Fyrrverandi piparsveinninn Colton Underwood greindi frá því í viðtali í dag að hann er samkynhneigður. Underwood, sem var Pipar­sveinninn í 23. seríu þáttarins árið 2019 en var fyrst kynntur inn sem þátt­takandi í 14. seríu Bachelorette árið 2018. Auk þess var hann stutt í Bachelor in Para­dise.

Í við­tali við Robin Roberts í þættinum „Good Morning America“ í dag sagði Underwood að hann væri til­búinn að lifa eftir sínum eigin sann­leik.

„Ég hef hlaupið frá þessu í langan tíma og hatað sjálfan mig í langan tíma,“ sagði hann. „Og ég er sam­kyn­hneigður. Og ég sætti mig við það fyrr á árinu og hef verið að melta það. Og næsta skrefið í ferlinu var að láta fólk vita,“ bætti hann við og sagðist enn stressaður yfir þessu en að árið hafi sannar­lega verið við­burða­ríkt.

Underwood sagðist vera kominn á stað í sínu lífi þar sem hann gæti verið hrein­skilinn við sjálfan sig, eftir síðasta ár. Fyrir hann hafi 2020 verið árið sem hann leit í eigin barm og neyddist til að skoða það hver hann er og hverju hann hefur verið að fresta í sínu lífi.

Underwood sagði að hann hefði aldrei verið hamingju­samari en nú og að hann hafi farið í gegnum myrka tíma þar sem hann upp­lifði það að hann hefði frekar dáið en að segja frá því að hann sé sam­kyn­hneigður.

„Það var móment í LA þar sem ég vaknaði og hélt að ég myndi ekki vakna. Ég ætlaði mér ekki að gera það. Og ég gerði það,“ sagði hann og rifjaði upp tíma­bil þar sem hann hug­leiddi sjálfs­vígs­hugsanir og það hafi leitt hann til þess að taka aftur stjórnina á lífi sínu.

Viðtalið við Underwood er hægt að horfa á í heild sinni hér að neðan.

Bað konurnar afsökunar

Spurður um konurnar úr Bachelor sem gæti nú liðið eins og þær hafi verið blekktar sagði Underwood að hann gæti skilið ef þeim myndi líða þannig. Hann sagðist hafa hugsað mikið um tíma sinn í þáttunum og hvað hann hefði getað „höndlað“ það betur. Hann sagði telja sig hafa getað það og bað konurnar af­sökunar auk þess sem hann þakkaði þeim. Hann sagði að án þeirra og án Bachelor þáttanna hefði hann lík­lega aldrei komist á þann stað sem hann er á í dag.

Hann sagði í við­talinu að hann hafi vitað frá því að hann var ungur að hann væri sam­kyn­hneigður en hefði verið alinn upp í kaþólskri trú hafi hann lært að það væri synd og það, á­samt mörgu öðru, hafi orðið til þess að honum hafi liðið eins og hann gæti ekki komið út úr skápnum.

„Ég vaknaði á morgnanna og óskaði þess að hann [Guð inn­sk. Blm] myndi taka sam­kyn­hneigðina burt. Ég bað þess að hann myndi breyta mér.“

Underwood sagðist ekki enn hafa átt í til­finninga­legu sam­bandi við mann af sama kyni en að hann væri spenntur fyrir því að finna sér mann.

„Ég hef aldrei leyft mér það og það var aldrei í spilunum hjá mér að leyfa mér það, og ég vil það meira en allt. Ég er að leita að ein­hverju sem getur hvatt mig á­fram og skorað á mig á allra besta máta,“ sagði hann.

Í við­talinu ræddi Underwood einnig sam­band sitt við Cassi­e Randolp, nálgunar­bannið sem hún fékk gegn honum og annað tengt þeirra sam­bandi.

„Ég er enn sami Col­ton og allir þekkja úr sjón­varpinu. Ég er enn sami Col­ton fyrir vinum mínum og fjöl­skyldu en það vill svo vel til að núna get ég deilt því með fólki hver ég er allur,“ sagði hann og bætti við:

„Og ég er stoltur af því, þú veist? Ég er stoltur af því að vera sam­kyn­hneigður.“

Ef þér líður illa eða upplifir sjálfsvígshugsanir hringdu í 1717 eða netspjallið.