Fólk

Fyrsta skrefið er yfir þröskuldinn heima

Kolbrún Kristínardóttir barnasjúkraþjálfari rannsakaði viðhorf íslenskra og norskra foreldra til frítíma barna, samveru fjölskyldunnar og útiveru.

Kolbrún tók eftir því að norskar fjölskyldur verji meiri tíma saman utandyra en íslenskar fjölskyldur.

Kolbrún Kristínardóttir barnasjúkraþjálfari hefur lengi haft áhuga á lýðheilsu, útivist og hreyfingu. Hún flutti til Noregs árið 2007 og lauk mastersprófi frá Háskólanum í Lillehammer. Þegar að því kom að velja lokaverkefni ákvað Kolbrún að skoða hvaða gildi og viðhorf íslenskir og norskir foreldrar hafa til frítíma barna, samveru fjölskyldunnar, náttúrustunda og útiveru.

„Niðurstöðurnar sýndu fram á að norskir foreldrar lögðu mikla áherslu á útivist og samverustundir úti í náttúrunni og lýstu jákvæðum áhrifum útiveru fyrir andlega- og líkamlega vellíðan barna sinna. Áhersla íslensku foreldranna var hins vegar meiri á heilsuuppeldi í gegnum skipulagða íþróttaiðkun,“ segir Kolbrún.

Hvað vakti áhuga þinn á þessu verkefni? „Eftir að ég flutti til Noregs tók ég eftir því að norskar fjölskyldur virðast verja meiri tíma saman utandyra en íslenskar fjölskyldur. Mig langaði að kanna hvers vegna útivist er rík í norskri menningu en þar er t.d. svokallaður søndagstur, eða gönguferðir á sunnudegi, nauðsynlegur hluti af lífi margra fjölskyldna. Ég ákvað því að kanna hvort það væri mikill munur á þessum frændþjóðum í þessum efnum.“

Um eigindlega rannsókn er að ræða þar sem gögnum var safnað með hálfopnum viðtölum við foreldra í Hafnarfirði og Lillehammer. „Ég talaði við fimm fjölskyldur í hvoru landinu. Niðurstöður voru túlkaðar út frá lýðheilsusjónarmiðum, kenningum um foreldra sem fyrirmyndir og kenningum um menningar- og samfélagsleg áhrif. Í raun speglast þær í hinum ýmsu viðjum samfélagsins, þar með töldum lögum, reglugerðum, skólanámskrám og tungumáli. Foreldar í báðum löndum töldu að útileikur barna væri hverfandi og að frjálsi radíusinn, ef svo má segja, í leiknum hefði minnkað,“ segir Kolbrún sem hefur haldið fyrirlestra um rannsóknina í íslenskum leik- og grunnskólum sem hafa vakið mikla athygli.

Útivist er stór hluti af lífi Kolbúnar og hennar fjölskyldu. Hún er gift og á tvö börn, 9 og 14 ára.

Foreldrar mikilvæg fyrirmynd

Að mati Kolbrúnar er mikilvægt að fjölskyldan fari út og njóti þess saman að vera í útivist. „Að foreldrar stundi virka samveru, t.d. útivist, með börnunum sínum hefur töluvert forspárgildi um hvort þau velji sér virkan lífsstíl síðar á lífsleiðinni. Útivist hefur ekki aðeins góð áhrif á líkamlega heilsu heldur einnig þá andlegu. Þegar komið er út undir bert loft talar fólk frekar saman og síminn fer í pásu. Við þurfum að vera saman, njóta og upplifa. Foreldrarnir eru mikilvægasta fyrirmynd barnanna og þau læra best það sem þau upplifa og eru þátttakendur í,“ segir hún.

Kolbrún telur að áhugi Íslendinga á útivist hafi almennt aukist mjög undanfarin ár en segir að það sé spurning um hvort fjölskyldan sé öll saman í útivist. „Það virðist vera sem fullorðnir stundi útivist, svo sem fjallgöngur, og taki þátt í keppnum á borð við Landvætti en börnin eru kannski of sjaldan með í útivistinni,“ segir hún.

Kolbrún vann einnig við sjúkraþjálfun barna í Noregi og var meðal annars með börn í ofþyngd í þjálfun. Hún segir að besti árangurinn hafi náðst þegar fjölskyldan fór saman í göngutúra eða stundaði aðra útivist.

Kolbrúnu þykir börnin of sjaldan fá að taka þátt í útivist með foreldrum sínum.

Hreyfingarleysi stórt vandamál

Kolbrún nefnir að samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sé hreyfingarleysi eitt af stærstu vandamálum heimsins í dag. „Það hefur sýnt sig að áhugi og hvatning fyrir hreyfingu er meiri utandyra og víðtækur heilsuávinningur felst í því einu að vera úti í náttúrunni. Við á Íslandi erum svo lánsöm að hafa aðgang að fallegri náttúru allan ársins hring sem við getum nýtt okkur vel. Það er alltaf hægt að finna gönguleiðir sem passa öllum í fjölskyldunni eða fara í léttar fjallgöngur. Best er að miða við getu þess yngsta í hópnum. Foreldrar gegna lykilhlutverki í mótun heilsuhegðunar barna sinna og mótunarárin hafa stór áhrif á heilsu þeirra síðar í lífinu.“

Þegar Kolbrún er spurð um ráð til að koma reglulegri útivist inn í þéttskipaða dagskrá flestra fjölskyldan segir hún gott að byrja á að setja sér raunhæf markmið. „Fyrst þarf að koma sér yfir þröskuldinn. Ég mæli með að setja sér hvorki of stór né of háleit markmið. Það gæti t.d. verið sniðugt að byrja á að fara í nestisferð skammt frá heimilinu en það ætti öllum að finnast skemmtilegt. Það gerist eitthvað við að fara út. Það verður einhver önnur nánd. Allir verða afslappaðri því náttúran hefur róandi áhrif á fólk. Vissulega getur verið erfitt að koma sér út um dyrnar en um leið og farið er af stað breytist stemningin.“

„Stundum förum við bara rétt út fyrir bæjarmörkin og eldum okkur kvöldmat úti á prímus.“

Tjaldútilegur allt árið um kring

Útivist er stór hluti af lífi Kolbúnar og hennar fjölskyldu. Hún er gift og á tvö börn, 9 og 14 ára, en þau fluttu heim aftur fyrir einu og hálfu ári. „Við förum saman í gönguferðir og fjallgöngur, förum á gönguskíði jafnt sem svigskíði, allt eftir tíma og hvað hentar hverju sinni. Stundum förum við bara rétt út fyrir bæjarmörkin og eldum okkur kvöldmat úti á prímus eða bökum okkur pönnukökur, enda bragðast allur matur betur utandyra. Við förum í tjaldútilegur allt árið um kring, nú síðast fyrir þremur vikum. Við vöknuðum í snjóhúsi, svo mikið hafði snjóað um nóttina. Þetta er sá lífsstíll sem börnin mín þekkja.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Uppskrift: Einfalt en gómsætt konfekt

Kynningar

Elskum að dekra við konur

Kynningar

Gleði og hátíðleiki hjá Sinfóníunni

Auglýsing

Nýjast

Doktor.is: Streita og kulnun

Idol­kempurnar Ru­ben og Clay slá upp jóla­tón­leikum

Lífið, alheimurinn, allt og þú

Ritstjórinn og skáldið slást um tímann

Emmsjé Gauti hannar strigaskó

Hið góða mest gúgglað árið 2018

Auglýsing