég hafi smitast af bílabakteríunni af afa, Herði Guðmundssyni, en hann var vélvirki. Um leið og ég var farinn að labba, þá vorum við farnir að tala um bíla, svo er pabbi líka jeppakarl. Mig minnir að ég hafi keypt minn fyrsta bíl með pabba 15 eða 16 ára,“ segir Kristján Örn.

„Við tókum bensínvélina úr honum, settum í hann dísilvél og breyttum honum meira. Svo um leið og ég var kominn með bílpróf, þá fór ég að jeppast. Síðan hefur þetta farið síversnandi,“ bætir hann við hlæjandi.

Kristján Örn fer mikið í jeppaferðir á fjöll á veturna og notar breyttan jeppa í ferðirnar.

„Ég er á 46 tommu 80 Cruiser. En þetta er eini Cruiser-inn á landinu sem er með Cummins-mótor. Þegar ég keypti hann var hann 44 tommur, breyttur með orginal vél. Ég setti í hann Cummins-vélina og breytti honum í 46 tommur,“ útskýrir hann.

„Ég frétti af því að enginn á landinu væri með Cummins í Land Cruiser, svo ég varð að vera fyrstur í því,“ bætir hann við og útskýrir að Cummins sé stór iðnaðarmótor sem er í alls kyns vélum eins og ljósavélum, gröfum og vörubílum.

„Þetta er mótor sem eyðir litlu, vinnur vel og er með mikið af hestöflum. Hann er þungur, en hagstæður,“ segir hann og bætir við hlæjandi að hann sé það hrifinn af Cummins-mótornum að hann sé oft kallaður Stjáni Cummins.

Kristján keyrir á fjöll á breyttum Land Cruiser með Cummins-vél.

Snýst ekki bara um að keyra

Það þarf alltaf að passa upp á að bíllinn sé vel búinn fyrir svona vetrarjeppasport, að sögn Kristjáns Arnar.

„Góður vetrarbíll er með læsingar að framan og aftan, flestir eru með skriðgír og svo er nauðsynlegt að hafa talstöð, GPS- tæki, spil, tjakka og spotta. Svo er maður alltaf með helstu verkfæri ef eitthvað bilar. Þegar ég fer í þessar ferðir er ég yfirleitt með allt of mikið af drasli með mér. Ekki endilega af því ég þurfi á því að halda heldur tek ég það líka með ef eitthvað skyldi bila hjá einhverjum öðrum. Það er mottóið mitt að vera frekar með aðeins of mikið en lítið, þó það þyngi aðeins bílinn.“

Það sem heillar Kristján Örn mest við jeppaferðir á veturna er adrenalín-kikkið sem hann fær út úr því, en líka útsýnið, fjöllin og landið.

„Þetta snýst ekki bara um að keyra, líka að njóta útsýnis, gista í skálum, segja hetjusögur og hlusta á aðra segja sögur. Þetta er alveg sér menning þessi fjallamennska. Þetta er hrikalega skemmtilegt sport.“