Gunnar Hjálmarsson, Doktor Gunni, hefur ásamt hljómsveit sent frá sér sitt fyrsta útgefna jólalag. Lagið ber titilinn Faðir Abraham.

„Mig dreymir stundum einhver lög og mig dreymdi þessa melódíu. Textinn var: Meira myrkur, það var sú lína sem draumurinn kom með,“ segir Gunni um lagið. „Þá gat ég annað hvort samið drungalegt þunglyndislag, en svo fattaði ég að þetta gæti verið jólalag,“ segir hann.

„Ég hef aldrei samið jólalög áður sem hafa komi opinberlega út. Þá samdi ég þetta lag upp úr þessum draumi. Þetta er eiginlega framhaldssaga um manninn sem var með Bónuspokann í fyrra, Aumingjann,“ segir Gunni og vitnar til lagsins Aumingi með Bónuspoka sem kom út á plötunni Nei ókei í fyrra. „Núna er hann að snapa sér jólahátíð hjá vinkonu sinni,“ segir Gunni. „Nafnið kemur fram, hann heitir Sveinn. Kærastan hans heitir Helga og það hefur eitthvað slest upp á vinskapinn hjá þeim, en þetta fer svona þokkalega vel,“ segir Gunni kíminn.

Aðspurður hvort hann sé mikill jólamaður, svarar hann: „Ja, það eru nú margir sem vilja að það sé í lagi að spila jólalög frá 1. desember. Mér finnst nóg að spila síðustu vikuna fyrir jól. Þetta eru voða mikið sömu lögin. Þetta verður ógeðslega þreytt þegar þetta eru fjórar vikur. En þetta er frábært allt saman, ágætis tími.“

Gunni segist aðeins vera farinn að hugsa út í gjafir og undirbúning jólanna. „Svo bara vonar maður að þetta verði klassískt jólalag og stefgjöldin bara hrúgist inn á hverju ári.“