Jedi riddarinn Obi-Wan er mættur aftur á skjáinn í nýrri sjón­varps­þátta­seríu, Obi-Wan Kenobi, á Disney+ eftir að hafa sést síðast á hvíta tjaldinu árið 2005.

Í til­efni þessa verður Bíóvarp Frétta­blaðsins með sér­staka hlað­varpsseríu þar sem blaðamennirnir og Stjörnustríðsnördarnir Þórarinn Þórarinsson og Oddur Ævar Gunnarsson greina og ræða hvern þátt, viðtökurnar sem þeir fá og tengingar fram og til baka við fortíð og mögulega framtíð Star Wars í sjónvarpi og kvikmyndum. Fyrsta þátt má hlusta á neðst í fréttinni.

Hverfandi líkur eru þó á því að þeir muni tala endalaust einum rómi þar sem þeir eru fulltrúar tveggja ólíkra kynslóða Star Wars aðdáenda þar sem Þórarinn tilheyrir fyrstu kynslóð þeirra sem sáu Star Wars fyrst í Nýja bíó 1978 en Oddur er af næstu kynslóð sem kennd er við forleikina og sá sína fyrstu Stjörnustríðsmynd í bíó 1999 þegar The Phantom Menace var frumsýnd.

Fyrsti hlaðvarpsþátturinn er kominn í loftið og þar eru fyrstu tveir þættirnir í sjón­varpsseríunni um Jedi-riddarann heims­fræga ræddir og hvernig aðkoman er að honum í útlegðinni á eyðimerkurplánetunni Tatooine þar sem ekkert stéttar­fé­lag á borð við Eflingu fyrir­finnst og alþýðan svo kúguð og þjökuð að ekkert veitir af því að eins og einn Jedi láti hendur standa fram úr víðum ermum.

Aldrei áður hefur komið fram hvað riddarinn atarna var að brasa öll þessi ár sem hann mátti dúsa á sandöldunum þangað til neyðarkallið kom frá Leiu prinsessu í fyrstu myndinni þannig að enginn skortur er á umræðuefni.

Þriðja Kenobi-þættinum var streymt á Disney+ í dag og hann verður afgreiddur í næsta hlaðvarpsþætti fyrir helgina. Rétt er að vara þau sem eru viðkvæm fyrir spilliefni að hlusta ekki fyrr en að loknu áhorfi á hvern þátt þar sem þáttastjórnendur halda hvergi aftur af sér og ræða framvindu þáttanna og allt sem vekur athygli þeirra af einurð og festu.

Þættirnir verða alls sex talsins, eða jafn­margir og sjónvarpsþættirnir um Jedi-riddarann magnaða. Þættirnir eru aðgengilegir á Spotify og hægt er að hlusta á fyrsta þátt hér að neðan.