Fyrstu kepp­endur í stefnu­móta­þátta­röðinni Tinder laugin voru af­hjúpaðir á Insta­gram í dag. Spyrlar þáttanna verða förðunar­fræðingurinn Kristín Avon, hlað­varps­stjarnan Sara Björk og frí­stundar­leið­beinandinn Dag­björt Rúriks.

Hvetur á­huga­sama að sækja um

„Ef þið hafið á­huga á að komast á deit með þessum skvísum, ekki hika við að senda um­sókn á Tinder­laugin@gma­il.com,“ segir þátta­stjórnandinn Lína Birgitta Sigurðar­dóttir á Insta­gram. Þættirnir verða frum­sýndir á vef Frétta­blaðsins í lok nóvember og að sögn Línu er um að ræða al­gera veislu.

„Þessi þáttur er fyrir þá sem eru á lausu og hafa húmor fyrir sjálfum sér sem þora að fara út fyrir þæginda­hringinn og taka þátt því þetta snýst um að hafa gaman. Þetta á eftir að vera svo gott efni, svo gott,“ sagði Lína á Insta­gram í gær.

Nú­tíma út­gáfa af Djúpu lauginni

Hún sótti inn­blástur í Djúpu laugina, stefnu­­móta­þætti sem nutu mikilla vin­­sælda á Skjá einum á sínum tíma, en Lína segir nýju þættina þó taka mið af því sem er að gerast í stefnu­­móta­­senunni í dag.

„Þetta verður í raun eins og Djúpa laugin með Tinder í­vafi,“ sagði Lína í sam­tali við Frétta­blaðið í vikunni. Þættirnir verða settir upp þannig að, líkt og í Djúpu lauginni, verður einn spyrill og þrír kepp­endur sem keppast um að vinna stefnu­­mót með því að svara spurningum um per­­sónu­­leika sinn.