Tón- og myndlistarkonan Sunna Margrét Þórisdóttir gefur í dag út stuttskífuna Art of History á vínyl. Hún er fáanleg hjá Reykjavík Record Shop á Íslandi og No Salad Records í Sviss frá og með deginum í dag. Tónlistin er elektrónísk og tilraunakennd.

Nóg að gera í Sviss

„Það eru fimm lög á henni. Þrjú á a-hlið og tvö á b-hlið. Fyrsta lagið kom út síðasta föstudag. Platan er nefnd eftir því, Art of History. Þriðja janúar verður öll platan svo aðgengileg á netinu,“ segir Sunna.

Í tilefni þess mætir Sunna til landsins og heldur hlustunarpartí á Iðnó.

„Svo ætla It is magic að plötusnúðast. Það eru þeir Logi Leó og Alexander Jean.“

Sunna flutti til Lausanne í Sviss til að nema myndlist fyrir þremur árum, en hún lauk bakkalárgráðunni nú í sumar.

„Ég hafði lokið tveggja ára námi við Myndlistarskólann í Reykjavík áður en ég fór út. En ég er enn þá hér úti, að gera tónlist og myndlist. Ég er með tónleika og listsýningar mjög reglulega. Þetta er aðeins stöðugra hérna úti, það er alltaf eitthvað í hverjum mánuði. Ég er einmitt með tónleika á miðvikudaginn, en þeir eru aðeins öðruvísi. Þar spila ég jólalög með strákunum sem spila með mér vanalega, það gerum við árlega í jólaboði skólans sem ég var í. Það er smá svona pönk-grín. Fólk að borða raclette á meðan, alvöru svissnesk stemning,“ segir Sunna.

Horfum ekki með augunum

Hún segir að nýja platan snúist mikið um minningar og hvernig fólk vinnur úr þeim.

„Hvert einasta lag á henni á sér einhverja sögu. Lögin eru sum úrvinnsla á einhverju ákveðnu atviki. Svipað og við gerum í raun á nóttunni þegar okkur dreymir, þá erum við að vinna úr minningum. Ég er að lesa bók sem heitir Sensible Life og snertir á þessari pælingu. Í henni er fjallað um hvernig við lesum í allt sem við sjáum. Þar er því haldið fram að við horfum ekki með augunum, en við sjáum með þeim. Það er í raun heilinn sem horfir og vinnur úr því sem hann sér. Mér finnst áhugavert að velta því fyrir sér hvernig við vinnum úr þeim upplýsingum sem við fáum.“

Umslagið er hannað af Jean Claude Jaquettie en fuglinn er gömul teikning eftir Sunu sjálfa.

Sunna er nýkomin aftur til Sviss, en hún var stödd hér á landi og tók í leiðinni við Kraumsverðlaununum, sem hún hlaut ásamt nokkrum öðrum efnilegum tónlistarmönnum.

„Núna stend ég á fullu í flutningum hérna út. Útgáfa plötunnar hefur verið svolítið númer eitt, tvö og þrjú hjá mér undanfarið. En ferlið á bak við gerð þessarar plötu hefur verið svolítið fyndið, næstum eins og það hvíli einhver furðuleg álög á henni.“

Gleði og hrakföll

Hún segir álögin bæði hafa virkað henni í hag og ekki.

„Fyrst vildi Reykjavík Record Shop gefa hana út, sem mér fannst alveg æðislegt. Svo er ég tilnefnd til Kraumsverðlaunanna. Ég vinn þau svo ásamt öðrum og platan er ekki einu sinni komin út. En hvað hrakföllin varðar þá var fyrsta eintakinu af vínylnum stolið. Við vorum að sýna eintakið og þurftum svo að ná í bílinn til að ferja restina af plötunum í geymslu. Við lögðum plötuna frá okkur í fimm mínútur og þegar við komum til baka var hún horfin. Það var ekki laust við að ég væri hreykin, að einhver skyldi kannski vera svona spenntur yfir smáskífunni minni,“ segir Sunna hlæjandi. „Í dag fannst hún svo í ruslatunnu. Þá bara hló ég, hvað er eiginlega að gerast með þessa plötu? Þannig að ég er búin að finna fyrir þessum álögum og mjög forvitin að vita hvað gerist næst.“

Art of History fæst í Reykjavík Record Shop við Klapparstíg 35. Hún verður svo fáanleg á streymisveitum 3. janúar, en sama dag fer hlustunarpartíið fram í Iðnó.