Fyrsti samlestur á söngleiknum Chicago fór fram í Samkomuhúsinu á Akureyri í vikunni. Leikfélag Akureyrar frumsýnir Chicago í janúar 2023 og fer fjöldi þekkta leikara og söngvara með hlutverk í sýningunni.
„Þetta var æðislegt, ótrúlega skemmtilegt og fyndið og það er valinn maður í hverju rúmi,“ segir Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og leikstjóri Chicago.

Með aðalhlutverk fara Jóhanna Guðrún, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Björgvin Franz Gíslason, Margrét Eir, Bjartmar Þórðarson og Arnþór Þórsteinsson. Með önnur hlutverk fara Ahd Tamimi, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Elma Rún Kristinsdóttir, Kata Vignisdóttir, Anita Þorsteinsdóttir og Molly Carol Birna Mitchell. Um danshreyfingar sér Lee Proud, tónlistarstjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og leikmyndahönnuður er Eva Signý Berger.
Chicago er einn þekktasti söngleikur leikhúsbókmenntanna og hefur unnið til fjölda verðlauna frá því hann var frumsýndur á Broadway 1975. Uppsetning verksins frá 1996 er langlífasta Broadway-sýning sögunnar en hún er enn í gangi, 26 árum síðar. Meðal þekkta leikara sem hafa leikið í Chicago eru Liza Minnelli, Pamela Anderson, Brooke Shields, Patrick Swayze og Jerry Springer. Árið 2002 var gerð kvikmynd eftir söngleiknum með Catherinu Zetu-Jones, Renée Zellweger og Richard Gere í aðalhlutverkum sem vann til sex óskarsverðlauna.