Fyrstu bleiku októberstjörnurnar voru afhentar í verslun Blómavals í Skútuvogi í gær en um er að ræða fagur bleikt afbrigði af hinni klassísku jólastjörnu sem ræktað er til stuðnings bleiku slaufunnar.

Þá tók fulltrúi Krabbameinsfélags Íslands við fyrsta blóminu í ár en átakið hófst formlega í gærkvöldi.

„Í ár munum við ekki aðeins selja októberstjörnuna í öllum verslunum Blómavals heldur einnig í öllum verslunum Húsasmiðjunnar um land allt. Við hvetjum fólk til að lífga upp á bæði heimili og vinnustaði með þessu fallega, skærbleika blómi og styrkja um leið mikilvægt átak sem snertir okkur öll,“ segir Diana Allansdóttir, deildarstjóri hjá Blómaval, og bætir við að salan hafi aukist ár frá ári og að þau reikni með að selja á bilinu 1-2000 októberstjörnur á meðan birgðir endast í október.

„Við vonum að hægt verði að skapa hefð fyrir októberstjörnunni svo við getum boðið hana á hverju ári og smám saman aukið magnið því þetta er virkilega falleg planta og kaupin styðja auk þess við gott málefni. Svo er auðvitað hægt að nálgast Bleiku slaufuna í verslunum okkar, sem er sérlega falleg í ár,“ segi hún.

„Í gær hófst átak Bleiku slaufunnar og því tilvalið að hefja leika með kaupum á fallegri, bleikri októberstjörnu en hluti ágóðans rennur til styrktar átakinu,“ segir Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og fjáröflunar hjá Krabbameinsfélagi Íslands sem tók við fyrstu októberstjörnunni í ár.

„Bleika slaufan gegnir afar stóru hlutverki í markaðs- og fjáröflunarstarfi Krabbameinsfélagsins og gerir félaginu kleift að vinna að sínum meginmarkmiðum sem eru að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum, að lækka dánartíðni þeirra sem greinast með krabbamein og að bæta lífsgæði þeirra sem greinast og aðstandendur þeirra," segir Árni.